Sala á áfengi og tóbaki

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 15:10:15 (2984)

1997-02-03 15:10:15# 121. lþ. 60.2 fundur 169#B sala á áfengi og tóbaki# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[15:10]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram vegna þessarar fyrirspurnar að mér er kunnugt um að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur beðið um utandagskrárumræðu um þetta mál síðar í vikunni og gefst þá auðvitað tækifæri til þess að ræða það betur. Ég vil einnig taka fram að sú stefna sem hefur verið hér til umræðu í þjóðfélaginu að undanförnu er mörkuð af stjórn ÁTVR en hún starfar samkvæmt lögunum um stofnunina.

Ég held að það sé til fyrirmyndar að marka stefnu til lengri tíma eins og stjórn fyrirtækisins hefur gert. Þess hefur ávallt verið gætt þegar þessi stefna hefur verið kynnt að hún krefst lagabreytinga til þess að hún nái fram að ganga og það gerist ekki án afskipta ríkisstjórnar og stjórnarmeirihlutans.

Ég vek athygli á því af því að hv. ... (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu. Það þarf meiri hluta á Alþingi, stjórnarmeirihlutinn er þannig myndaður. (Gripið fram í: Það er betra.)

Athygli vekur að skoðanakönnun Gallups segir, þrátt fyrir að þeir sem spurðir voru séu 20 ára og eldri, að 25% hafi drukkið svokallaðan landa eða bruggað áfengi. Þetta segir okkur að það eru ekki einungis viðskiptasjónarmið sem liggja að baki því t.d. að lækka verð á léttum vínum og bjór heldur gætu þar legið önnur sjónarmið nær heilbrigðissjónarmiðum vegna þess að búast má við að lækkun á þessum áfengistegundum dragi úr drykkju unglinga og annarra á ólöglegu áfengi.

Ég vil taka fram að ég hef ekki skoðað í einstökum atriðum hvort þetta samræmist stefnu sem gefin hefur verið út af ríkisstjórninni varðandi áfengi og fíkniefni, en tek skýrt fram vegna tóbaksins að ég tel að það megi og eigi að fylgja heilbrigðisstefnu sem við höfum fylgt varðandi verðlagningu á tóbaki og að það sé hægt án þess að ÁTVR annist heildsöludreifingu á því.