Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 22:14:30 (3355)

1997-02-11 22:14:30# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[22:14]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sammála hæstv. iðnrh. um túlkun á þessu lagaákvæði. Ég vitnaði til þess áðan í máli mínu og ég fæ ekki þennan skilning út úr málinu að samkeppnisráð geti gripið inn í og stýrt verði eða gjaldskrá út frá einhverjum almennum sjónarmiðum. Það er tekið fram í þessum kafla að íhlutunin sé byggð á því að það sé eina leiðin til að koma í veg fyrir að skortur á samkeppni hamli eða hafi skaðleg áhrif á markaðinn. Af því að þetta eru samkeppnislög þá fjallar þetta um þær aðstæður þegar samkeppnin er ekki nægileg til að beina verðlaginu nógu langt niður eða hafa það í eðlilegum farvegi í þeim skilningi sem menn hafa við þessar aðstæður. Þessar aðstæður eru bara ekki uppi varðandi Landsvirkjun. Starfsemi hennar lýtur sérstökum lögum og öðrum er meinað að starfa á þessum akri þannig með lögum er girt fyrir samkeppni. Þess vegna getur Landsvirkjun ekki verið markaðsráðandi fyrirtæki í þeim skilningi sem hæstv. ráðherra lagði í það af því að markaðsráðandi staða fyrirtækisins, eins og segir í 4. gr., er þegar fyrirtækið hefur þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni. Það þarf ekki í þessu tilviki því hún er bönnuð með lögum. Þess vegna hefur vafist fyrir mér að átta mig á því hvaða lagalegar forsendur Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð hefðu til þess að grípa inn í stjórnun á gjaldskrá Landsvirkjunar út frá þeim lagaákvæðum sem hér eru en þau eru öll miðuð við það að stofnunin og ráðið starfi út frá samkeppnislögmálinu sem bara er ekki virkt í þessu dæmi.