Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 18:11:04 (3575)

1997-02-17 18:11:04# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[18:11]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð nú að segja að það kemur mér á óvart að ekki skuli vera önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu í þessari umræðu en Reykjavíkurborg. Það kemur mér einnig á óvart að sveitarfélögin skuli ekki hafa haft samband við hæstv. samgrh. eða þá jafnvel að hann hefði sjálfur samband við þau um að þetta gæti staðið til. Ég held að það sé engum blöðum um það að fletta að tvöföldun Reykjanesbrautarinnar er ekki minna áríðandi heldur en þær framkvæmdir sem hann nefndi í Ártúnsbrekkunni. Ég geri alls ekki lítið úr mikilvægi þeirrar framkvæmdar, síður en svo, en ég held að allir þeir sem þekkja Reykjanesbrautina frá Breiðholti til Hafnarfjarðar sjái að það er í rauninni orðinn lestargangur á þeirri leið því umferðin er svo mikil og stöðug. Báðum megin við hana eru mjög stórar hraðbrautir getum við sagt, eins og t.d. Breiðholtsbrautin sem er með þrjár og fjórar akgreinar í hvora átt, þannig að það er algjör flöskuháls á þessu svæði. Ég vonast til að þessi umræða haldi áfram í samgn. En ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin.