Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. febrúar 1997, kl. 23:31:14 (3380)

1997-02-11 23:31:14# 121. lþ. 67.1 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[23:31]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Stefán Guðmundsson) (andsvar):

Herra forseti. Bara aðeins að hnykkja á þessu enn og aftur sem við erum búin að gera margsinnis í dag. Það kemur fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að samkvæmt borgarstjóra breyti bókunin engu. Af hverju breytir bókunin engu? Vegna þess að það hefur alltaf, hv. þm. Svavar Gestsson, legið ljóst fyrir í huga hennar að arðgreiðslurnar væru víkjandi fyrir orkuverði. Þess vegna segir borgarstjórinn þetta. Og undirstrikar enn og aftur hvað borgarstjóri sagði á fundi iðnn., þegar hún mætti þar til að skýra þessa sameiginlegu bókun frá 10. febr. 1997, að með sameiginlegri bókun er verið að hnykkja á því að verðlækkun á raforku gangi fyrir arðgreiðslumarkmiðum. Þetta er kjarni málsins.

Að lokum vil ég geta þess sem ég hefði átt að gera í ræðu minni, að ég þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir ágæta og málefnalega ræðu. Allt var hárrétt sem hann sagði um mikilvægi þess að lækka orkuverð vegna atvinnulífsins, bæði fyrir sjávarútveg og iðnað. Og það er einmitt það markmið, hv. þm., sem við erum og höfum verið að berjast fyrir að ná fram. Og við sjáum að það er að takast nú.

(Forseti (ÓE): Nú var hv. þm. í andsvari við hv. 8. þm. Reykv. en ekki við hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson.)