Kynferðisleg misnotkun á börnum

Miðvikudaginn 05. febrúar 1997, kl. 16:21:15 (3149)

1997-02-05 16:21:15# 121. lþ. 63.96 fundur 175#B kynferðisleg misnotkun á börnum# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur

[16:21]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hv. 13. þm. Reykv. hefur eitthvað misskilið ræðu mína þegar hann hélt því fram að ég hefði lýst því yfir að ekki væri ástæða til að endurskoða lögin um meðferð opinberra mála. Það var einmitt eitt af því sem ég lagði áherslu á í ræðu minni fyrr í umræðunni, að réttarfarsnefnd hefði fengið það verkefni þegar hún hefur lokið við dómstólalögin sem hún er að vinna í um þessar mundir, að taka fyrir heildarendurskoðun á lögunum um meðferð opinberra mála og þar á meðal auðvitað álitaefni sem þessum brotaflokki tengjast. Það hafa verið gerðar mjög miklar breytingar á framkvæmd þessara mála í réttarvörslukerfinu bæði hjá Rannsóknarlögreglu og fyrir dómurum, eins og hér hefur komið fram og hv. 15. þm. Reykv. hefur réttilega bent á, með auknu samstarfi lögreglu og dómstóla við sérfræðinga með sérstökum aðferðum við yfirheyrslu til að hlífa börnum við að vera í erfiðum réttarhöldum og fleira af því tagi sem er í samræmi við þá réttarþróun sem átt hefur sér stað á þessu sviði og við þurfum auðvitað að vera vakandi fyrir því áfram.

Það hefur verið minnst á spurninguna um sönnun. Ég minni hins vegar á í því efni að þar erum við auðvitað bundin af ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu sem eru lög. Við getum ekki dæmt menn af líkum. Hitt er annað að varðandi þá endurskoðun á lögum sem fyrir dyrum stendur, eru fyrningarreglurnar eitt af þeim atriðum sem ég hef talið eðlilegt að skoða en hluti af vandkvæðunum við sönnunarfærsluna er hvað málin eru oft orðin gömul.

En vegna þess að hér var svo sagt að ríkissaksóknari hefði aðeins ákært í 45 málum af þeim 465 sem upp höfðu komið á vegum barnaverndaryfirvalda þá er nauðsynlegt að taka fram að af þessum 465 málum sem komu til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum voru aðeins 47 send til Rannsóknarlögreglu til frekari meðferðar. Það er eitt af því sem við þurfum að huga að, að kanna þessi mál (Forseti hringir.) vegna þess að þessi brot eru mjög misjöfn og viðurlögin við þeim eru misjöfn. Það er verulegur munur á viðurlögum við brotum gagnvart nauðgun eða gagnvart því afbroti sem er refsað fyrir samkvænt 209. gr., ef ég man rétt, og lýtur að blygðunarsemi. Það er því mjög mikilvægt að þessi talnaröð, sem núna liggur fyrir, verði líka könnuð betur og hvers konar afbrot það eru sem liggja að baki þeim málum sem er verið að fjalla um.