Staða þjóðkirkjunnar

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 15:20:31 (3436)

1997-02-12 15:20:31# 121. lþ. 69.2 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur

[15:20]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég hafði vissulega beðið um orðið í þessu máli en tók svo eftir að annar var á mælendaskrá á undan mér og var þess vegna alls ekki undir það búinn að taka til máls með þá pappíra sem ég vildi hafa við höndina. En það kemur ekki í veg fyrir að ég flytji mína ræðu því ég hef nokkur atriði sem ég vildi koma að við 1. umr. þessa frv. um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Ég tel að hér sé á ferðinni mikilvægt frv. sem varðar eina af meginstofnunum landsins og sem Alþingi hljóti að sjálfsögðu að fara vandlega yfir og sú þingnefnd sem fjalla muni um málið sem mun vera allshn. þingsins.

Það er ekki á hverjum degi sem mál af því tagi sem hér liggur fyrir, stjfrv. um þjóðkirkjuna, sé til umræðu á Alþingi og því ekki óeðlilegt að ýmsir vilji tjá sig nokkuð um málið. Ég tel að það geti skipt verulegu máli hvernig þingið heldur á þessu og afgreiðir þetta að lokum sem lög að athugun sinni lokinni og meðferð og vildi nefna fáein atriði sem varða málið við 1. umr. þess.

Fyrst er að víkja aðeins að þeim þætti sem snýr að stjórnarskrárákvæðum um kirkjuna og trúfrelsi í landinu sem mynda ákveðinn grunn fyrir þeirri löggjöf sem hér er gerð tillaga um, en það eru 62.--64. gr. stjórnarskipunarlaga okkar. Ég ætla, með leyfi forseta, aðeins að líta yfir ákvæðin. Í 62. gr. segir svo:

,,Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.

Breyta má þessu með lögum.``

63. gr. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.``

64. gr. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri þegnskyldu.

Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga. Enginn er skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að.

Nú er maður utan trúfélaga og greiðir hann þá til Háskóla Íslands gjöld þau sem honum hefði ella borið að greiða til trúfélags síns. Breyta má þessu með lögum.``

Eins og hér kemur fram, þá eru ákvæði stjórnarskrárinnar að því er varðar hina evangelísku-lútersku kirkju, þ.e. þjóðkirkju okkar, þess efnis að þeim má breyta með lögum, veigamiklum þáttum sem þau varðar og jafnframt er kveðið á um að trúfrelsi skuli ríkja í landinu. Þetta eru mikilvæg undirstöðuatriði í sambandi við það mál sem við ræðum hér.

Ég vil segja í sambandi við kannski grundvallarþátt málsins, spurninguna um það hvort ríkið eigi að standa að einum trúarsöfnuði sérstaklega, að ég hef hingað til ekki verið sérstaklega hvetjandi þess að skilið væri á milli ríkis og kirkju. Ég hef ekki látið þessi mál mig miklu skipta að því leyti, þá umræðu sem uppi er um það efni, en viðurkenni hins vegar fúslega að þar er á ferðinni álitamál. Það er mjög athyglisvert sem fram hefur komið nú hin síðustu missirin og þá m.a. tengt mjög mikilli umræðu um þjóðkirkjuna, að þeim röddum fer ört fjölgandi í landinu að því er virðist sem hvetja til aðskilnaðar. Það er að sjálfsögðu mál sem þjóðin hlýtur að ræða áframhaldandi hversu með skuli fara. Hins vegar eru engar tillögur um það hér, tengt þessu máli, síður en svo, og ég hef ekki ætlað að standa að brtt. um það efni þó að ég viðurkenni fúslega að hér er álitamál á ferðinni sem vel kann að leiða til þess, þ.e. sú umræða sem uppi er, að ákvörðun verði tekin um það eða að meirihlutavilji verði í landinu fyrir því að breyta til að þessu leyti.

Ég er út af fyrir sig ekki viss um að það hefði neitt neikvæð áhrif á trúarlíf í landinu undir merkjum kristinnar kirkju þó að þetta skref væri stigið. Það mundi vafalaust skapa vissa aðlögunarerfiðleika fyrir kristna söfnuði í landinu eða hinn kristna söfnuð í landinu. En ég gæti vel trúað því að það leiddi kannski til meiri vakningar í þessum efnum heldur en gerist þegar þannig er haldið á málum eins og nú er og hefur lengi verið, að viðhalda þjóðkirkju sem njóti stuðnings ríkisins eins og við þekkjum og í krafti þeirra ákvæða stjórnarskrár sem kveða á um að ríkisvaldið styðji hana og verndi, eins og það er orðað í 62. gr. stjórnarskrárinnar.

Ég skal ekki hafa út af fyrir sig fleiri orð um þennan þátt málsins þó að ástæða væri til þess. Ég legg mjög mikla áherslu á að í meðferð þessara mála leitist menn við að virða sjónarmið sem flestra, skoðanir sem flestra og tilfinningar að því er varðar trúarleg málefni. Trúarleg málefni eru að minni hyggju ekki aðeins tengd spurningunni um mat manna á framhaldslíf eins og það er kallað heldur varða þau líka önnur sjónarmið sem uppi eru og verðskulda alveg eins nafnið trú og hvað annað þó að skapast hafi sú orðhefð í krafti kannski meirihlutasjónarmiða að kalla þá heiðingja í neikvæðri merkingu sem hafa önnur viðhorf og aðra sannfæringu í þessum efnum.

Ég held að það sé mjög þýðingarmikið að umburðarlyndi í garð sjónarmiða sem snerta viðhorf manna og trú sé ræktað með sem flestum og að það beri að ástunda að þjóðkirkja meðan hún er við lýði í landinu gæti þess í sínum störfum að rækta með sínu fólki það umburðarlyndi sem ég hef verið hér að nefna. Í rauninni ætti það og hlýtur að vera hluti af þeim farangri sem tengist kristinni trú að slíkt umburðarlyndi sé viðhaft. En auðvitað þekkjum við mörg dæmi þess frá fyrri tíð og jafnvel fram að nútíð að áhersla sé lögð á að boða trú og fá fólk til þess að taka aðra trú heldur en það hefur haft. Og hér fyrr á árum, það þarf ekki mjög langt að leita og kannski gerist enn í dag, var slíkt notað á vissan hátt í annarlegum tilgangi af veraldlegu valdi eins og gerðist á tímum nýlendustefnunnar, á blómaskeiði hennar, að ganga fram með báli og brandi og auðvitað gerðist það á Norðurlöndum þegar verið var að ryðja kristinni kenningu eða kristinni trú braut eins og íslenskar sögur og sagnir herma, og er það vissulega allt til umhugsunar.

Varðandi þjóðkirkjuna og þetta nafn þá finnst mér það alveg umræðunnar virði að menn velti því fyrir sér og íhugi hvað felist í hugtakinu ,,þjóðkirkja``. Er það fyrst og fremst það að meiri hluti Íslendinga eru meðlimir í þessum kristna evangelísk-lúterska trúarsöfnuði eða er það eitthvað annað? Mér sýnist á því sem fram kemur í ritum þeirra sem fjalla um þessi efni að ýmsir fleiri þættir en þessi tengist hugtakinu ,,þjóðkirkja`` og að margvíslegur skilningur hafi í raun verið uppi í sambandi við það. Menn tengja þetta hugtak og það sem varðar sögu þessarar kirkju, við mismunandi viðhorf. Sumir líta t.d. á þjónustuhlutverk þjóðkirkjunnar sem meginatriði, þ.e. að vera þjónustustofnun við trúarlegar þarfir þegnanna. Aðrir leggja meiri áherslu á siðferðisgildi sem kristinn söfnuður reynir að halda uppi í mannlegu samfélagi og tengjast þá auðvitað kristnum siðferðisviðhorfum. Skilgreiningarnar eru því margar. Þjóðkirkjan hefur jafnvel verið skilgreind í tengslum við heimatrúboð og annað þess háttar. Að vísu er það ekki fyrirferðarmikið nú í seinni tíð en það var hins vegar verulegur hluti af því sem menn tengdu við starfsemi kirkjunnar, trúboð sem miðaði að því að ná til þjóðarinnar sem heildar og var tengt svonefndum afturhvarfsboðskap kristinnar trúar um að nota ætti sóknir og skipulag kirkjunnar í þeim tilgangi að boða sem flestum sanna trú eins og hún er út frá kristnum, kirkjulegum viðhorfum.

Þetta vildi ég nefna, virðulegur forseti, og vekja athygli á því sem snýr að þessu hugtaki sem kemur fram í heiti þessa frv. Mér finnst full þörf á því að menn íhugi og ræði hlutina í tengslum við það mál sem hér er til umræðu.

[15:30]

Ég vildi líka koma aðeins að einstökum þáttum í frv. og byrja á 1. gr. þar sem eru viss atriði sem ég tel ástæðu til að íhuga. Það hefur vissulega verið á það minnst í umræðu, m.a. af hv. 8. þm. Reykv., að orðalag 2. mgr. 1. gr. fer ekki alveg saman við orðalag sem er í stjórnarskránni þar sem notað er hugtakið að ,,styðja`` en ekki ,,vernda``. Ég vil ekki gera mikið úr þeim merkingarmun sem kann að vera á þessu en það er þó til íhugunar hvers vegna menn taka ekki upp orðalag stjórnarskrár að þessu leyti.

Síðan er það annað atriði sem ég vil gera að nokkru umræðuefni hér. Mér þætti vænt um ef hv. 2. þm. Norðurl. v. væri viðstaddur þá umræðu en hann átti hlut að því að móta þetta frv. og er í hópi þeirra sem geistlegir teljast jafnframt því að sitja á þingi. Það kemur að því sem segir í 3. mgr. 1. gr., með leyfi forseta:

,,Skírn í nafni heilagrar þrenningar og skráning í þjóðskrá veitir aðild að þjóðkirkjunni.``

Það er þetta orðalag, þessi tilvísun og tenging milli skírnar og heilagrar þrenningar sem mér finnst umhugsunarefni hvort eigi að standa í lögum um þessi efni. Nú verð ég að viðurkenna að ég hef ekki hugað að því sérstaklega hvort þetta hefur verið í gildandi lögum um langa hríð. Það má vera að svo sé. En engu að síður, nú þegar við endurskoðum þessi lög, staldra ég við það orðalag að tengja skírnina við heilaga þrenningu í þessum lagatexta. Ég geri að sjálfsögðu ekki athugasemd við að menn hafi þetta uppi í trúariðkunum sínum og kenningu, en í ljósi þeirrar miklu umræðu sem verið hefur í kirkjunni og þar á meðal í hinni evangelísk-lútersku kirkju um túlkun á hugtakinu ,,heilög þrenning`` og allt sem henni viðkemur þá finnst mér þetta ekki skynsamlegt. Þetta er viðhorf mitt nú. Það er hugsanlegt að ég láti sannfærast um annað. En mér finnst ekki skynsamlegt að setja þetta í löggjöf.

Ég er auðvitað að líta til þeirra miklu deilna um þetta efni sem voru á fyrstu öldum eftir Kristsburð þegar kristin kirkja var að festast í sessi eða við skulum segja koma undir sig fótunum sem trúarkerfi, sumir mundu segja kredda sem ég ætla ekki að nota hér í neikvæðri merkingu. Í skóla lærðum við um kirkjuþingið í Níkeu sem kallað var saman til þess að fjalla um þessi efni sumarið 325 að boði Konstantíns keisara sem hafði þó stuðlað að trúfrelsi, ef ég man rétt. Það var kallað saman til þess að setja niður deilur eða leysa úr deilum í kirkjunni um þessi efni. Það þing gekk frá ákveðinni túlkun sem er mjög fróðlegt að fara yfir. Ég hef því miður ekki tíma til að fara langt í þeim efnum, virðulegur forseti, miðað við þann tíma sem hér er skammtaður við 1. umr. þessa máls. Það fékkst sem sagt ákveðin niðurstaða á þessu þingi sem er mjög athyglisvert að fara yfir. En það var mjög langt frá því að þetta leysti vandann og deilurnar héldu áfram og hvert þingið tók við af öðru. Næsta þing um þessi efni sem tengdist spurningunni um heilaga þrenningu og skilning á guðshugtakinu var haldið í Konstantínópel 381. Síðan fylgdi þing í Efesus 431 og það fjórða og kannski síðasta í þessari röð þinga sem tóku á þessum efnum var haldið í Kalkedon 451. En þrátt fyrir að fengin væri ákveðin niðurstaða í sambandi við deilur um þessi efni héldu þær áfram og hafa staðið alveg fram undir okkar daga.

Nú væri vissulega mjög freistandi að ræða það sem deilt var um í þessum efnum. Til er mjög fróðleg og góð samantekt í ágætu riti um þessi efni sem ég er hér með handa á milli sem heitir Kirkjan játar: játningarrit íslensku þjóðkirkjunnar / með inngangi og skýringum eftir doktor Einar Sigurbjörnsson, sem veitir ágætt yfirlit yfir þessi álitaefni sem ég hef verið að minnast hér á. Þar kemur fram m.a. að í lúterskum söfnuðum --- það hafa ekki aðeins verið deilur milli austrænu og vestrænu kirkjunnar um þessi efni --- hafa deilur verið uppi. Ég leyfi mér örstutta tilvitnun í þetta rit á bls. 63, skýringar um heilaga þrenningu. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Þrenningarlærdómur kirkjunnar hefur nokkuð verið gagnrýndur í nútímanum að ekki sé meira sagt og af þeim sökum hefur fjöldi guðfræðinga veigrað sér við að tala um þrenninguna. Þrenningarlærdómurinn er oft sagður vera uppá\-finning kirkjuvaldsins á miðöldum til að stugga frjálslega hugsandi mönnum úr kirkjunni eða þá tilraun til að gera trúna að svo flóknu fyrirbæri hugsunarlega og þekkingarlega að ekki sé á annarra valdi en sérfræðinga að skilja hana.``

Síðan er fjallað nánar um þetta efni í textanum með lærðum hætti og ágætum, en ég leyfi mér aðeins að vísa til þessa um leið og ég vil koma því til viðkomandi þingnefndar hvort ekki sé skynsamlegt að láta þau álitaefni sem varða sjónarhornið og skilning manna á heilagri þrenningu utan við lagatexta og vísa ég þá til tillögu í 1. gr.

Það hefði verið mjög freistandi, virðulegur forseti, að ræða þessi álitamál frekar en það er svo sem ekki endilega þörf á að gera það við 1. umr. og ég hef enga aðstöðu til þess eða löngun að reyna að skera úr einhverju í þessum efnum, alls ekki. Ég tel mig hvorki til þess bæran né hafa þekkingu á því. En ég er ekki frá því að margt af því sem tengist heilagri þrenningu og túlkun á því hugtaki verði til þess að flækja málin í hugum margra á því sem teljast mætti kannski kjarni trúarlegra viðhorfa sem tengjast kristninni.

Ég mæli þetta hér sem ábendingu og athugunarefni til manna og þeirra sem fjalla munu um þetta mál.

Í þessu frv. er vissulega að finna mjörg mörg efni sem geta verið álitaefni og vil ég nefna fyrst af öllu að mér finnst að á meðan menn búa við þjóðkirkju og þá meginskipan sem hér er uppi, væri æskilegt að reyna að hafa reglurnar eða lagafyrirmælin sem einföldust í sniðum, að ganga ekki lengra í boði gagnvart hinum kristna evangelísk-lúterska söfnuði en nauðsyn krefst. Mér sýnist að í þeim efnum sé seilst lengra en þörf er á í nokkrum atriðum í þessu frv. Ég gæti reynt að finna því stað en læt þetta nægja sem ábendingu til þeirra sem um munu fjalla. Ég tek eftir því að víða er gert ráð fyrir því að settar séu og mótaðar almennar reglur sem kirkjan og hennar stofnanir hafi vald á að móta og ég hvet frekar til þess að menn færi sig í það farið eftir því sem eðlilegt getur talist.

Staða þjóðkirkjunnar og stofnana hennar er íhugunarefni. Ég hef fyrir framan mig Gerðir kirkjuþings frá 1995. Gerðir kirkjuþings eru mikil bók og ljóst er að um margt er fjallað á þeim vettvangi og margt þar athyglisvert. Í þessu riti á bls. 101 er m.a. að finna ritgerð á ensku sem er sameiginleg yfirlýsing eins og það heitir. Ég treysti mér ekki til að þýða þetta beint úr ræðustól, Joint Declaration on the Doctrine of Justification between the Lutheran World Federation and the Roman Catholic Church. Þetta er texti sem mér sýnist eingöngu vera á ensku. Þetta er mjög athyglisverður texti og vitnar um viðleitni til nálgunar á milli þessara höfuðkirkna í hinum vestræna hluta. Það sem þarna stendur yfir er dálítið merkilegt og ég hef kannski gert mig sekan um að ganga lengra en rétt var með því að lesa yfirskriftina því að yfir aðalfyrirsögn stendur, Not for quotation or publication, og bið forláts á því ef ég hef gengið gegn því sem eðlilegt var í þeim efnum. En nú er þetta komið hér í ákveðna gerð og ég ætla ekki annað en að vísa til þess að þarna er um að ræða mjög athyglisverða ritgerð eins og margt annað sem kemur fram í gerðum kirkjuþings.

[15:45]

Síðan er það sá þáttur sem snýr að hinni efnahagslegu undirstöðu þjóðkirkjunnar eins og tillögur eru um að ganga frá henni í þessu frv. Þar er vissulega kannski það sem ekki síst sætir tíðindum í þessu máli, þ.e. að breyta frá þeirri skipan sem hér var innleidd 1907 og þáverandi forstöðumaður Prestaskólans og síðar biskup frá 1909--1916, Þórhallur Bjarnason, átti mjög mikinn hlut í og sem varðaði meðferð á kirkjujörðum, en nefndur Þórhallur var stefnumótandi í þeirri lagasetningu og mikill áhrifamaður á sviðum kirkjumálefna en líka í stjórnmálum á þeim tíma. Hér er verið að breyta til frá því sem þarna var lögfest í sambandi við kirkjujarðir og hverfa að því ráði að kirkjan afsali sér þessum eignum sínum eins og það er skilgreint. En ég hafði vænst þess, virðulegur forseti, og beini því þá jafnframt til hæstv. ráðherra að svolítið gildari gögn fylgdu frv. um bakgrunn þessa gjörnings. Fskj. I, sem er frásögn af fundi nefndar ríkis og kirkju um kirkjujarðir í dóms- og kirkjumrn. frá 10. janúar 1997, dregur vissulega fram það samkomulag sem þarna lá fyrir um þetta efni. En mér finnst að hér sé á ferðinni nokkuð sem sé það stórt í sniðum að það kalli á gaumgæfilega skoðun af hálfu Alþingis áður en frá er gengið. Ég er ekki að andmæla því að þetta geti verið sú skipan sem rétt sé að taka upp. En ég er ekki sannfærður um að það sé öllu leyti horfið þar að réttu ráði um þessi efni. Ég held að það sé mjög brýnt að þingið a.m.k. fari vel yfir allan bakgrunn þessa máls sem hér er lagt til vegna þess að þar er vissulega verið að setja grunn undir tekjur þjóðkirkjunnar, fjárhag hennar og það sem hún á að byggja á af hálfu ríkisins á þeim grunni að þær eignir sem þarna er um að ræða séu eignir sem kirkjan sé að framselja og þannig sé ekki um að ræða annað en skipti á réttindum ef svo má segja, þ.e. það sem þarna er gert ráð fyrir og það reiknað til prestsembætta og starfsígilda af ýmsum toga. Þetta atriði hvet ég til, virðulegur forseti, að verði gaumgæft.

Í 60. gr. er, eins og hæstv. dómsmrh. vakti athygli á, að finna starfsreglur og þar stendur, með leyfi forseta:

,,Kirkjuþing setur jafnframt nánari reglur um tiltekna þætti kirkjustarfsins sem eigi er fjallað um í hinum almennu reglum sem getið er um í 1. mgr. Þá staðfestir kirkjuþing stofnskrár og nánari reglur um stjórn og starfsemi stofnana er starfa á vegum þjóðkirkjunnar en kirkjuráð staðfestir endurskoðaða reikninga þeirra stofnana og birtir þá síðan í skýrslu sinni til kirkjuþings.``

Áður, í 1. mgr., er kveðið á um að um aðra starfsmenn þjóðkirkjunnar fari eftir almennum reglum o.s.frv. Ekki áttaði ég mig fyllilega á orðalagi þessarar greinar, þ.e. hvernig með skuli fara í sambandi við endurskoðun reikninga og stofnana kirkjunnar nema það sé skilningurinn að kirkjuráð hafi þar síðasta orðið í þeim efnum. Ég hef e.t.v. litið fram hjá því hvernig þessu skuli endanlega fyrir komið en vek athygli á því að þarna er kannski ekki alveg skýrt kveðið á um eða mig brestur skilning á því hvernig með skuli fara og nefni þetta því hér.

Virðulegur forseti. Ég hef ekki ráðrúm til að fara frekar í þessi efni. Vissulega er fróðleg sú skrá sem aðgengileg er og varðar upptalningu á þeim jarðeignum sem verið er að færa til frá hugtakinu kirkjujörð yfir í það að vera ríkisjarðir. Hér geta menn, hver úr sínu kjördæmi, skoðað hvað um er að ræða. Og það er vissulega umhugsunarefni og kannski eftirsjá í hugum einhverra að þetta færist frá hugtakinu kirkjujörð yfir í það að vera ríkisjörð í almennum skilniningi eins og hér er gert ráð fyrir.

Ég ætla aðeins í lokin, virðulegur forseti, að nefna það að í sambandi við hlutverk andlegra stofnana, ef við getum notað það hugtak um kirkjuna, þá skiptir gífurlega miklu máli, að mínu mati, fyrir vegferð manna að almennum gildum sem varða hugarheim okkar og viðhorf og afstöðu til þess sem órætt getur talist sé gefinn gaumur. Ég held að á hinni hraðfara tækniöld sem við lifum nú á þar sem hröðunin í þróun þess sem tengist mannlegu samfélagi er svo gífurleg þá skipti það afar miklu máli að stofnanir sem ætla sér hlutverk og tengjast almennum gildum séu vökular, að þær séu lifandi þátttakendur í þeirri umræðu sem varðar vegferð mannkyns.

(Forseti (GÁ): Forseti vill biðja hv. þm. afsökunar á því að skekkja er í tímamælingu og hv. þm. mun eiga enn eftir átta mínútur af sínum tíma.)

Ég þakka virðulegum forseta. Ég skal athuga hvort ég fylli í þann tíma. Það er margt (Gripið fram í: Þú getur það.) sem ég hefði viljað segja í sambandi við málið en hef auðvitað leitast við að byggja mitt mál upp þannig að því mætti ljúka skaplega innan þeirra tímamarka sem ég hef til hliðsjónar.

Ég ætla þá aðeins að víkja frekar að því sem ég var að nefna undir lokin, þ.e. hversu þýðingarmikið það er að stofnanir og þar á meðal stofnun eins og þjóðkirkjan, en það á við í rauninni öll þau samtök manna sem ætla sér að veita einhverja leiðsögn, leitist við að vera virkir þátttakendur í umræðu samfélagsins um þau vandamál sem við blasa hér á landi en ekki síður og alveg sérstaklega alþjóðlega séð varðandi vegferð manna.

Það var á það minnst hér fyrr á þessum degi að jafnvel einstakir þingflokkar væru með svartagallsraus, ef ég skildi það rétt, sæju heimsenda fyrir sér, ekki aðeins öðru hvoru heldur dag hvern ef ég tók rétt eftir og gott ef ekki var verið að víkja að þeim þingflokki sem ég starfa í. En það er hins vegar svo að mínu mati að margt af því sem blasir við okkur er þess eðlis að þó það þýði ekki endalok jarðar sem plánetu, því enn hefur maðurinn ekki mátt til að sprengja hana í tætlur þó að afl kjarnorkunnar sé mikið, þá erum við hins vegar stödd á slíkum vegamótum vegna þeirrar miklu hröðunar sem tengist efnahagskerfi nútímans og samfélagi okkar um leið að við þurfum sannarlega að gæta að okkur. Í þessum skilningi er hlutverk stofnana eins og þjóðkirkjunnar og annarra sem hafa metnað til þess að hafa einhverja leiðsögn, afar þýðingarmikið. Við höfum verið að ræða á Alþingi mál um það hversu tæknin er orðin nærgöngul gagnvart lífinu. Við ræddum það í sambandi við breytingar á veganesti manna í tengslum við erfðabreytingar, veganesti lífveranna, ekki bara mannsins heldur líka annarra lífvera, þar sem menn eru komnir að mínu mati á afskaplega hættulega slóð og þyrftu að staldra við áður en menn láta tæknina taka af sér völdin þannig að ekki verði við snúið.

Ég hef gengið í gegnum margt í mínu eigin mati á andlegum málum og viðhorfum og ætla ekki að fara að rekja það hér vegna þess að það er einkaeign manna út af fyrir sig og enginn skapar heim fyrir annan í þeim efnum. En mér hefur fundist að þörfin fyrir skilning á viðhorfum annarra og tillitssemi í annarra garð sé eitt það þýðingarmesta sem tengist samstarfi manna, í trúfélögum sem annars staðar og að rækt við það skipti afar miklu. Við þekkjum menn sem mega teljast andlegir leiðtogar Íslendinga, þó ekki séu af kirkjunnar sviði og sem hafa gengið í gegnum mjög stórbrotnar byltingar í eigin lífi. Þá er ég að vitna til rithöfundar okkar, Halldórs Kiljan Laxness sem enn lifir meðal vor. Þar hafa menn dæmi um stórveldi á andlegu sviði sem hefur leyft sér þann munað að fara í gegnum hin ólíkustu viðhorf gagnvart sjálfum sér til trúarmálefna og málefna vestræns menningarheims eins og við þekkjum hann í gegnum sögu kirkjunnar. Oft hef ég, þegar ég hef farið í gegnum hugleiðingar Halldórs Laxness, fundið fullkominn samhljóm með því sem hann hefur verið að skrifa hverju sinni, hvort sem það er frá hinu kaþólska skeiði hans eða afneitunarskeiði eða vissu afturhvarfi, kannski á síðari hluta ævinnar, til þess að líta á gildin út frá víðara sjónarhorni og ná ákveðinni sátt milli þeirra andstæðna sem í honum toguðust á.

Ég ætla að leyfa mér að þessu sinni, virðulegur forseti, að gera orð sem hann lét falla í Alþýðubókinni að mínum lokaorðum hér, ekki vegna þess að ég geti ekki samsamað mig með öðrum orðum og gripið annars staðar niður í textanum, en það má alveg vera það sem ég vil ljúka máli mínu með í dag. Í ritgerðinni um trú, sem ber fyrirsögnina: Trú, segir, með leyfi forseta:

,,En ef trú skyldi nú reynast andlægur og afstæður hæfileiki en ekki hlutlægur og óbrigðull sannleiki, þá leyfi ég mér að mæla með sjálfum mér sem trúmanni. Vitund mín öll er uppljómuð af hamingjusömu trausti á þann alheim sem við lifum í. Að vísu gerist ég ekki fjölorður um rök þeirra hluta sem liggja utan skynheims vors því þegar öllu er á botninn hvolft, þá eru hrókaræðurnar um hinstu rök tilverunnar leikur að stráum. Eitt er víst. Vér höfum ástæðu til að standa tignandi andspænis hinni miklu verðandi heims og hugar. Ég hlýði manna fúsastur á h-moll messu Bachs og er þess fullviss að tignun vor á hinu óumræðilega á sér ekki æðra mál en hljóma. Og hvað sem er um ,,sálina`` þá hefur það löngum verið trúa mín að lífið sé yfirleitt ekki þeirrar tegundar að geta dáið.``