Ríkisendurskoðun

Fimmtudaginn 13. febrúar 1997, kl. 14:49:37 (3496)

1997-02-13 14:49:37# 121. lþ. 70.11 fundur 262. mál: #A Ríkisendurskoðun# (heildarlög) frv., Flm. ÓE
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur

[14:49]

Flm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka enn undirtektir þeirra hv. þm. sem hér hafa talað við umræðuna. Það eru örfáar spurningar sem beint hefur verið til mín. Fyrst það sem hv. þm., Guðný Guðbjörnsdóttir, nefndi um 9. gr. og í tengslum við hana ákvæðin í hinum nýju lögum um Landsvirkjun sem við höfum nýlega samþykkt hér á Alþingi. Það varð einmitt talsverð umræða um heimildir Ríkisendurskoðunar til að gera stjórnsýsluendurskoðun á Landsvirkjun. Ég vísa í því sambandi að sjálfsögðu annars vegar til ákvæðanna í þessu frv. og ef við tölum eingöngu um Landsvirkjun, til yfirlýsinga hæstv. iðnrh. og til brtt. sem kom fram við 3. umr. og var þá samþykkt.

Ég tel hins vegar sjálfsagt, en nefndi það ekki í framsöguræðu minni, að nefndin sem fær þetta mál til meðferðar taki til sérstakrar umræðu það sem kom fram í frhnál. meiri hluta iðnn., sem fjallaði alveg sérstaklega um þetta. Með leyfi forseta skal ég lesa upp úr nál.

,,Meiri hluti iðnaðarnefndar telur jafnframt eðlilegt að Ríkisendurskoðun hafi heimild til þess að gera stjórnsýsluendurskoðun á fyrirtækjum sem ríkið á meiri hluta í, líkt og er um Landsvirkjun. Til þess að svo megi verða með óyggjandi hætti þarf að breyta 9. gr. fyrirliggjandi frumvarps til laga um Ríkisendurskoðun, og kveða þar sérstaklega á um stjórnsýsluendurskoðun hjá fyrirtækjum sem ríkið á meiri hluta í en Ríkisendurskoðun annast ekki fjárhagsendurskoðun hjá vegna ákvæða í sérlögum.``

Ég lýsi því yfir að ég tel alveg sjálfsagt og nauðsynlegt að nefndin taki þetta til sérstakrar yfirvegunar.

Hv. 8. þm. Reykv., Guðrún Helgadóttir, spurði um ákvæðin varðandi umhverfisendurskoðunina og ég skildi hv. þm. svo að ekki væri verið að gagnrýna ákvæðin um umhverfisendurskoðun, þvert á móti að taka undir þau, sem ég fagna. En hv. þm. spurði hvers vegna þetta sérákvæði og hvort það útilokaði önnur atriði sem eru ekki síður mikilvæg þótt með öðrum hætti sé og nefndi í því samhengi jafnréttismál, réttindi barna, sjúklinga o.fl. ef ég hef tekið rétt eftir.

Nú legg ég áherslu á að menn oftúlki ekki þetta ákvæði. Hérna er fyrst og fremst, eins og ég held ég hafi getið um í framsöu minni, verið að veita Ríkisendurskoðun heimild til þessarar svokölluðu umhverfisendurskoðunar. Það kemur glögglega fram í greinargerðinni með frv. þar sem segir á einum stað:

,,Að baki þessari heimild býr sama hugsun og að baki heimildum stofnunarinnar til þess að meta árangur af starfi ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja, sbr. 1. mgr. greinarinnar. Hér er verið að bregðast við örri þróun nýrrar greinar á sviði endurskoðunar, hinnar svokölluðu umhverfisendurskoðunar.``

Það væri til athugunar fyrir nefndina, ég nefndi það ekki sérstaklega í ræðu minni, að bæta inn orðunum --- til dæmis --- hafa ekki eingöngu orðin Ríkisendurskoðun, bæta inn skammstöfuninni t.d. Það vildi ég gjarnan að nefndin athugaði. Þetta er í lok 2. mgr. 9. gr. þar sem segir:

,,Þá getur hún kannað hvernig stjórnvöld framfylgja áætlunum, lagafyrirmælum og skuldbindingum á sviði umhverfismála.`` Þar kæmi í staðinn --- t.d. á sviði umhverfismála. Ég held að rétt væri að nefndin ræddi það alveg sérstaklega. En hún verður sjálfsagt að gæta þess líka að það kann að þurfa að setja heimildum Ríkisendurskoðunar einhver takmörk. Það hlýtur nefndin jafnframt að athuga.

Ég held að það hafi ekki verið fleira sem var beint til mín sérstaklega en ég ítreka þakkir mínar fyrir góðar undirtektir við frv.