Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 13:37:10 (3269)

1997-02-11 13:37:10# 121. lþ. 66.3 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., iðnrh. (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[13:37]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þeir sem eru fulltrúar eigenda Landsvirkjunar, þ.e. iðnrh., borgarstjórinn í Reykjavík og bæjarstjórinn á Akureyri, hafa orðið sammála um samkomulag til viðbótar við það samkomulag sem áður hafði verið gert sem byggist á því í að í fyrsta lagi er ekki nýtt að arður sé greiddur út úr fyrirtækinu. Það er í núgildandi lögum og hefur verið gert á undanförnum árum. Það er ekki verið að ganga hraðar eða harðar fram í þeim efnum heldur en gert hefur verið. Það er sammæli um það milli eigenda að það verði forgangsverkefni að lækka raforkuverð eins og samkomulagið gerir ráð fyrir um 2--3% eftir aldamót. Í þriðja lagi er líka sammæli um það hjá eignaraðilum að ákvörðun um arð verði tekin á aðalfundi eða ársfundi hverju sinni og það hljóti að ráðast af afkomu fyrirtækisins hver arðurinn verði. Þetta þýðir með öðrum orðum að náist ekki þau markmið sem menn setja sér í verðlækkunum þá greiða menn ekki út arð. Með öðrum orðum verðlækkunarsjónarmiðin hafa forgang umfram arðgreiðslurnar ef hv. þm. vilja kynna sér þetta samkomulag.