Minning Jónasar Péturssonar

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 15:30:23 (3726)

1997-02-19 15:30:23# 121. lþ. 74.1 fundur 199#B minnst látins fyrrverandi alþingismanns#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur

[15:30]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Jónas Pétursson, fyrrverandi tilraunastjóri og alþingismaður, andaðist í gær, þriðjudaginn 18. febrúar. Hann var hátt á áttugasta og sjöunda aldursári.

Jónas Pétursson var fæddur á Hranastöðum í Eyjafirði 20. apríl 1910. Foreldrar hans voru hjónin Pétur Ólafsson bóndi þar og Þórey Helgadóttir húsmóðir. Auk almenns barnalærdóms í sinni sveit nam hann búfræði og lauk prófi frá bændaskólanum á Hólum 1932. Hann var bóndi á Hranastöðum 1933--1946 og jafnframt ráðunautur Búnaðarsambands Eyjafjarðar og eftirlitsmaður Nautgriparæktarsambands Eyjafjarðar 1934--1940. Bústjóri og tilraunastjóri á Hafursá á Fljótsdalshéraði var hann 1947--1949 og á Skriðuklaustri í Fljótsdal 1949--1962. Eftir það fluttist hann að Lagarfelli í Fellahreppi, var fulltrúi hjá Norðurverki við Lagarfossvirkjun 1971--1974 og framkvæmdastjóri Verslunarfélags Austurlands 1974--1982.

Jónas Pétursson var í kjöri fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Austurlandskjördæmi við alþingiskosningarnar haustið 1959, hlaut kosningu og sat á Alþingi til 1971, á 12 þingum alls. Hann var kjörinn til ýmissa annarra trúnaðarstarfa. Í hreppsnefnd Hrafnagilshrepps í Eyjafjarðarsýslu var hann 1935--1937 og 1938--1946 og í hreppsnefnd Fljótsdalshrepps í Norður-Múlasýslu 1954--1962. Hann var formaður stjórnar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins 1966--1969, í stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs 1966--1971 og í nýbýlastjórn, síðar landnámsstjórn 1971--1975, formaður stjórnarinnar 1971--1974. Hann var formaður þjóðhátíðarnefndar í Múlaþingi árið 1974 þegar minnst var ellefu alda byggðar í landinu.

Jónas Pétursson nam búfræði og starfaði meginhluta ævinnar við landbúnað. Honum var umhugað um að sveitirnar efldust og byggð héldist um land allt. Þau hugðarefni mótuðu störf hans í héraði og á Alþingi og um þau ritaði hann fjölda blaðagreina. Honum varð sitthvað ágengt í framfaramálum kjördæmis síns og hann var einn tillögumanna á Alþingi til lausnar á framkvæmdum við síðasta kafla hringvegar um landið sem fagnað var á þjóðhátíðarárinu 1974. Farið var að ráðum hans um sérstaka fjáröflun til framkvæmdanna.

Ég bið háttvirta alþingismenn að minnast Jónasar Péturssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]