Umönnun aldraðra

Þriðjudaginn 18. febrúar 1997, kl. 18:29:04 (3673)

1997-02-18 18:29:04# 121. lþ. 72.10 fundur 201. mál: #A umönnun aldraðra# þál., Flm. GMS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur

[18:29]

Flm. (Gunnlaugur M. Sigmundsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir hans innlegg í þessa umræðu. Hv. þm. nefndi þó að það bæri að líta frekar til Norðurlandanna heldur en til Bandaríkjanna sem ég hef gert í framsögu minni í þessu máli. Ég verð að viðurkenna að ég er honum ekki sammála um þetta. Ég tel að menn hafi í allt of miklum mæli, bæði í þessum málum og öðrum, einskorðast við sænskan sósíalisma sem í þessum málum eins og svo mörgum öðrum miðast við stofnanir og þá vinnu sem hið opinbera framkvæmir fyrir reikning skattborgara.

Það sem hér er verið að reyna að draga fram er að í löndum eins og Bandaríkjunum er þróuð starfsemi á þessu sviði sem einkaaðilar veita og kostuð er að hluta til líka af einkaaðilum, þ.e. tryggingafélögum sem og notendum þjónustunnar. Þetta hefur það í för með sér að fólk hugsar meira fyrir efri árunum heldur en það gerir hér á Íslandi. Það leggur fyrir með því að kaupa sér tryggingar til þess að það geti fengið þá umönnun sem það vill fá til þess að geta dvalist sem lengst á eigin heimili. Ég er þannig ekki sammála hv. þm. um að menn eigi að líta meira heldur en nú er gert til Skandinavíu. Ég tel reyndar skaðlaust að menn litu í aðrar áttir einnig.

Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson nefndi einnig að það er séð fyrir mörgu þessa sem hér hefur verið nefnt í lögum um umönnun aldraðra, þau lög verði endurskoðuð og ég vona að við þá endurskoðun verði tekið inn það sem ég er aðallega að reyna að vekja athygli á, en það er að þeirri starfsemi sem víða erlendis fer fram á vegum einkaaðila við aldraða verði nægilegur gaumur gefinn. Ég held að vísu að það megi flokka starfsemi eins og fram fer á Dvalarheimili aldraðra sjómanna að einhverju leyti sem starfsemi á vegum einkaaðila, en ég er hér í rauninni að tala um persónulegri þjónustu heldur en þar fer fram, þ.e. starfsemi sem miðast að því að veita umönnun og aðhlynningu inni á heimili viðkomandi skjólstæðings. Og ég veit af eigin reynslu að það er lítið eða ekkert eftirlit með þeim umönnunaraðilum sem veita þjónustu inni á heimili hinna fjölmörgu skjólstæðinga sem fá slíka þjónustu í dag, en þar með er ekki sagt að þeir umönnunaraðilar séu ekki í lagi.

Ég ítreka að ég er ekki að gefa í skyn að þjónustan sé ekki í lagi, en ég held að eftirlitið með henni sé ekki í lagi, þ.e. eftirlit sem byggðist á því að fara inn á viðkomandi heimili og sjá hvernig þetta er framkvæmt.