Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 18:17:57 (3579)

1997-02-17 18:17:57# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[18:17]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Þótt úr Hafnarfirði sé þá átta ég mig fyllilega á því að hér er um verulegan niðurskurð að ræða í vegamálum yfir landið allt. Þannig að ég tek heils hugar undir með hæstv. samgrh. í þeim efnum. Það er allt loft úr honum. Það er ekki eingöngu á höfuðborgarsvæðinu sem dregur úr þessum fjárframlögum heldur á landinu öllu. Þar erum við sammála Norðlendingurinn og Hafnfirðingurinn og hallast ekki á, þannig að um það þarf ekki að deila.

Ég spurði hins vegar um það og ég kalla mjög ákveðið eftir svari við því hvort kontór hans sé opinn sveitarfélögum vítt og breitt um landið um að gera viðskipti við hann á þeim nótum sem hann er að ræða við Reykjavíkurborg og hann gekk frá við Grindvíkinga, að hann sé tilbúinn til að slaka út spotta hér og spotta þar að uppfylltum einhverjum ákveðnum skilyrðum, sem ég veit ekki hver eru. Ég spyr um þau líka. Ég spyr líka að gefnu tilefni: Er þá verið að ræða um innbyrðis breytingar á fé til vegamála sem frá var gengið í desember í fjárlögum eða er hugsanlega verið að tala um nýtt lán? Er verið að tala um allt aðrar tölur en fjárlögin segja til um? Ætlar hæstv. ráðherra til að mynda í fyrramálið að sækja eftir auknum heimildum í ríkisstjórninni eða ætlar hann að skera niður annars staðar? Það er alveg nauðsynlegt að hv. alþingismenn viti hvað hæstv. ráðherra og ríkisstjórn er að sýsla. Menn eru að tala um einhver samkomulög, samkomulag hér og samkomulag þar á milli einhverra stjórnarliða, sem að vísu kemur síðan alltaf á óvart þegar talað er um niðurskurð. En það er alveg nauðsynlegt ... (Gripið fram í.) Samkomulög, já, það eru vond lög, þau eru ólög. Ég vil hins vegar vita, virðulegi forseti, undir hvaða formerkjum þessar viðræður hæstv. ráðherra eru við sveitastjórnir hér og þar og alls staðar og eiga allir greiðan aðgang að koma í þetta ,,Kolaport``?