Fjárveitingar til rannsóknarnefndar sjóslysa

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 15:44:35 (3845)

1997-02-24 15:44:35# 121. lþ. 76.95 fundur 202#B fjárveitingar til rannsóknarnefndar sjóslysa# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[15:44]

Guðmundur Hallvarðsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir að hafa tekið upp þetta mál hér. Vissulega er hin mikla slysatíðni meðal sjómanna alvarleg því sú staðreynd blasir við að 25% allra slysa sem tilkynnt eru Tryggingastofnun ríkisins eru slys á sjómönnum enda þótt þeir séu innan við 5% á vinnumarkaðinum. Sjö millj. kr. til rannsóknarnefndar sjóslysa er upphæð sem auðvitað þarf að endurskoða. Ég hefði viljað sjá ákvæði og rétt sjóslysanefndar til að vinna jafnt að málum eins og flugslysanefnd. Þá slys gerast geti sjóslysanefnd þegar og óháð fjármagni hafið sínar rannsóknir.

Árið 1984 varð slys rétt utan við Engey. Þar hvolfdi sanddæluskipi og það lá með fjögur lík innan borðs í nokkra sólarhringa. Það hafði enginn áhuga á því að ráðast í að rannsaka það mál. Það er alvarlegur hlutur þegar svo skeður. Reykvíkingar óku nánast fram hjá þessu skipsflaki vikum saman án þess að nokkuð væri gert. Þarna átti auðvitað að grípa strax til aðgerða. Það er sjálfsagt og eðlilegt að við setjum meira fjármagn í sjóslysanefndina vegna þess að það blasir svo mjög við þegar skýrslur sjóslysanefndar eru skoðaðar hve málin mörg hver eru alvarleg, að ekki sé talað um hve ýmsir aðilar eru tregir til að veita svör þegar leitað er eftir þeim.

Mér dettur í hug t.d. skýrsla sjóslysanefndar 1992. Þá var eitt skip á hafsbotni og það var ákveðið að setja niður myndavél til að rannsaka hvað þar hefði gerst. Í texta skýrslunnar segir, með leyfi forseta:

,,Þegar myndavélin komst niður á hafsbotninn kom í ljós flak af skipi en stjórnandi myndavélarinnar treysti sér ekki til að halda áfram verkinu.``

Mörg atriði, virðulegi forseti, sem lúta að sjóslysum sem full ástæða er til að taka miklu fastari tökum (Forseti hringir.) en gert hefur verið og ég vænti þess að þingnefnd taki nú á málinu og veiti meira fjármagn til sjóslysanefndar. Svo mikil þörf er á að fá frekari vitneskju um hvers vegna svo mörg slys verða meðal sjómanna.