Vörumerki

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 10:31:02 (3742)

1997-02-20 10:31:02# 121. lþ. 75.1 fundur 233. mál: #A vörumerki# (heildarlög) frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[10:31]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til nýrra vörumerkjalaga sem er 233. mál þingsins á þskj. 338.

Í júní á síðasta ári skipaði ég starfshóp til að endurskoða ákvæði laga nr. 47/1968, um vörumerki. Lögin voru að meginefni til óbreytt frá þeim tíma. Aðeins voru gerðar minni háttar breytingar á lögunum árið 1984 og árið 1993. Það lætur að líkum að margt hefur breyst á þessu sviði og var það því niðurstaða starfshópsins að nauðsynlegt væri að semja frv. að nýjum heildarlögum.

Það voru einkum þrjú atriði sem kölluðu á endurskoðun vörumerkjalaga okkar. Í fyrsta lagi má telja þær skuldbindingar sem Ísland tók á sig með samningnum við hið Evrópska efnahagssvæði og varða aðild að ýmsum alþjóðlegum sáttmálum á sviði hugverkaréttinda.

Í öðru lagi eru það skuldbindingar vegna þess hluta samningsins um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem fjallar um hugverkarétt í viðskiptum og loks má telja almenna þróun sem orðið hefur á þessu réttarsviði annars staðar á Norðurlöndum.

Fyrsta atriðið kemur til af ákvæðum í bókun 28 við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði, þar sem kveðið er á um ýmsa alþjóðasamninga á sviði hugverkaréttinda sem Ísland skal gerast aðili að. M.a. kemur þar fram að Ísland mun frá og með 1. janúar 1997 fylgja bókuninni um Madrid-samninginn um alþjóðlega skráningu merkja. Vegna aðildar Íslands að nefndri bókun sem tilkynnt var Alþjóðahugverkastofnuninni 15. janúar sl. ber nauðsyn til að taka upp í vörumerkjalög ákvæði um alþjóðlegar vörumerkjaskráningar. Bókunin öðlast gildi þann 15. apríl nk. Hún er eins konar viðauki við alþjóðlega samninga um sama efni, Madrid-samninginn frá árinu 1891. Síðan hefur hann lítið verið nýttur af ástæðum sem raktar eru í grg. með frv. Þessa bókun hafa nú 15 ríki fullgilt og er gert ráð fyrir að fjölmörg ríki munu gerast aðilar á næstu mánuðum. Bókunin mun koma til framkvæmda 1. apríl 1996.

Ég tel rétt að víkja aðeins nánar að þessu alþjóðlega skráningarkerfi. Aðild að bókuninni felur það í sér að aðilar í samningsríkjunum geta lagt inn umsókn um skráningu vörumerkis í einu ríki og sú umsögn getur síðan orðið grundvöllur alþjóðlegrar skráningar í öllum samningsríkjunum. Alþjóðleg skráning getur þannig sparað aðilum útgjöld og fyrirhöfn sem fylgir því að sækja um skráningu í einstökum ríkjum.

Það er Alþjóðahugverkastofnunin í Genf sem fer með yfirstjórn alþjóðlegra vörumerkjaskráninga samkvæmt bókuninni en vörumerkjaskrifstofur í hverju aðildarríki veita umsóknum viðtöku. Hér á landi tekur Einkaleyfastofan við umsóknum um alþjóðlega skráningu. Skilyrði er að umsækjandi sé íslenskur ríkisborgari eða sé búsettur hérlendis eða reki hér virka atvinnustarfsemi. Jafnframt þarf hann að vera eigandi vörumerkjaumsóknar eða skráningar hér á landi. Einkaleyfastofan framsendir alþjóðlega umsókn til Alþjóðahugverkastofnunarinnar sem heldur skrá yfir öll vörumerki sem skráð eru alþjóðlegri skráningu. Umsóknir erlendra aðila um að alþjóðleg skráning vörumerkis taki gildi hér berast hingað fyrir milligöngu Alþjóðahugverkastofnunarinnar og slíkar umsóknir fá sams konar meðhöndlun og aðrar umsóknir sem eingöngu er ætlað að ná til Íslands. Gera má ráð fyrir að umsóknum um skráningu vörumerkja hérlendis fjölgi til muna vegna áhrifa bókunarinnar.

Annað atriði sem ég nefni sem ástæðu fyrir endurskoðun vörumerkjalaga varðar þann hluta samningsins um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem fjallar um hugverkarétt í viðskiptum. Vegna þess eru lagðar til nokkrar breytingar er varða m.a. gagnkvæma réttarvernd og ákvæði um verndun landfræðilegra tilvísana.

Þriðja ástæðan fyrir endurskoðun laganna eru þær almennu breytingar sem orðið hafa á þessu réttarsviði á Norðurlöndum og víðar á þeim tæpu 30 árum sem liðin eru frá síðustu heildarendurskoðun laganna. Benda má á að með sívaxandi viðskiptum milli þjóða hefur gildi vörumerkja vaxið til mikilla muna. Þekkt vörumerki eru lögð að jöfnu við hver önnur verðmæti í atvinnurekstri. Þessi þróun hefur skapað þrýsting á stjórnvöld um að taka upp hraðvirkari verndarkerfi. Skref í þá átt er sú breyting sem lögð er til í frv. þessu að í stað andmæla fyrir skráningu skuli vörumerki skráð strax og gengið hefur verið úr skugga um að það uppfylli skilyrði til skráningar. Frv. gerir þannig ráð fyrir að það sé fyrst eftir skráningu vörumerkis sem hægt sé að bera fram andmæli. Í ljósi þeirrar reynslu að andmæli komi aðeins fram við lítinn hluta innlagðra vörumerkjaumsókna þykir eðlilegt að eigendur þeirra umsókna sem ekki er andmælt þurfi ekki að bíða þrjá mánuði eftir að fá merki sín skráð. Af þessari breytingu einni leiðir allmargar breytingar.

Auk hagræðis fyrir umsækjendur leiðir þessi breyting varðandi andmæli til ákveðins sparnaðar við birtingar. Í stað tvíbirtingar verða vörumerki sem ekki koma fram andmæli við aðeins birt einu sinni í riti skráningaryfirvalda. Þá má telja það sjálfsagða réttarbót að með frv. er tryggður réttur andmælenda til að áfrýja úrskurðum einkaleyfayfirvalda í vörumerkjamálum til áfrýjunarnefndar. Samkvæmt gildandi lögum hefur aðeins umsækjandi rétt til að áfrýja.

Svo sem núgildandi lög kveða á um verða vörumerki skráð í flokka samkvæmt alþjóðlegu flokkunarkerfi fyrir vöru og þjónustu. Samkvæmt frv. er nokkuð hert á kröfum varðandi upplýsingar um það fyrir hvaða vöru eða þjónustu merkið eigi að gilda. Þannig þarf að tilgreina nákvæmlega hvaða vörur eða þjónusta óskast vernduð í þeim flokkum sem umsækjandi kýs að skrá merkið fyrir. Breytingar frá núverandi tilhögun felst í því að umsækjandi getur ekki helgað sér heila vöru eða þjónustuflokka heldur verður hann að tilgreina nákvæmlega fyrir hvaða vöru eða þjónustu merkið á að gilda.

Ég tel rétt að víkja örfáum orðum almennt að vörumerkjum og þróun þeirra hér á landi á síðustu árum. Einkaleyfastofan hefur frá árinu 1991 annast skráningu og meðferð vörumerkja hér á landi. Áður fór sérstök deild innan iðnrn. með þennan málaflokk. Auk vörumerkja annast Einkaleyfastofan meðferð og skráningu umsókna um vernd einkaleyfa og hönnunar. Fjöldi vörumerkjaumsókna og skráninga fer vaxandi. Nefna má að á árinu 1990 voru umsóknir um 1.040 og skráningar tæplega 1.000. Á síðasta ári voru umsóknirnar orðnar 1.570 og skráningar tæplega 1.400. Frá árinu 1980 hefur hlutur íslenskra aðila í innlögðum vörumerkjaumsóknum vaxið úr tæpum 15% í rúmlega 25%. Af þessum tölum má sjá að aukinn áhugi er hjá aðilum í atvinnurekstri að vernda auðkenni sín. Einnig má fullyrða að með auknum viðskiptum við erlend ríki hefur gildi vörumerkjaréttar vaxið til muna. Atvinnurekendum er orðið ljóst að gott vörumerki er gulls ígildi þegar vara eða þjónusta er markaðsfærð.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að frv. verði vísað til iðnn. og það verði afgreitt á þessu þingi, helst svo snemma að það geti öðlast gildi fyrir 15. apríl nk.