Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 16:55:56 (3544)

1997-02-17 16:55:56# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[16:55]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kom út af fyrir sig ekki mikið nýtt fram í ræðu hv. þm. annað en það sem hann talaði um meinta þenslu. Ég vil vara við því að menn geri lítið úr því og ég vil vekja athygli á að meira að segja borgarstjórinn í Reykjavík, fyrir hönd Reykjavíkurborgar, hefur léð máls á því að draga úr framkvæmdum borgarinnar til að hægt sé að auka framkvæmdir í vegagerð á svæðinu án þess að þær framkvæmdir auki á þenslu. Með þeim vilja sem hefur komið fram og hefur verið sagt frá í fréttum af hálfu fulltrúa Reykjavíkurborgar þá er það viðurkennt að sú hætta er fyrir hendi. Auðvitað væri best að þurfa ekki að draga úr vegaframkvæmdum en staðreyndin er nú bara sú að við verðum að líta á íslenska efnahagskerfið í heild. Við verðum að taka tillit til þess sem er og Þjóðhagsstofnun hefur spáð því að ef allar áætlanir um framkvæmdir við orkumannvirki og við stóriðjuframkvæmdir ná fram að ganga þá sé viss hætta á þenslu. Við eigum hins vegar ekkert að bregðast við umfram það sem eðlilegt er í þeim efnum en engu að síður verðum við að taka tillit til þeirra staðreynda og gera það sem nauðsynlegt er og það er m.a. að hægja á en hætta ekki við, skera ekki niður heldur greiða niður skuldir eins og vegáætlun gerir ráð fyrir að gert sé.