Flugmálaáætlun 1997

Mánudaginn 17. febrúar 1997, kl. 18:51:57 (3590)

1997-02-17 18:51:57# 121. lþ. 71.13 fundur 257. mál: #A flugmálaáætlun 1997# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur

[18:51]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Þegar þessi flugmálaáætlun var samþykkt síðasta vor var gert ráð fyrir því að kostnaður við að endurbyggja Reykjavíkurflugvöll lægi eitthvað í kringum einn milljarð, kannski 1,1 milljarð kr. Þá var jafnframt talið að nauðsynlegt yrði að ráðast í þá framkvæmd og taka hana fyrir á sem skemmstum tíma og var talað um tvö ár eða jafnvel þrjú í því sambandi en alls ekki lengur. Það er aðvitað rétt hjá hv. þm. að hér eru 117 millj. kr. á þessu ári upp í þessa framkvæmd og vantar þá 900 millj. kr. samkvæmt þeim hugmyndum sem þá voru uppi.

Nú er mér sagt, ég held að ég fari rétt með það, að hugmyndir í flugráði séu komnnar upp í 1,3 milljarða kr. þannig að kröfurnar þar hafa vaxið um 30% á þessu hálfa ári sem liðið er síðan flugmálaáætlun var samþykkt. Tölurnar eru fljótar að hækka og vaxa og stækka.

Ég vil bara segja það að auðvitað hefðum við ekki farið langt fyrir þessar 117 millj., það er síður en svo. Aðalatriðið í málinu er að það hefur náðst samkomulag tel ég, þó að það sé kannski ekki formlega frá gengið þá er það a.m.k. í burðarliðnum, milli Reykjavíkurborgar og samgrn. um að ráðast í endurbyggingu flugvallarins. Ég veit ekki betur en við séum samstiga um það. Í samgrn. er unnið áfram að undirbúningi að því hvernig rétt sé að bjóða verkið út og ég mun að sjálfsögðu hraða þeirri vinnu eins og kostur er. Síðan verður að freista þess að ná samkomulagi um hvernig fjár verður aflað. Það verður ekki tekið af flugmálaáætlun á einu ári, en vegna þeirrar miklu þenslu sem fyrirsjáanleg er á verktakamarkaði á þessu ári var tekin ákvörðun um að fresta Reykjavíkurflugvelli um eitt ár.