Fjárveitingar til rannsóknarnefndar sjóslysa

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 15:50:29 (3847)

1997-02-24 15:50:29# 121. lþ. 76.95 fundur 202#B fjárveitingar til rannsóknarnefndar sjóslysa# (umræður utan dagskrár), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[15:50]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Það er eðlilegt að menn vilji ræða þetta mál í þingsölum. Ég tek undir þakkir til hv. þm. sem beitti sér fyrir umræðunni um þetta mál og málefnið rannsóknir sjóslysa.

Okkur er öllum annt um hag sjófarenda og sjómanna og aðstandenda þeirra. Það skiptir okkur miklu að dregið verði úr óvissu sem hlýtur að ríkja þegar sjóslys hefur orðið við aðstæður eins og í því tilviki sem hér hér var gert að umtalsefni snemma í umræðunni. Það er algjör nauðsyn að vissa megi koma í hennar stað svo hún þjaki ekki ungt fólk sem á eftir að lifa bestu ár ævinnar, þann tíma sem eftir er. Við hljótum að gera ráð fyrir því að aukin tækni og kunnátta geri okkur færari til að ganga betur en áður úr skugga um orsakir sjóslysa hvort heldur þær kunna að hafa verið aðstæður eða búnaður skipa eða hæfni og þekking áhafnar. Það segir sig sjálft og við þekkjum það úr öðrum efnum að það að nota miklu meiri tækni en áður kostar stundum meira fé. En einmitt tæknin hefur líka fært okkur heim betri lífskjör en áður. Við getum þess vegna lagt meira fram en áður til rannsókna á sjóslysum. Ég tek undir hvatningarorð til hæstv. samgrh. um að beita sér fyrir betri skilvirkni í þessum rannsóknum og leggja til þeirra eða fá lagða til þeirra meiri fjármuni en hingað til.