Vegáætlun 1997 og 1998

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 18:35:06 (3584)

1997-02-17 18:35:06# 121. lþ. 71.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997-2000# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[18:35]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við skiptumst á skoðunum um Ártúnsbrekku, ég og hv. þm. Þingmaðurinn hafði orð á því fyrr í dag að sér þætti rétt að samgrh. reyndi að stilla saman framkvæmdum í flugmálum, hafnamálum og vegamálum. Nú veit ég ekki hvort hv. þm. er óljúft að fallast á að það kunni kannski ekki að saka þótt borgarstjóri og samgrh. töluðu saman um vegamál á höfuðborgarsvæðinu. Það var nú einmitt það sem ég var að lýsa hér áðan og ég vona að það sé ekki áfellisdómur yfir mér þó að ég hafi tekið málaleitan borgarstjóra vel og vilji láta athuga til þrautar hvort hægt sé að koma til móts við óskir borgarinnar.

Í sambandi við vegafé er það almennt að segja að ef tekið er tillit til þess viðbótarfjár sem til fellur, annars vegar vegna Skeiðarársands og hins vegar vegna tengingar Hvalfjarðarganga, og ef heildarverk samkvæmt vegáætlun eru borin saman við vegáætlun eins og hún lá fyrir, gildandi vegáætlun frá árunum 1995--1998, þá verður framkvæmdamagn svipað á þessu ári og hinu næsta eins og gert var ráð fyrir þegar vegáætlun var samþykkt.