Jarðgufuvirkjanir utan miðhálendisins

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 14:19:34 (3711)

1997-02-19 14:19:34# 121. lþ. 73.4 fundur 317. mál: #A jarðgufuvirkjanir utan miðhálendisins# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur

[14:19]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. spyr hversu mikil orka sé virkjanleg svo hagkvæmt sé með jarðgufuvirkjunum utan miðhálendisins. Líkt og í fyrra svari mínu við fyrirspurn á þskj. 577 ætla ég að gera tilraun til að skipta landinu aftur upp í þrjú meginsvæði:

1. Svæði þar sem einhver orkuvinnsla fer þegar fram hvort sem það er á eða utan miðhálendisins.

2. Svæði utan miðhálendisins sem ekki eru nýtt.

3. Svæði á miðhálendinu sem ekki eru nýtt.

Heildarvarmaorka háhitasvæðanna hefur verið gróflega áætluð með hliðsjón af útbreiðslu háhitaummerkja á yfirborði jarðar og jarðeðlisfræðimælingum á einstaka svæði. Af þeirri varmaorku sem næst úr háhitasvæðum á hagkvæman hátt er talið að einungis 10--15% skili sér til raforkuframleiðslu. Því ætla ég ekki að gera tilraun til þess að meta hvort nýtingu einstakra háhitasvæða kunni að verða hafnað eða nýting þeirra takmörkuð með tilliti til röskunar á umhverfi.

Raforkugeta þeirra háhitasvæða þar sem einhver orkuvinnsla fer fram nú þegar er 500.000 gwst. Hér er rétt að benda á að um er að ræða hversu mikla raforku mætti vinna á þessum svæðum með þeim varmaforða sem er í berginu og því er ekki um að ræða hversu mikla orku mætti fá úr svæðinu á hverju ári. Sú tala ræðst af því hversu hratt einstök svæði eru nýtt. Þannig mætti t.d. vinna um 5.000 gwst. á ári í 100 ár eða 10.000 gwst. á ári í 50 ár og 1.000 gwst. á ári í 500 ár.

Á háhitasvæðum utan miðhálendisins þar sem nýting er ekki hafin er talið að mætti vinna um 350.000 gwst. Þá mætti vinna á háhitsvæðum á miðhálendinu um 550.000 gwst. að áætlað er.

Ef gert væri ráð fyrir að allur varmaforði allra háhitasvæðanna væri nýttur á 50 árum, sem er líklega heldur lengri tími en svarar til endingartíma jarðgufuvirkjunar, er möguleg raforkuvinnsla frá háhitasvæðum landsins talin vera sem hér segir:

Á svæðum þar sem vinnsla er þegar hafin: 10.000 gwst. á ári.

Á svæðum utan miðhálendisins þar sem orkuvinnsla er ekki hafin: 7.000 gwst. á ári.

Á svæðum á miðhálendinu: 11.000 gwst. á ári.

Samtals er þetta 28.000 gwst. á ári.

Árleg vinnslugeta háhitasvæða til raforkuvinnslu utan miðhálendisins eða á svæðum á miðhálendinu þar sem vinnsla fer þegar fram er því áætluð 17.000 gwst. á ári ef reiknað er með 50 ára nýtingartíma. Ekki er talið að öll varmaorka skili sér til vinnslu raforku en eðli máls samkvæmt fæst ekki endanlega úr því skorið fyrr en við vinnslu. Til samanburðar nam raforkuvinnsla með jarðhita á síðastliðnu ári 346 gwst. á því ári. Um hagkvæmni eru aðeins til fremur lauslegar hugmyndir en þó má með vissu segja að raforkuframleiðsla sem aukaafurð með varmavinnslu er mjög hagkvæm, samanber vinnslu á raforku í Svartsengi og þær áætlanir sem núna eru uppi um vinnslu á Nesjavöllum.

Eins og í svari við fyrri fyrirspurninni ætla ég að gera tilraun til þess að skipta virkjunarkostunum upp í þrjá flokka eftir hagkvæmni.

Í fyrsta flokki eru virkjanakostir þar sem orkukostnaður er undir 20 kr. á kwst. á ári. En þar undir eru t.d. virkjanir í efri hluta Þjórsár sem hagkvæmt er talið að ráðast í á næsta áratug.

Í öðrum flokki eru virkjanakostir þar sem orkukostnaður er á bilinu 20--25 kr. kwst. á ári. Efri mörkin eru hér sett u.þ.b. 50% hærri en orkukostnaðurinn í Sultartangavirkjuninni eins og ég sagði frá hér áðan.

Í þriðja flokki eru virkjunarkostir þar sem orkukostnaður er hærri en 25 kr. á kwst. á ári eða virkjunarkostnaður er ekki þekktur.

Þar sem orkuöflun er tryggð og kostnaður af aðstöðu er lágur gætu háhitavirkjanir fallið í fyrsta hagkvæmnisflokk svo sem Bjarnarflag. Annars er talið að háhitavirkjanir á láglendi gætu margar hverjar fallið í annan hagkvæmnisflokk eða jafnvel þann fyrsta. Hér gæti t.d. verið um að ræða háhitasvæði á Suðvesturlandi en athuganir á því svæði liggja ekki fyrir. Þar þarf þó einnig að taka tillit til vaxandi þarfar höfuðborgarsvæðisins fyrir hitaorku og gufu eða varma til iðnaðar. Einnig þarf þar að hafa í huga að með tilliti til skilvirkrar nýtingar háhitagufu fer best á að sameina varmavinnslu og raforkuvinnslu. Það er því ekki hægt að segja til um hversu mikla orku er hagkvæmt að virkja á háhitasvæðum utan miðhálendisins. Og líkt og í fyrra svari mínu þá hefur í þessum tilraunum til áætlunar ekki verið tekið tillit til þeirra þröngu skorða sem umhverfissjónarmið að einhverju leyti munu setja okkur í þessum efnum.