Afsláttarkjör á póstdreifingu Pósts og síma

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 13:40:42 (3103)

1997-02-05 13:40:42# 121. lþ. 62.1 fundur 195. mál: #A afsláttarkjör á póstdreifingu Pósts og síma# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur

[13:40]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Fyrirspurn hv. þm. er svohljóðandi:

,,Hvaða reglur gilda um það hjá Pósti og síma hvaða rit njóti afsláttarkjara í dreifingu, sem innrituð blöð og tímarit, og hvaða skilyrðum þurfa þau að fullnægja?``

Eins og hv. þm. vék að vísar þessi fyrirspurn til þess ástands sem var þegar fyrirspurnin var borin fram á síðustu vikum stofnunarinnar Pósts og síma en ekki til framtíðarinnar. Svar mitt mótast auðvitað af því þar sem mér er skylt að svara fyrirspurninni eins og hún er fram borin og ég les því það svar sem ég hef í höndum um þessi efni:

Um þessi efni gilda ákvæði reglugerðar um póstþjónustu, nr. 161 30. mars 1990, greinar 1.3.10. til 1.3.14.5. Þar segir í grein 1.3.10.1.:

,,Til þess að njóta sérstakra kjara um burðargjald, umfram það, sem gildir um almennar prentsendingar, verða blöð og tímarit að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

a. Vera gefin út á Íslandi.

b. Vera til sölu og áskriftar á almennum markaði.

c. Koma út nokkurn veginn reglulega og eigi sjaldnar en einu sinni á ári.

d. Vera prentuð í a.m.k. 1.000 eintökum hverju sinni.

e. Hvert eintak vegi eigi meira en 500 grömm.

f. Efni blaðsins eða tímaritsins sé almennt, fjölbreytilegt lesefni, eins og tíðkast í blöðum og tímaritum, þ.e. fréttir, greinar, ljóð, ritgerðir, sögur o.s.frv., en ekki t.d. ein saga, ein grein o.s.frv.

g. Auglýsingar taki eigi meira en helming af rúmi blaðsins eða tímaritsins.

h. Á fyrstu síðu sé prentað áberandi og stóru letri, heiti blaðsins eða tímaritsins, árgangur og tölublað.

i. Í blaðinu eða tímaritinu sé birt nafn og heimili útgefanda, ábyrgðarmanns og ritstjóra, svo og hvar það sé prentað.``

Í grein 1.3.13. í reglugerðinni segir að burðargjöld fyrir blöð og tímarit séu ákveðin í gjaldskrá fyrir póstþjónustu en að heimilt sé að veita helmingsafslátt af burðargjaldi fyrir dagblöð, fréttablöð í landshlutum, blöð sem landssamtök stéttarfélaga gefa út og blöð sem fjalla almennt um stjórnmál, en fjórðungsafslátt fyrir tímarit og blöð sem fjalla sérstaklega um bókmenntir og listir eða trúmál.

Samkvæmt gildandi gjaldskrá eru burðargjöld fyrir innrituð blöð og tímarit sem hér segir:

a. Til áskrifenda. Eintak allt að 20 grömm 9 kr., eintak frá 20--100 grömm 10 kr., eintak frá 100--250 grömm 17,50, eintak frá 250--300 grömm 26,60, eintak frá 300--500 grömm 44,30 kr.

b. Til umboðsmanna. Hver 500 kíló 35 kr.``

Samkvæmt ofangreindri grein 1.3.13. er síðan heimilt að veita afslátt frá þessum burðargjöldum eins og þar segir.

Að endingu skal það upplýst að samgrh. hefur ákveðið að fella úr gildi frá næstu áramótum að telja hin sérstöku kjör um burðargjöld sem blöð og tímarit hafa notið. Frá næstu áramótum munu blöð og tímarit því lúta hinni almennu gjaldskrá fyrir póstþjónustu og njóta afsláttarkjara í samræmi við fjölda sendinga, umfang viðskipta og annað það er um kann að semjast við Póst og síma hf.

Þannig lá þetta svar fyrir fyrir áramótin. Eins og það ber með sér er það samið á þeim tíma sem Póst- og símamálastofnun var til, sem ekki er raunar lengur, og hefur þessi reglugerð verið numin úr gildi.

Þessi mál voru til umræðu hér á hinu háa Alþingi bæði á þessu þingi og eins raunar á síðasta þingi og ég man ekki eftir því þá að einstakir þingmenn hafi flutt um það brtt. að fella niður þær heimildir og ábendingar sem þar eru um það að viðhalda þeim reglum sem hér hafa verið tíundaðar. Mér þykir á hinn bóginn afskaplega vænt um ef hv. þm. er sammála mér um það að ég hafi unnið ágætt verk því að það er langt síðan ég komst að þeirri niðurstöðu að það gengi auðvitað ekki að annast blaðburð og dreifingu með þeim hætti sem verið hefur í opinberri stofnun og er algjörlega sammála því að tími var kominn til að fella það kerfi niður og að verðlagið miðaðist ekki við útgefanda eða innihald þess sem í blaðinu stendur.

Ég geri ráð fyrir því að það sé einnig rétt hjá hv. þm. að einstakir aðilar hafi reynt að fara í kringum þessi lög og það sé hægt að benda á að þeir sem það hafi reynt að gera hafi verið snjallari embættismönnum Pósts og síma sem ég hygg að hafi reynt að rækja sitt starf vel.En það eru markaðssjónarmiðin sem ráða héðan í frá og mér þykir vænt um að hv. þm. sé sammála mér um að stefna mín hafi verið rétt í þessum málum.