Landgræðsla

Fimmtudaginn 20. febrúar 1997, kl. 16:48:45 (3827)

1997-02-20 16:48:45# 121. lþ. 75.12 fundur 190. mál: #A landgræðsla# (innfluttar plöntur) frv., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur

[16:48]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um landgræðslu, nr. 17/1965, með síðari breytingum. Mál þetta er flutt af mér og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og Kristínu Halldórsdóttur. Þetta þingmál var upprunalega flutt á 118. þingi og þá flutti það ásamt mér hv. þáv. þm. Kristín Einarsdóttir. Þá fór þetta mál til nefndar en varð eigi útrætt og það sama gerðist síðan á 120. löggjafarþingi þegar málið var endurflutt og þá af þeim hv. þm. sem nú flytja það. Um málið var fjallað í landbn. þingsins en umhvn. fékk það til umfjöllunar og umsagnar og er sú umsögn prentuð sem fskj. með frv.

Mál þetta snertir öðru fremur notkun innfluttra plantna í landgræðslu. Í gildandi löggjöf er ekki tekið á þeim þætti og því er hér um nýmæli í löggjöf að ræða. Markmiðið með frv. er að reynt verði að tryggja að notkun innfluttra plantna í þessu skyni falli að stefnu um gróðurvernd og að alþjóðlegum skuldbindingum um verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Eins og nú háttar má segja að hver og einn geti tekið sér sjálfdæmi um að breyta gróðurríkinu að eigin geðþótta, t.d. á afréttum landsins svo dæmi sé tekið.

Núverandi ásýnd gróðurlenda og jarðvegs er, eins og hv. þingmenn vita og er almennt viðurkennt, afleiðing búsetunnar í landinu. Gróður- og jarðvegsvernd og rannsóknir á því sviði þurfa að verða á meðal forgangsmála. Veruleg reynsla er fengin af starfi Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins á þessari öld sem og af starfi áhugamanna. Breyttir búskaparhættir og auknir möguleikar á stjórnun beitar og friðun stórra landsvæða fyrir beit skapar nýja möguleika sem hagnýta þarf skipulega til að endurheimta landgæði. Í því starfi þarf að beita bestu tiltækri þekkingu á vistkerfum landsins og auka við þá þekkingu með rannsóknum. Alþjóðleg reynsla getur einnig orðið að liði, en aðlaga þarf þá reynslu að aðstæðum hér á landi.

Mikið er nú fjallað um mál sem varðar flutning á lífverum milli landa og í ritum sem gefin eru út um umhverfismál má víða finna umfjöllun um þessi efni og í greinargerð er sérstaklega bent á nýlegt innlegg í þessa alþjóðlegu umræðu sem er að finna í árbók hins virta Worldwatch Institute 1996.

Gerðar hafa verið breytingar á frv. nú við endurflutning málsins frá því sem var á fyrri þingum og vil ég í því sambandi sérstaklega vekja athygli á ákvæðum 2. gr. frv. sem var breytt með tilliti til umsagna m.a. frá Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Breytingin felst í því að nú er mat á því hvort óhætt sé talið að taka innflutta tegund til notkunar í landgræðslu sett í hendur Rannsóknastofnunar landbúnaðarins að fenginni umsögn tiltekinna aðila sem eru nafngreindir í 2. gr. Með þessu er komið til móts við athugasemdir sem landbn. bárust á síðasta þingi og umhvn. fékk aðgang að, en af hálfu nokkurra umsagnaraðila og raunar einnig af hálfu umhvn., sem veitti umsögn um frv., var ekki talið rétt að einstakir aðilar og fleiri en einn hefðu neitunarvald í málinu. Og því er nú þannig um hnútana búið að sú stofnun sem á að halda á þessu og hafa matið með höndum er Rannsóknastofnun landbúnaðarins.

Annars er þess að geta að umhvn. tók jákvætt undir frv. eins og það lá fyrir á síðasta þingi og lýsti sig hlynnta því að settar yrðu reglur um notkun innfluttra plantna í landgræðslu og tók undir með flutningsmönnum um þetta efni. Ég vænti þess því að frv. fái nú brautargengi í þinginu þegar það kemur til hv. landbn., sem ég legg til að fái málið til meðferðar, og það fái afgreiðslu á yfirstandandi þingi.

Bent er á það í greinargerð með frv. að efni frv. má styðja með tilvísun í alþjóðasamninga eins og alþjóðasamninginn um líffræðilega fjölbreytni. Sérstaklega er vísað í 8. gr. þess samnings þar sem fjallað er um vernd upprunalegs umhverfis, þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

,,Hver samningsaðili skal eftir því sem hægt er og viðeigandi koma í veg fyrir að fluttar séu inn erlendar tegundir sem ógna vistkerfum, búsvæðum eða tegundum, að öðrum kosti stjórna þeim eða uppræta þær.``

Efni frv. er einnig stutt áliti starfshóps sem vann fyrir stjórnvöld um umhverfismál og landbúnað en þessi starfshópur, sem settur var niður að frumkvæði umhvrn. en undir formennsku embættismanns úr landbrn., skilaði áliti í maí 1994, skýrslu til umhvrh. um ástand, markmið og leiðir varðandi umhverfismál og landbúnað. Þarna áttu sæti 19 fulltrúar ýmissa stofnana og samtaka, formaðurinn var Sveinbjörn Eyjólfsson frá landbrn. Ég leyfi mér að vitna til þess sem þarna kemur fram. Efnislega var undir þetta álit tekið á umhverfisþingi sem umhvrn. boðaði til í nóvember sl., en ég vitna hér til álits starfshópsins, svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Innfluttum tegundum verði ekki dreift til notenda fyrr en lagt hefur verið mat á hugsanlegan skaða sem leitt gæti af dreifingu viðkomandi tegundar. ... Sett verði löggjöf um innflutning tegunda og um útrýmingu skaðlegra tegunda. Þar verði m.a. tekið tillit til skuldbindinga í rammasáttmála um verndun fjölbreytileika lífs og samþykkta Evrópuráðsins. Kveðið verði á um það hver beri ábyrgð á því að meta hugsanlegan skaða af innfluttum tegundum áður en dreifing þeirra hefst.``

Eins og menn sjá af þessu er þarna beinlínis lagt fyrir og gerð sú tillaga að sett verði löggjöf um þetta efni svipað og gert er í fyrirliggjandi máli.

Í greinargerð er vikið að alþjóðlegri reynslu og líka íslenskri reynslu á þessu sviði, af innflutningi plantna sem hafa gerst nokkuð fyrirferðarmiklar í gróðurríki landsins og eru dæmi um það að menn þurfi að gá að sér í þessum efnum. Í bráðabirgðaákvæði II með frv. er kveðið svo á, orðrétt, með leyfi forseta:

,,Landbúnaðarráðherra skal í samráði við umhverfisráðherra skipa nefnd til að endurskoða lög nr. 17/1965, um landgræðslu, með síðari breytingum, og leggja fram á Alþingi frumvarp til nýrra laga um gróður- og jarðvegsvernd og landgræðslu fyrir árslok 1997.``

Þetta ákvæði til bráðabirgða hefur verið þingmál frá fyrri stigum og það er leitt að hæstv. landbrh. og um leið umhvrh. skuli ekki vera viðstaddur --- en ég gerði út af fyrir sig ekki athugasemd við það að mæla fyrir málinu að honum fjarstöddum --- til þess að tjá sig um þetta efni: Hvað líður undirbúningi að heildarendurskoðun þeirrar löggjafar sem hér er lögð til breyting á?

Að því er ég best veit hefur staðið til um lengri tíma að hefja endurskoðun á þessum lagabálki sem að stofni til er orðinn gamall, búinn að vera lítt breyttur um 30 ára skeið og mörg ákvæði hans orðin mjög úrelt og þó að við flutningsmenn hefðum vel treyst okkur til þess að leggja til víðtækari breytingar á lögunum töldum við ekki rétt að ganga lengra en hér er gert með þessu nýmæli, en leyfum okkur í greinargerð á bls. 6 að setja fram ábendingar um mörg atriði sem rétt væri að kæmu og augljóslega þurfa að koma til athugunar við endurskoðun gildandi laga. Ég leyfi mér að stikla á þeim þáttum sem þar eru nefndir vegna þess að ég tel mikilvægt að þeir verði teknir til skoðunar og það fyrr en seinna, með leyfi forseta, það er tilvitnun í greinargerð, þetta eru atriði sem ætti að taka til endurskoðunar við upptöku laganna:

,,Skipan gróðurverndarmála og landgræðslu í stjórnkerfinu.

Tengsl við stofnanir er fjalla um skógrækt og skógvernd.

Innra skipulag í málaflokknum, m.a. tengsl við skyld málefni.

Menntunarkröfur til starfsmanna.

Tilhögun rannsókna- og þróunarstarfs og yfirstjórn þess.

Svæðisbundin tengsl í stað eða til viðbótar núverandi gróðurverndarnefndum.

Áætlanagerð og annar undirbúningur landgræðsluaðgerða, þar á meðal mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar landnotkunar.

Fjármögnun fyrir málaflokkinn, tengd framkvæmdaáætlun.

Samningar og tengsl við umráðaaðila yfir landi og sveitarfélög.

Skilyrði fyrir styrkjum til landgræðslu og meðferð lands í kjölfar aðhlynningar.

Beitarmálefni, þar með talin lausaganga sauðfjár og hrossa.

Tengsl við rannsóknaraðila.

Almennt eftirlit með jarðvegi og gróðri.

Áætlanir um rannsóknaþörf og fjármögnun rannsókna.

Tengsl og samstarf við frjáls félagasamtök.``

Tilvitnun í greinargerð lýkur um þessa þætti sem taka þyrfti inn í endurskoðun mála varðandi löggjöf um landgræðslu og gróðurvernd.

Ég vildi svo aðeins að endingu, virðulegur forseti, víkja að því að ég teldi æskilegt að þessi mál fengju aðra stöðu í stjórnkerfinu en nú er. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að þessi mál sem varða gróðurvernd í landinu ættu að vera hluti af umsýslusviði umhverfismála í landinu, ættu því að færast undir umhvrn., þó þannig að það sem varðar beina landgræðslu og landgræðsluaðgerðir og skógrækt sem hluta í búskap manna haldist undir viðkomandi fagráðuneyti, þ.e. landbrn. og ég tel tímabært að setja upp undir umhvrn. stofnun sem fari með málefni gróðurverndar og jarðvegsverndar í landinu og mætti heita Gróðurvernd ríkisins eða Gróður- og jarðvegsvernd ríkisins til samræmis við það sem upp er tekið og fyrir er og má í því sambandi benda á Hollustuvernd ríkisins og Náttúruvernd ríkisins. Ég vænti þess að þessar hugmyndir eigi stuðning, m.a. í þeim flokki sem fer með umhverfismálin nú um stundir, og ætti að vera auðveldara að koma slíkum breytingum við nú þegar sami aðili fer með landbúnaðarmálefni og umhverfismál og hæg væru heimatökin að því leyti þar sem ekki reyndi á togstreitu nema hið innra hjá viðkomandi hæstv. ráðherra. Mætti segja um það efni að fátt er svo með öllu illt að ekki fylgi nokkuð gott að þessi málefni skuli vera sett undir einn og sama ráðherra, en ég hef hins vegar ítrekað gagnrýnt þá ráðstöfun sem slíka og tel hana hina mestu óhæfu að ætla ráðherra umhverfismála að gegna öðru ráðuneyti og alveg sérstaklega ráðuneyti sem hlýtur að snerta augljósa hagsmunaárekstra í meðferð innan stjórnsýslunnar. Ég vona að það verði aldrei endurtekið. En þetta mætti nýta í þessu tilviki í sambandi við endurskipulagningu stjórnsýslu varðandi gróður- og jarðvegsverndarmálefni.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að þessu máli verði að umræðu lokinni vísað til hv. landbn. og vænti þess að hún sjái sér kleift að afgreiða málið með jákvæðum hætti að gerðum þeim breytingum sem fram koma nú við endurflutning þar sem tekið er tillit til þeirra helstu athugasemda sem fram hafa komið frá umsagnaraðilum við málið.

[17:00]