Sala á áfengi og tóbaki

Mánudaginn 03. febrúar 1997, kl. 15:13:57 (2986)

1997-02-03 15:13:57# 121. lþ. 60.2 fundur 169#B sala á áfengi og tóbaki# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[15:13]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég vona að það hafi ekki farið fram hjá neinum, hvorki þeim sem lesa blöð eða hlusta á fjölmiðla, né heldur eftir að ég talaði hér, að ég styð þá stefnu sem hefur komið fram hjá stjórn ÁTVR. Mér var hún kynnt og ég hef lýst yfir stuðningi við hana. Það er heldur ekki nýtt varðandi tóbakið vegna þess að ég hef flutt og flutti á sínum tíma inn á Alþingi, þá á vegum annarrar ríkisstjórnar en þeirrar sem nú situr, frv. sem gerði ráð fyrir þeim breytingum sem stjórn ÁTVR er að leggja til nú. Þetta þarf að koma fram. Ég sé ekki að sú stefna sem stjórn ÁTVR hefur mótað fari gegn því sem hv. þm. las upp úr stefnunni um áfengis- og fíkniefnamálin því það er ekkert sem segir að aðgengi barna og unglinga verði meira þótt stefna stjórnarinnar nái fram að ganga. Ég bið hv. þm. um að íhuga það rækilega hvort börn og ungmenni hér á landi hafi ekki haft aðgang að áfengi og það ólöglegu áfengi.