Skýrsla félagsmálaráðherra um afleiðingar langs vinnutíma

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 15:06:06 (3832)

1997-02-24 15:06:06# 121. lþ. 76.93 fundur 206#B skýrsla félagsmálaráðherra um afleiðingar langs vinnutíma# (aths. um störf þingsins), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[15:06]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Alþingi samþykkti þessa skýrslubeiðni á sínum tíma og það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda. Þegar farið var að athuga málið reyndist það umfangsmeira en menn höfðu kannski búist við í fyrstu. Það er nefnilega ekki til nein úttekt á vinnutíma landsmanna. Nokkrir aðilar hafa litið á þetta og þeim ber ekki saman og það er engin skýrsla til um þetta eða engar áreiðanlega upplýsingar til um það hver virkur vinnutími landsmanna er. Þetta hafa menn kannski ekki haft í huga þegar skýrslubeiðnin var samþykkt hér. Ég held reyndar að það sé ósiður sem við höfum tíðkað í þinginu að samþykkja skýrslubeiðnir jafnvel þó ómögulegt sé að koma skýrslu í almennilegt horf.

Það var leitast við að svara þessu í ráðuneytinu og þetta þingskjal liggur frammi. Það er nú reyndar upp á meira en fjórar síður því að því fylgir ítarlegt fylgiskjal sem ég tel að ætti að vera þingmönnum til gagnlegrar upplýsingar.

Síðan var farið að stíga skref til styttingar vinnutíma og tafirnar á því að skila skýrslunni voru fyrst og fremst þær að samningar stóðu yfir milli aðila vinnumarkaðarins um styttingu vinnutíman í stíl við tilskipun Evrópubandalagsins og ég vildi bíða eftir að þeir samningar lægju fyrir. Þeir liggja nú reyndar ekki fullkomlega fyrir enn þá. Þetta er skýringin á drættinum. Ég tel hins vegar, herra forseti, að ef í svona athugun ætti að fara þá þurfi til þess mikinn mannafla og sérstaka fjárveitingu.