Aðgangur nemenda að tölvum og tölvutæku námsefni

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 12:36:28 (3786)

1997-02-20 12:36:28# 121. lþ. 75.8 fundur 325. mál: #A aðgangur nemenda að tölvum og tölvutæku námsefni# þál., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[12:36]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu þáltill. sem gerir ráð fyrir því að innan þriggja ára hafi sérhver nemandi í opinberum skólum aðgang að tölvum og tölvutæku námsefni minnst einn tíma á dag. Ég hygg að þessi þáltill. sé löngu tímabær eins og fram kemur reyndar í greinargerð og í umræðum á Alþingi.

Þáltill. fjallar um nýja tækni. Það eru ekki margir áratugir síðan bylting varð innan skólanna þegar fram kom tæki sem skólafólk taldi mikla byltingarkennda framför og kallaðist fjölritari. Það eru ekki margir áratugir síðan. Það tæki sem orðið er núna, örfáum áratugum síðar, talið forngripur. Þetta var mikið tæki og ef ég man rétt voru fyrstu fjölritarar sprittknúnir og sá vökvi jafnvel notaður til annarra þarfa.

Það liðu ekki mörg ár þar til handknúnir fjölritarar urðu rafknúnir og enn þóttu framfarir miklar. Næsta skeið, verulegt framfaraskeið, var þegar myndvarpar komu fram og glærufyrirlestrum rigndi yfir nemendur landsins.

Það eru innan við tíu ár síðan tölvur komu inn í suma skóla landsins. Á þessum síðustu tíu árum hafa framfarir orðið slíkar að það er með ólíkindum og nú hefur nýjasta skrefið verið stigið sem er internetið, tenging við umheiminn þannig að Ísland er komið í hringiðu umheimsins. Aðgangur nemenda að námsefni í gegnum tölvur er orðinn slíkur að nemendur geta í rauninni verið að námi allan sólarhringinn.

Það felur í sér, herra forseti, að tölvan er orðin lykilatriði í kennslu nemenda í grunn- og framhaldsskólum og á háskólastigi og í rauninni grunntæki fyrir allt nám. Hér er um nýja tækni að ræða sem felur í sér óendanlega möguleika til náms. Hins vegar hljótum við í þessu samhengi að velta þeirri spurningu upp hvort kennsluhættir hafi fylgt þeirri öru þróun sem átt hefur sér stað á tæknisviðinu, þeirri öru tækniþróun sem átt hefur sér stað ekki síst síðustu 10--15 árin. Ég leyfi mér að slá því fram að í grundvallaratriðum hafi kennsluhættir í heiminum lítið breytst frá dögum Forn-Grikkja eða Hellena þegar hinir fróðu og vísu einstaklingar stóðu uppi á kassa og messuðu yfir fjöldanum. Mestallt skólastarf í heiminum byggist upp á þessum grundvelli. Ég leyfi mér því að varpa fram þeirri spurningu hvort ekki sé ástæða til að endurskoða kennsluhætti með hliðsjón af þeirri öru tækniþróun sem átt hefur sér stað og skapar það svigrúm og þá möguleika námsfólks til náms sem ég nefndi áðan. Í því samhengi þarf einmitt að velta fyrir sér þeirri spurningu, hvernig nám fer fram. Fer nám fram fyrst og fremst við að nemandinn hlustar og skráir eða fer nám fram þannig að nemandinn er virkur á eigin forsendum eða er það sambland af hvoru tveggja?

Mér þykir rétt að leggja áherslu á það að tölvan er aðeins ein leiðin í námi nemenda, er ein leið að ákveðnu markmiði og þess vegna þykir mér þessi þáltill. vera löngu tímabær. Hún felur í sér að allir nemendur skuli hafa aðgang að tölvum. Það mun auka mikið jafnrétti nemenda til náms eftir kynjum og eftir búsetu. Það er afskaplega mikilvægur þáttur og þar spilar internetið inn í.

Þessi tillaga gerir jafnframt ráð fyrir því að ríkisstjórninni er falið að gera áætlun um þessi efni og í því felst stefnumótun. Og í þeirri stefnumótun hlýtur líka að verða skoðað hvernig eigi að fjármagna þetta en ég tel ekki rétt að gera þann þátt að aðalatriði í umræðunni hér og nú. Það hlýtur að koma til umræðu þegar áætlanagerð byggð á stefnumótun fer fram, en ég hygg að þingmenn séu sammála í grundvallaratriðum um meginmarkmiðið, þ.e. að nemendur hafi aðgang að tölvum. Í því felst jafnréttið.

Það skapar líka möguleika nemenda á því að stunda nám ekki einungis innan veggja skólans heldur ekki síður heima og það er þáttur sem vissulega þarf að skoða í tengslum við þessa tillögu eða miklu frekar kannski í framhaldi af henni. Þetta gefur nemendum með öðrum orðum óendanlega möguleika til náms, óbundið tíma og rúmi í raun og veru. Vissulega fylgja þessu ýmsar hættur. Of mikil seta við tölvur getur haft óheppilegar líkamlegar afleiðingar í för með sér og getur leitt til félagslegrar einangrunar, en að því er vikið í greinargerð með þáltill. að það verði m.a. hlutverk skólanna að sinna hinum félagslega þætti og þar hugsanlega verður það hlutverk sem mun skipta sköpum í framtíðinni, hlutverk kennarans, að sinna þessum félagslega þætti og leiðbeiningarþættinum í undraheimi tölvunnar. Ég legg áherslu á að tölvan mun aldrei leysa kennarann af hólmi að öllu leyti en að einhverju leyti.

Hætturnar eru auðvitað fleiri, t.d. að fjármagn fáist ekki. En ég trúi því að verði þessi metnaðarfulla tillaga samþykkt þá muni sá metnaður koma fram í fjárveitingum hvernig svo sem það verður leyst. Þetta mun líka gera ákveðnar kröfur til foreldra, sömu kröfur í rauninni og til kennara og það ýtir enn frekar undir samstarf skóla og heimila um notkun á tölvum.

Ég lít, herra forseti, á þessa tillögu sem skref í þá átt að færa kennslu í skólum landsins, nám nemenda, nær þeim tæknilega veruleika sem við búum nú við, en ég tel eðlilegt að fylgja þessari tillögu eftir með því að gerð verði úttekt á þeim kennsluháttum sem almennt eru stundaðir í landinu í dag og skoða hvort ekki sé ástæða til, með námskeiðum eða stefnumótun, að endurskoða kennsluhættina í ljósi þeirra tækniframfara sem orðið hafa. En tillagan er löngu tímabær. Tölvan er orðin mikilvægur og snar þáttur í námi og skapar óendanleg sóknarfæri.