Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 16:37:58 (3644)

1997-02-18 16:37:58# 121. lþ. 72.8 fundur 260. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[16:37]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að til þess að geta uppfyllt þau ákvæði frv. þurfi að gera bragarbót á ýmsum sviðum, eins og hæstv. ráðherra sagði réttilega. Ég tek undir það að fullu. En það sem ég var að benda á er að í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. er ekki gert ráð fyrir neinni bragarbót nema á þremur sviðum, þ.e. túlkun á erlent tungumál eða táknmál sem hefur í för með sér einhvern kostnað. Í öðru lagi er í 22. gr. talað um að tryggja fullnægjandi heimaþjónustu og þar segir að ekki verði séð að með frv. felist breytingar á núverandi fyrirkomulagi og á því greinin ekki að hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs og síðan 4. mgr. 27. gr. þar sem fjallað er um kennslu barna sem dvelja á sjúkrastofnunum, en samkvæmt skilningi fjmrn. eiga sveitarfélögin að bera þann kostnað.

Það er hins vegar ljóst og hefur komið fram í umræðunni að annar kostnaðarauki er verulegur og það hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra. Það er rétt að fyrsta skrefið er að samþykkja frv. En þegar búið er að samþykkja frv. þá er það orðið að lögum og þá er það lögbrot ef ekki er hægt að standa við þau. 4 til 8 millj. kr. úr ríkissjóði munu ekki fullnægja þeirri þörf sem verður fyrir fjármagn til sjúkrastofnana ef standa á við lögin. Það sem ég vil fá fram hjá hæstv. ráðherra er það: Er ráðherra sammála því að þetta sé rétt túlkun? Hver er hinn raunverulegi kostnaður sem frv. hefur í för með sér verði það að lögum?