Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 13:50:24 (3280)

1997-02-11 13:50:24# 121. lþ. 66.3 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., MF (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur

[13:50]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Alþb. hefur ítrekað lýst þeirri stefnu sinni að landsmenn allir eigi að sitja við sama borð hvað verð á raforku varðar. Mismunurinn á þessu sviði er mikill í dag. Ef það frv. sem hér er til afgreiðslu verður samþykkt mun það leiða af sér enn meira misrétti og að líkindum verulega hækkun orkuverðs til almennings sem bitnar verst á þeim notendum sem nú þegar greiða hæsta verðið fyrir orkuna, þ.e. landsbyggðarfólk. Hækkun orkuverðs kemur illa við fjölda skuldugra heimila og illa við íslensk fyrirtæki sem sitja ekki við sama borð og erlendir aðilar í fyrirtækjarekstri hér á landi. Alþb. hafnar stefnu af þessu tagi og gagnrýnir harðlega þau vinnubrögð og þann hraða sem einkennir afgreiðslu málsins. Hér fer Framsfl. með forustu þeirra sem vilja enn frekari mismunun í orkuverði til landsmanna um leið og framsóknarmenn standa fyrir auglýsingum í útlöndum þar sem fjárfestum er lofað sérstökum kjarakaupum á raforku hér á landi. Þingflokkur Alþb. og óháðra mótmælir þessum vinnubrögðum harðlega. Ég segi já við frávísunartillögunni.