Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 16:43:48 (3648)

1997-02-18 16:43:48# 121. lþ. 72.8 fundur 260. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[16:43]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Þær vonir mínar að ýmis ákvæði frv. mundu skýrast og verða gleggri eftir ræðu hæstv. heilbrrh. hafa brostið að fullu og öllu. Ég hef satt að segja enn meiri áhyggjur en fyrr af ýmsum atriðum og mér finnst hún hafa flækt þau fremur en skýrt.

Ég kom inn á það áðan hvernig ætti að lesa saman 1. gr. þessa frv. um að óheimilt væri að mismuna sjúklingum, þar með talið öldruðum, 3. gr. um að sjúklingur eigi rétt á fullkomnustu meðferð sem völ er á á hverjum tíma og síðan 19. gr. um forgangsröðun. Hvernig kemur þetta allt heim og saman? Hvað þýðir þetta fyrir aldraðan Íslending, 80 ára gamlan? Fer hann aftar í forgangsröðun í beinaaðgerðum, í liðamótaaðgerðum en maður sem er 40 ára? Um þetta snýst málið og þessu verðum við auðvitað að svara. Ég er ekki með beinar tillögur um þetta en hæstv. heilbrrh. hlýtur auðvitað að hafa ákveðna sýn á þetta mál. Við getum ekki lesið svona grundvallarlöggjöf sem hér um ræðir eftir hendinni hverju sinni. Og hér er ekkert lítið frv. á ferðinni, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, eða einhver rammalöggjöf. Hér er um grundvallarlöggjöf að ræða sem önnur sérlög hljóta að taka mið af. Það er meginmál þessarar umræðu. Við getum ekki skautað fram hjá viðkvæmum álitamálum með einhverju almennu snakki og það er nákvæmlega það sem hæstv. ráðherra hefur því miður gert í allt of ríkum mæli, farið yfir á hlaupum yfir einstakar athugasemdir, reyndar súmmerað þær upp undir eigin merkjum en engum svörum skilað frá sér.

Auðvitað er það lykilatriðið í þessu öllu saman og er ekki á borð bjóðandi að segja að þetta kosti mikla peninga og menn svari kostnaðarspurningum á þann hátt. Þetta kosti bara einfaldlega mikla peninga. Hversu mikla peninga kostar þetta? Kostar þetta 8 millj. eins og fjmrh. segir eða eitthvað allt, allt annað? Við hljótum að kalla eftir svörum við þessu.