Meðferð yfirvalda á máli Hanes-hjónanna

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 13:46:17 (3479)

1997-02-13 13:46:17# 121. lþ. 70.96 fundur 189#B meðferð yfirvalda á máli Hanes-hjónanna# (umræður utan dagskrár), GHelg
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[13:46]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. 8. þm. Reykn. fyrir að taka þetta mál upp. Ég hafði satt að segja undrast það meðan ég ekki var hér inni að enginn skyldi bregðast við dómi Hæstaréttar í þessu máli. Það fer auðvitað ekki á milli mála að dómsmrn. hefur orðið þarna alvarlega á, og það sem kannski getur ekki verra verið --- í máli sem varðar mannréttindi. Ég harma að hæstv. dómsmrh. skuli ekki viðurkenna það því ég hygg að hann viti betur. Og ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að ég er ekki í nokkrum vafa um að dómsmálaráðherra í næstu nágrannalöndum hefði tafarlaust orðið að víkja sæti og segja af sér eftir þennan dóm sem hv. þm. sem hér talaði á undan las upp. (ÖS: Ertu að fara fram á það?) Nei, hv. ritstjóri Alþýðublaðsins, og hv. 15. þm. Reykv. er að verða sér úti um efni og ég skal svara því alveg strax. Ég er ekkert að fara fram á það. Það er nú einu sinni þannig að sérhver maður sem tekur að sér ráðherradóm verður sjálfur að meta siðferðislega skyldu sína þegar svona mál kemur upp. Og það eru auðvitað óteljandi hlutir sem finna má að í þessu máli. Það kemur fram í erindi lögfræðingsins sem tekur málið að sér fyrir Hanes-hjónin að hann er búinn að hafa samband við dómsmrn. sem lofar honum að bíða með aðgerðir þangað til dómur hefur fallið. Hanes-hjónin voru ekkert að hlaupast í burtu. Þau voru búin að búa hér í heilt ár, stunda vinnu sína hér á landi. Það var leikur einn að setja þau í farbann til þess að þau kæmust ekki í burtu með barnið. En það lá ekkert á að rífa fjögurra ára gamalt barn af leikskóla sínum, henda því til ókunnugs fólks og senda barnið síðan úr landi. Því ég held að það sé nefnilega alveg rétt sem hv. 8. þm. Reykn. sagði, þetta var sjónvarpsefni --- öll þessi historía. Með konunni, móðurinni, komu til landsins heimsfrægir þáttagerðarmenn (Forseti hringir.) og ég held að þeir menn hafi átt þarna ómældan hlut að máli.

Því miður er tími minn búinn, hæstv. forseti, og ég skal virða það. En ég óska eftir því við hæstv. forseta þingsins að þingið hafi frumkvæði um að þetta mál verði rætt, annaðhvort í hv. allshn. eða á einhverjum öðrum vettvangi, því við, hv. þm., verðum að koma í veg fyrir að svona lagað komi nokkru sinni fyrir aftur.