Staða drengja í grunnskólum

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 16:12:36 (3821)

1997-02-20 16:12:36# 121. lþ. 75.13 fundur 227. mál: #A staða drengja í grunnskólum# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[16:12]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þá halda áfram ræðu minni sem mér tókst ekki að ljúka áðan. Ég endaði á því að segja að ég teldi að þessi tillaga væri mikilvæg m.a. vegna þess að líklega má rekja orsakir þessara vandamála til stöðu foreldra í þjóðfélaginu og ekki síst þá stöðu feðra sem alls ekki hafa haft nógu góða aðstöðu eða alls ekki hafa sett það í forgang að sinna börnum sínum á undanförnum árum. Í staðinn hefur börnum þeirra verið komið fyrir hjá dagmæðrum, fóstrum og kennurum sem eins og flestir vita eru í mjög fáum tilfellum karlkyns. Þó að við gæfum okkur það að þær konur séu í flestum tilvikum úrvalsuppalendur þá er mjög líklegt að það verði til þess að drengirnir taki óraunverulegar hetjur úr sjónvarpi, úr tölvuleikjum og öðru sér til fyrirmyndar ef raunverulegir karlmenn eru engir merkingarbærir í þeirra lífi eins og fram kom fyrr í umræðunni. Ég er því sammála 1. flm. um að tillagan kalli á það að staða karlmanna sem feðra og uppeldisaðila verði endurskoðuð og þar vil ég nefna möguleika feðra til þess að taka fæðingarorlof og til þess að auka þátt þeirra í uppeldisstörfum. Og það sama á reyndar við um mæður. Það þarf líka að auka möguleika mæðra til þess að taka þátt í uppeldi barna sinna. En til þess að feður geti t.d. tekið fæðingarorlof verður það að vera ekki bara lagalega mögulegt heldur verða einnig að vera sömu laun fyrir kynin úti á vinnumarkaðinum eða sömu laun í fæðingarorlofi og í vinnu því að annars taka feður ekki fæðingarorlof.

[16:15]

En eins og ég sagði er alls ekki útilokað að vinnuálag á mæðrum komi þarna líka til því að rannsóknir sýna ótvírætt að útivinna mæðra hefur jákvæðari áhrif á stúlkur en drengi og ástæðan er sú hvatning og metnaður til starfs og annað sem útivinna mæðra sýnir stúlkunum af því að mæðurnar eru oft fyrirmyndir fyrir stúlkurnar að því leyti. En það þarf að sinna þeim tilfinningalega, stúlkunum og piltunum, og þó að drengirnir hafi ekki starfsfyrirmyndir frá mæðrum sínum þá geta mæðurnar sinnt þeim tilfinningalega. Ég tel því að það sé mjög mikilvægt að vinnuálag á foreldrum verði skaplegra í þessu þjóðfélagi heldur en það hefur verið og að þetta geti átt við bæði kynin.

Það kom fram í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur fyrr í umræðunni að stúlkur sýndu annað samskiptamynstur en drengir bæði með vinum sínum og einnig í leikjum. Þetta hefur einnig sýnt sig í athugun á hópum, t.d. í kynskiptum bekkjum að það er miklu frekar að í drengjahópum myndist tveir, þrír leiðtogar sem ráði umræðunni og þeir séu að keppa um völd, en í stúlknahópi sé orðið látið ganga og frekar séu allar jafnréttháar. Þetta kemur líka fram í stjórnunarstíl kynjanna í fyrirtækjum og þetta er ein af ástæðunum fyrir því að yfirleitt skipuleggja kvennahreyfingar sig lárétt en ekki lóðrétt. En þetta eru auðvitað allt saman menningarbundin fyrirbæri, menningarleg samskiptamynstur sem hafa myndast á mjög löngum tíma og það kemur í ljós að hægt er að kenna báðum kynjum þessi samskiptamynstur og t.d. getur stjórnunarstíll sem hentar körlum, að stýra beint ofan frá, í fæstum tilfellum hentað konum en hins vegar geta karlmenn lært það að vera demókratískir stjórnendur þannig að auðvitað er þetta spurning um að kenna báðum kynjunum æskileg samskiptamynstur og til þess þarf að fræða kennara og taka markvisst á.

Jafnrétti í uppeldismálum tengist því alveg greinilega jafnrétti úti í atvinnulífinu, samanber hið þekkta orðtak kvennahreyfingarinnar ,,persónulega er pólitískt``. Þessi tillaga sýnir það glöggt. Og ef þessi tillaga verður samþykkt, sem ég tel mjög mikilvægt, þá tel ég jafnframt líklegra að jafnréttisfræðsla eigi sér auðveldar uppdráttar innan skólans og að líkurnar aukist á því að allir einstaklingar í grunnskólum landsins fái kennslu við hæfi óháð kynferði.

Ég vil að lokum, herra forseti, koma inn á orð hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur áðan, annars vegar um það hvort það beri að athuga í hv. menntmn. að taka þessa tillögu og skoða hana með tilliti til þess að útvíkka hana yfir til beggja kynja. Ég held að það sé vel athugandi um leið og ég vil láta í ljós þá skoðun að ég er alveg sannfærð um að þessi tillaga hefði ekki hlotið jafnmikla athygli fjölmiðla og almennt hér í þinginu ef hún hefði verið jafnréttis-eitthvað eða ef athyglinni hefði verið beint að stúlkum. Ég held að það að drengir eru settir í forgrunn hafi orðið til þess að hún hefur vakið meiri athygli en ella.

Að lokum vil ég einnig taka undir orð hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur, vangaveltur hennar um það hvort kynímyndir stúlkna eru að fara í hefðbundnari farveg nú á tímum, samanber það sem kom fram í máli hennar um að í skólum sé verið að auglýsa eftir fyrirsætum innan grunnskólanna og að það þyki sjálfsagt á mjög ungum aldri að fara í fyrirsætuskóla eða vera fegurðardís og nú segja síðustu upplýsingar jafnvel að vændi sé fari að tíðkast á skemmtistöðum hér í Reykjavík sem vissulega þarf að athuga vandlega og uppræta ef satt reynist.

Kynhlutverkin hafa tekið miklum breytingum og gera það enn en oftast held ég að slíkt hafi verið til heilla, en þarf svo að vera? Eru ofbeldismenn og tildurrófur þær fyrirmyndir sem við teljum eðlilegastar fyrir börn okkar í dag?