Áfengis- og vímuvarnaráð

Mánudaginn 10. febrúar 1997, kl. 16:20:19 (3242)

1997-02-10 16:20:19# 121. lþ. 65.5 fundur 232. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur

[16:20]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að notfæra mér andsvarsréttinn til þess að koma að örstuttri athugasemd. En fyrst vil ég fagna frv. og tek undir bæði markmið þess og þá leið sem hér er farin. Ég vil líka taka undir það sem hér var rætt um samráð við önnur samtök sem gert er ráð fyrir í 4. tölulið 2. gr. frv. Auðvitað er spurning hvernig hægt sé að efla það og koma því þannig fyrir að það skili sem mestum árangri. En það sem ég vildi gera athugasemd við eða velta hér upp varðar 3. gr. um skipan áfengis- og vímuvarnaráðs. Hér er gert ráð fyrir því að fulltrúar sjö ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga tilnefni hver sinn fulltrúa og síðan er varamenn tilnefndir á sama hátt.

Það sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um er: Kom ekki til greina við samningu frv., og hvað finnst henni um það, að fulltrúar almennings eða þeirra sem eru að fást við þessi málefni dags daglega --- hver sem það ætti nú að vera --- ættu sæti í þessu ráði? Ég held að það gæti verið mjög til bóta í öllu daglegu starfi að fulltrúar almannasamtaka eigi aðgang að þessu ráði. En ég get svo sem skilið að það geti verið erfitt að velja hver það á að vera því að ótal aðilar eru að vinna að þessum málum. En ég held að það gæti einungis orðið til bóta jafnvel þó það kostaði fjölgun um einn.