Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 18:13:00 (3328)

1997-02-11 18:13:00# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[18:13]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér erum við að ræða mjög mikilvægt mál. Við erum að ræða málefni þess mikilvæga fyrirtækis, Landsvirkjunar. Og viðfangsefnið er það að iðnn. hefur fjallað um það með hvaða hætti beri að standa að málum þessa fyrirtækis og þá einkum og sér í lagi hvernig eigi að standa að því mikilvæga verkefni að lækka raforkuverðið. Um þetta hafa orðið deilur. Það hafa verið deilur um það hvort eðlilegt sé að svo mikill arður sé greiddur út úr fyrirtækinu eins og menn voru að vonast til. Samkomulagið sem hefur náðst í iðnn., þar sem eru samankomnir þingmenn allra flokka annarra en Alþb., gengur út á það að taka tillit til þeirrar sameiginlegu bókunar sem liggur fyrir, sem felur það í sér, að mínum skilningi og margra annarra, að þetta skuli vera forgangsverkefni. Hv. 8. þm. Reykv. var að vísa til þess að í borgarráði Reykjavíkur hafi verið fjallað um þetta í dag eða síðustu dagana og þar hafi menn komist að raun um að ekki beri að taka mark á þessu samkomulagi. Ég held að það sé afar mikilvægt að það komi fram í þessari umræðu, og ekki síst hjá hv. 8. þm. Reykv. sem hefur verið talsmaður Alþb. í umræðunni um þessi málefni og vegna þess að Alþb. er aðili að R-listanum, meiri hlutanum í Reykjavíkurborg, þá tel ég nauðsynlegt að hv. þm. geri betri grein fyrir þeim upplýsingum sem hann hefur um afstöðu R-listans í þessu máli svo við velkjumst ekki í vafa um það hvort R-lista meiri hlutinn ætlar að standa (Forseti hringir.) að þessari undirritun borgarstjórans eða hvort R-listinn ætlar að svíkja það.