Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 21:26:35 (3345)

1997-02-11 21:26:35# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[21:26]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins út af orðum hv. þm. hér áðan þar sem hv. þm. var að hafa eftir borgarstjóranum í Reykjavík og vitnaði til sjónvarpsviðtals í Ríkissjónvarpinu í kvöld. Því miður heyrði ég ekki þetta viðtal en ég trúi því að hv. þm. hafi haft rétt eftir og farið rétt með þegar hann sagði að borgarstjórinn hefði sagt að hann væri ekki tilbúinn til þess að víkja arðgjafarmarkmiðum til hliðar. Sé þetta rétt eftir haft, þá er það auðvitað mjög vel skiljanlegt vegna þess að það verður að gera greinarmun á því sem er arðgjafarmarkmið og því sem er arðgreiðslumarkmið.

Ef menn skoða vel það frv. sem hér er til umfjöllunar við 3. umr. þá er klárt að arðgjafarmarkmiðið er 5--6% á ári, sú krafa sem gerð er um arð af fyrirtækinu. Og arðgjöfin á að koma sem hlutfall af eigin fé. En eigendurnir ætla að greiða út 5,5% arð af fram- eða uppreiknuðum stofnframlögum. Á þessu er mjög mikill munur. Það sem eftir stendur auðvitað er það, að eignaraðilarnir eru sammála um að það sé forgangsverkefni að raunverð á raforku geti lækkað eftir aldamót með þeim hætti sem samkomulagið gerir ráð fyrir. Ákvörðun um arðgreiðslur verða teknar á ársfundi hverju sinni og verði breytingar á rekstrarforsendum, eins og segir í þessari sameiginlegu bókun, mun það hafa áhrif á endanlega ákvörðun eigenda um arðgreiðslur á viðkomandi ári. Það er ótvírætt að orkuverðslækkunarmarkmiðið, raunverðið óbreytt til aldamóta og lækkunin um 2--3% frá aldamótum, stendur og við það verður staðið.