Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 15:05:21 (3054)

1997-02-04 15:05:21# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. 2. minni hluta SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[15:05]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Svavar Gestsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér er fullkunnugt um að hv. þm. Stefán Guðmundsson vill gera þessa hluti eins og hann lagði hér fyrir og greindi frá. En vandinn er nú sá að hann ræður þessu ekki einn. Og til þess að þessir hlutir sem hann er að tala um væru skýrir, þá er í raun og veru nauðsynlegt að setja um þá lagaákvæði. Í tillögum mínum geri ég ráð fyrir því að það sé einmitt fest inn í lögum ákvæði um að fyrst skuli lækka verð og svo borga út arð. Og ef hv. þm. er þessarar skoðunar þá skora ég á hann að koma til móts við sjónarmið mín og sjálfs sín með því að styðja þessa tillögu. Ég held hins vegar, herra forseti, að það sé dálítið flókið mál að leggja 500 millj. kr. ofan á raforkuverð í landinu til þess að veita þær til uppbyggingar allt í kringum landið. Ég held að það sé betra að lækka raforkuverðið í landinu. Ég held að það sé betra fyrir atvinnulífið og betra fyrir dreifbýlið. Og ég spyr: Hver á að úthluta þessum 500 milljónum? Er það Byggðastofnun? Hver er það? Eða er það iðnrn.? Ég held satt að segja að sú leið, sem hv. þm. er að gera sér vonir um í þessu samhengi, sé ekki til. Þess vegna virði ég vilja hans mikils og þykir vænt um að heyra hann. Sömuleiðis það starf sem hann vann sem formaður nefndarinnar þar sem hann reyndi aldrei að halda neinu leyndu --- það skal ég taka hér fram, en ég segi það, með mikilli virðingu fyrir honum, að ég tel að hann ráði því miður ekki við að knýja fram í verki þann góða vilja sem hann hefur í málinu.