Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 15:40:32 (3636)

1997-02-18 15:40:32# 121. lþ. 72.8 fundur 260. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[15:40]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá þingmanninum að ég skildi orð hans svo að hann teldi að þarfir langveikra barna til að hafa foreldra sína nálægt sér á meðan þau væru að berjast við sinn sjúkdóm og kostnaðurinn við það væri eitthvað sem væri utan við þetta mál vegna þess að hér værum við að tala um réttindi sjúklinga og þetta væri kannski ekki innan þess ramma. Ég er ekki sammála því. Ég tel að það verði að skoða hvernig hægt er að virða þennan mikilvæga rétt og festa hann í sessi einmitt í tengslum við að setja lög um réttindi sjúklinga. Ég fagna því viðbrögum þingmannsins og að hann skuli hafa leiðrétt það.

Ég vil líka taka undir það --- af því að fyrir utan það að hafa oft dvalið á Barnaspítala Hringsins með barni, þá hef ég eins og þingmaðurinn skoðað aðstæður á Ríkisspítölum --- að það sem var gott í þeim áætlunum sem voru gerðar fyrir þremur árum þegar ákvörðun var tekin um það, m.a. í samvinnu við Reykjavíkurborg og fleiri aðila, að fara af stað með byggingu Barnaspítala Hringsins, þá var bent á það að þá m.a. rýmkaðist um aðrar deildir. Ekki hefur mér vitanlega verið tekin ákvörðun um það hvort t.d. ungbarnadeild eða vökudeild yrði staðsett á barnaspítala eða hvort hún yrði í tengslum við fæðingardeild. En það er alveg ljóst að ef við byggjum barnaspítala þá losnar um það rými sem barnaspítali innan veggja Ríkisspítala nú tekur.

Annað sem ég hefði líka gjarnan viljað nefna og kom ekki að í máli mínu varðar það að staðinn sé vörður um réttindi sjúklinga. Það er mál sem við höfum lagt fram um umboðsmann sjúklinga og ætti vissulega heima í þessari umræðu þar sem fjallað er um að einhver sérstakur sé ráðinn til Ríkisspítalanna sem sjái um réttindin og sem hægt er að kvarta til eða leita til varðandi allt sem kemur upp á.