Landsvirkjun

Þriðjudaginn 04. febrúar 1997, kl. 19:37:41 (3078)

1997-02-04 19:37:41# 121. lþ. 61.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur

[19:37]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Mér er ekki enn þá ljós afstaða hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar til þessa máls. Styður hann að málið nái fram að ganga eins og 1. minni hluti iðnn. gerir og kom fram í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar fyrr í dag? Styður hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson samninginn sem ríkið, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær hafa gert um arðgreiðslumarkmið næstu árin hjá Landsvirkjun? Þetta hefur ekki komið fram í ræðum hans hér í dag og enn einu sinni virðist vera gríðarlega mikill áherslumunur á milli forustumanna Alþfl. hér á Alþingi hvað varðar breytingar á raforkumarkaðnum.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson fjallaði um það í sinni ræðu í dag að það væri betra ef verið væri að gera stærri breytingar á Landsvirkjun, einmitt á þessum forsendum. En hins vegar liggur ljóst fyrir vegna yfirlýsinga hæstv. iðnrh. að þetta frv. um breytingar á lögum um Landsvirkjun á ekki að þurfa að standa í veginum fyrir því að gerðar verði breytingar í frjálsræðisátt á orkulögunum.