Úttekt á hávaða- og hljóðmengun

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 14:46:28 (3807)

1997-02-20 14:46:28# 121. lþ. 75.14 fundur 243. mál: #A úttekt á hávaða- og hljóðmengun# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[14:46]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir efni þessarar tillögu og fagna því að hún skuli fram komin. Ég held að hér sé um mikið nauðsynjamál að ræða. Auðvitað vekur það upp margar spurningar þegar menn eru að velta hér upp öllum þessum tegundum hávaða sem á okkur dynja nánast dag hvern. Þeir þingmenn sem brugðu sér í bíó í gær urðu vitni að töluverðri hávaðamengun þar þar sem tækin voru stillt óþarflega hátt að mínum dómi og það er einmitt það sem við erum að upplifa nánast á hverjum degi að tæki eru stillt mjög hátt. Bílar eru hafðir í gangi, mótorhjól þeysa með miklum drunum um götur og það eru ýmiss konar tæki sem menn eru mjög sólgnir í að eignast sem framkalla mikinn hávaða.

Þegar ég hlustaði á hv. síðasta ræðumann, hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur, fór ég einmitt að hugsa hvernig skyldi standa á þessu. Hvaðan er þessi ásókn í hávaða komin? Hvers vegna getur fólk ekki skemmt sér hvort sem það er á skemmtistöðum eða í heimahúsum án þess að þessi mikli hávaði fylgi? Hvað er eiginlega verið að skapa með þessum mikla hávaða?

Það var mjög mikið talað um þetta á árum áður þegar íslenskar popphljómsveitir voru upp á sitt besta og ber nú vel í veiði þegar einn af örfáum poppurum sem situr á þingi er kominn í salinn og væri fróðlegt að hann fræddi okkur um sína reynslu af miklum hávaða á danshúsum víða um land. (Gripið fram í.) Já, einn af okkar ástsælu poppurum. En það sem ég ætlaði að fara að segja þegar ég kom auga á þingmanninn var að það var mikil umræða um það á árum áður hve hljómsveitarmönnum væri mikil hætta búin og hætta við heyrnarskemmdum vegna þess að þeir voru í þessum gríðarlega hávaða meira og minna öll kvöld. Ég hef svo sem ekki séð neina úttekt á afleiðingum þess, þ.e. hvernig þetta fór með þá til lengri tíma litið. Ég hef ekki orðið vör við að þessi hv. þm. sé neitt sérstaklega heyrnardaufur en hann kannski kann sögur af því. Hann bregst ekkert við og fylgist ekkert með því sem hér er að gerast, en það er hans mál.

Ég vil taka undir efni þessarar tillögu og tel brýna þörf á því að kanna og gera úttekt á hljóðmengun. En það er nú svo skrýtið að það er ekki fyrr en fólk fer að reka sig illilega á sem athygli þess vaknar á þessum málum og það snertir alveg sérstaklega það sem hér kemur fram varðandi fólk sem býr í íbúðum þar sem mikil hljóðmengun er. Við höfum t.d. orðið vör við það og ég þekki dæmi þess að mjög góð íbúð við eina helstu umferðaræð hér í borginni hefur verið á söluskrá í mörg ár og þessar íbúðir eru gjörsamlega óseljanlegar af því að fólk vill ekki flytja í umhverfi þar sem þessi stöðugi dynur er þannig að þetta er orðið raunverulegt vandamál fyrir margt fólk og snertir hreinlega hagsmuni þess.

Þessi mikla hljóðmengun er mjög víða og ég held að við séum kannski ekki nógu vakandi fyrir henni því að hún dynur í eyrum alla daga. Við heyrum stöðugan nið frá umferðinni og hvar sem maður kemur er útvarp í gangi og einmitt þetta segir okkur að fólk fær ekki að njóta þagnarinnar. Ég held að margir þoli ekki orðið þögnina, eru svo óvanir henni að þeir þola hana ekki.

Það rifjaðist líka upp fyrir mér áðan leikritið Stundarfriður eftir Guðmund Steinsson þar sem m.a. var vakin athygli á heimilishávaðanum þar sem sjónvarps- og útvarpstæki eru stöðugt í gangi, síminn hringir, hurðum er skellt og menn æða fram og aftur og þetta er einhvern veginn allt hluti af þessum lífsstíl sem því miður einkennir mjög nútímalíf en margir eru einmitt farnir að snúa baki við og vilja halda inn á aðrar brautir. Það væri fróðlegt að fá það fram í rannsókn af því tagi sem hér er verið að leggja til hvort hljóðmengun er kannski jafnvel miklu meiri en við gerum okkur grein fyrir og þá ef svo er, hvernig má bregðast við.

Enn eitt atriði er auðvitað hljóðmengun á vinnustöðum sem er nú kannski svolítið annað mál en það sem flutningsmenn eru að beina sjónum að. Þeir eru að tala um hljóðmengun í umhverfinu sem snertir allan almenning. En hljóðmengun á vinnustöðum er annað atriði sem ég held að sé ekki fylgst nógu vel með og ég hef stundum undrast það þegar ég hef farið í vinnustaðaheimsóknir að sjá fólk sem er að vinna í vélasölum, í frystihúsum og víðar og sem er ekki með nein varnartæki á höfðinu, engar hlífar. Ég held að þetta sé þáttur sem líka þurfi að gefa gaum og kannski kveða fastar á um í lögum.

Ég var að nefna poppið sérstaklega og hv. þm. Magnús Stefánsson, sem hefur langa reynslu af dansmúsík og því að skemmta landsmönnum og að vera í þessum mikla og stöðuga hávaða, getur kannski frætt okkur um þetta. Ég var að velta því fyrir mér hvort menn hefðu einhverjar niðurstöður um skaðleg áhrif á hljómlistarmenn eða hvort það hafi verið mjög orðum aukið. Spurningin er hvort það hefur varanleg áhrif að vinna við þessar aðstæður um lengri tíma. (Gripið fram í: Hann virðist nokkuð óskaðaður.) Hann virðist nokkuð óskaðaður, já, en hann er kannski best dómbær á það sjálfur. Vissulega er það ein hliðin sem snýr að þessum málum að ekki skuli vera hægt að skemmta sér án þess að það sé þessi gríðarlegi hávaði. En kannski hafa þær hljómveitir sem hv. þm. spilaði í stillt hávaðanum í hóf.

Hæstv. forseti. Enn og aftur. Ég tek undir efni þessarar tillögu og vil gera mitt til þess að hún nái fram að ganga.