Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 17:35:47 (3869)

1997-02-24 17:35:47# 121. lþ. 76.15 fundur 266. mál: #A vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (veiðar jarðeiganda) frv., Flm. GMS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[17:35]

Flm. (Gunnlaugur M. Sigmundsson):

Herra forseti. Frv. það sem hér er mælt fyrir gengur út á að jarðeigendum og ábúendum sé heimilt að stunda veiðar á villtum dýrum á jörðum sínum án þess að þurfa að greiða skatt til ríkissjóðs í formi veiðikorts. Með lögum nr. 64/1994 var jarðeigendum gert að greiða ríkissjóði gjald fyrir að fá að nýta rétt sinn til veiði á eigin landi sem fylgt hefur landeigendum og ábúendum jarða um árhundruð. Mál þetta snýst í reynd um eignarréttinn en hann er friðhelgur samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Með lögum um vernd og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum var gjaldtaka fyrir veiðikort gerð að forsendu fyrir því að ábúendum sé heimilt að nýta það land til veiða sem fylgt hefur eignarrétti eða ábúð hingað til. Það er mat margra að með slíkri gjaldtöku sé höggvið nærri friðhelgi eignarréttarins, enda hefð fyrir því frá því að land byggðist, og reyndar allt frá búsetu okkar Íslendinga í Noregi löngu fyrir landnám Íslands, að ábúandi geti haft þau hlunnindi af jörðum sínum sem þar er að finna án þess að gjald komi fyrir í ríkissjóð. Jarðeiganda sem ekki getur fellt sig við að standa skil á slíku gjaldi fyrir að stunda veiðar sem hann hefur áður gert óhindrað er nú meinað með lögum að nytja eigið land. Með skyldu landeigenda til að greiða ríkissjóði gjald fyrir veiðileyfi er hið opinbera að seilast í eignarréttinn. Og þótt ég sé ekki nægilega lögfróður til að fullyrða að þessi ákvæði laga, nr. 64/1994, séu brot á eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar, er engu að síður ljóst að hið opinbera er með gjaldtökunni að seilast verulega langt inn í eignarréttinn. Hvort sem gjaldtakan brýtur í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar eða ekki ætti það að vera ljóst öllum þeim sem á annað borð vilja virða eignarréttinn að það er ekki sanngirni fólgin í því að taka gjald fyrir afnot jarðeigenda af þeim nytjum sem land hans gefur af sér með þeim hætti sem nú er gert, þ.e. að banna viðkomandi veiði að viðlagðri refsiábyrgð nema gjald sé greitt fyrir í ríkissjóð.

Dæmi eru um það frá frumstæðum ríkjum heims að reynt hafi verið að nota fjölda plantna á einkalandi sem gjaldstofn fyrir skattheimtu. Slík skattheimta þótt frumstæð sé stangast ekki á við eignarréttinn eins og veiðikortin gera. Búskmenn mæla einungis afgjaldsverðmæti landsins til skattheimtu þannig og ekkert samhengi er milli þess hvort eða hvernig landeigandi kýs að nýta landareign sína. Með lögunum um veiðikort er landeiganda hins vegar meinað að nýta sér landsins gagn nema gjald komi fyrir en segja má að þessi háttur jaðri við eignaupptöku eða fjárkúgun af hálfu ríkisvaldsins, vilji menn fara vægar í sakirnar en að tala um eignaupptöku.

Ljóst er að hvorugt er til fyrirmyndar í ríki sem telur sig halda lýðræðishefðir. Ísland mun reyndar ekki eina ríkið sem tekið hefur upp gjaldtöku fyrir veiðkort því sams konar lög er að finna í Noregi. Séu norsku lögin skoðuð grannt má ljóst vera að þau eru fyrirmynd villidýralaganna svonefndu. Þykir mér heldur aumt af íslensku ráðuneyti að semja frumvarp með því að þýða erlenda löggjöf eins og mér sýnist að gert hafi verið, að minnsta kosti verður ekki talin felast mikil hugmyndaauðgi í slíkri vinnu.

Ég hef orðið var við það í spjalli mínu við ýmsa hv. þm. að þótt þeir telji sig í eðli sínu vilja standa vörð um eignarréttinn þá velta þeir því fyrir sér hvort jarðeigendur muni skila inn veiðiskýrslum ef þeir þurfa ekki að gera það um leið og sótt er um veiðikort. Slíkt er í sjálfu sér afar léttvæg rök og í reynd fásinna að bera þau fyrir sig til réttlætingar því að seilast inn á friðhelgi eignarréttar einstaklingsins. Verði frv. þetta að lögum er þeim aðilum sem undanþegnir verða greiðslum fyrir veiðikort samt sem áður gert að skila veiðistjóra skýrslu um veiðar hvers árs. Veiðistjóri missir að vísu þann rétt að neita landeiganda eða ábúanda að stunda veiðar skili viðkomandi ekki veiðiskýrslu. Engu að síður hvílir áfram sú lagaskylda á þessum aðilum að skila árlega veiðiskýrslu þótt framkvæmdin verði önnur en verið hefur.

Hvað sem framkvæmdinni líður ætti alþingismönnum öðrum fremur að vera ljóst að vandamál í framkvæmd löggjafar mega ekki verða til þess að friðhelgi eignarréttarins sé skert. Reyndar tel ég ástæðulaust að hafa áhyggjur af þessu atriði því það vita allir sem vilja vita að þeir veiðimenn eru fáir sem fylla út skýrslur um veiði eftir hverja veiðiferð. Í langflestum tilvikum hygg ég að menn setjist niður þegar sækja á um nýtt veiðikort og skrifi, eftir besta minni að sjálfsögðu, það sem skráð er í veiðiskýrsluna um veiði liðins árs. Ekki lái ég veiðimönnum þetta. Það er miklu þægilegra að búa skýrsluna þannig til einu sinni á ári. Ég held að skotveiðimenn séu ekkert frábrugðnir laxveiðimönnum í frásagnargleði. Með öðrum orðum er ég að segja að þær veiðiskýrslur sem menn eru að senda til veiðistjóraembættisins séu í ætt við ævintýri Münchhausens. Ég vona að ég sé ekki að koma veiðimönnum í bobba með þessum uppljóstrunum eða að orð mín verði til að sama ,,hysterian`` grípi um sig í Stjórnarráðinu og gerðist með ökurita á dísilbíla á síðasta ári, þegar brýn nauðsyn var talin til að gera ökumönnum að færa allan akstur í bækur sínar daglega og kvitta fyrir áður en þeir færu með bænir að kvöldi.

Herra forseti. Það kemur nokkuð á óvart þegar skoðaðar eru þær umræður sem fram fóru um villidýrafrv. þegar það var til umræðu í þinginu að mér virðist sem einungis tveir hv. þm., þeir hv. þm. Árni M. Mathiesen og Steingrímur J. Sigfússon, hafi vikið orðum að því að ákvæðin um veiðikort kynnu að skarast við hefðbundinn rétt landeigenda til að stunda veiðar. Hefði ég þó haldið að a.m.k. í Framsfl. og í hluta Sjálfstfl. fyndust enn fyrir þingmenn sem vildu standa vörð um eignarréttinn og stemma stigu við eilífri afskiptasemi og ásælni ríkisvaldsins. Mér detta reyndar í hug nöfn nokkurra þingmanna Sjálfstfl. sem ég geri mér vonir um að styðji þetta frv. í ljósi þess að þeir vilji standa vörð um eignarréttinn en auðvitað verðum við að bíða endanlegrar afgreiðslu málsins til að sjá hversu margir eignarréttarmennirnir eru á þessu þingi.

Í framsögu fyrir meirihlutaáliti umhvn. við afgreiðslu villidýrafrv. í þinginu á sínum tíma kemur fram að nefndin taldi ástæðu til að taka tillit til, eins og segir, hefðbundinnar nýtingar hlunninda. Er vitnað til þess að vitað sé að Grímseyingar veiði álku, langnefju og stuttnefju í háf en um það segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Ekki er lagt til að hróflað verði við slíkri hefðbundinni nýtingu.``

Af þessu orðalagi má ljóst vera að vilji hefur verið fyrir því í nefndinni að virða fornar hefðir þó svo að nefndarmenn virðist ekki hafa munað eftir því að hefðbundin nýting veiðihlunninda er á margfalt fleiri sviðum en hvað varðar veiðar á álku norður í landi. Að vísu kemur einnig fram í nál. meiri hlutans að nokkur umræða hafi orðið í nefndinni um stöðu landeigenda með tilliti til veiðikorta og taldi meiri hlutinn nauðsynlegt að lögleiddar yrðu sérstakar reglur um hlunnindabændur. Niðurstaða nefndarinnar varð engu að síður sú að öllum bæri að greiða sama gjald.

Ég geri mér grein fyrir því að erfitt getur verið fyrir þá sem aldir eru upp við sömu aðstæður og stofublóm að skilja það samband sem myndast milli landeigenda og þeirrar náttúru sem landareignin býður upp á. Til að útskýra betur þetta samband veiðimanns og náttúru vil ég leyfa mér að vitna til orða hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem hann lét falla við umræðuna um frv. á villidýralögunum sem ég kýs að kalla svo. Þingmaðurinn orðaði þetta svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þar gætir sennilega uppeldis ræðumanns í einhverjum mæli því ég er nú einu sinni fæddur nánast og uppalinn við það að vera síveiðandi og skjótandi svo lengi sem ég man eiginlega eftir mér í mínum uppvexti, [og slíkt] tilheyrir enn því umhverfi sem ég er upp úr sprottinn. Það er náttúrlega erfitt að breyta þeim hugsunarhætti og innræti sem manni er þannig kennt, því lengi býr að fyrstu gerð.``

Í sjálfu sér þarf ekki fleiri orð til að lýsa þessu sérstæða sambandi manns og náttúru sem þeir alast upp við sem lifa af landsins gæðum. Ég ítreka þó það sem kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að veiðilíf tilheyrir enn því umhverfi sem er til sveita, umhverfi sem við getum fundið strax hér rétt utan við höfuðborgina ef menn hafa skilningarvit sín opin fyrir því hvernig þeir lifa sem ekki sækja allar sínar bjargir í Hagkaup og Bónus.

Mannskepnan er því miður vaxin svo langt frá uppruna sínum að skilningur á lífkeðjunni er ekki lengur fyrir hendi, að ekki sé minnst á þann skort á samhengi hlutanna sem felst í því þegar atvinnumótmælendur virkja hjörð sakleysingja til að mótmæla notkun leðurs í yfirhafnir en ganga sjálfir í leðurskóm.

[17:45]

Stundum er sagt að ekki þýði að deila við dómarann en ég get ekki látið hjá líða í þessu sambandi, herra forseti, að gagnrýna úr þessum ræðustól sakfellisdóm sem kveðinn var nýlega upp yfir hjónum norður í landi fyrir eyðingu á ref. Hvers konar vangaveltur brjótast um í kollinum á dómara, manni sem gengið hefur í gegnum langskólanám, þegar hann sakfellir mann fyrir refadráp af því að hann notaði náttúrlegri aðferðir við drápið en skotvopn sem sama ríkisvald og greiðir dómaranum laun greiðir milljónir fyrir á hverju ári að notuð séu til eyðingar á ref? Að ekki sé nú minnst á það að eiginkona mannsins var dæmd sem vitorðsmaður þar sem skóreim sem notuð var við verknaðinn kom úr hennar skó.

Það er e.t.v. ekki nema von að hugsun, eins og í villidýralögunum svonefndu, verði til í höndunum á þeirri hjörð langskólagenginna manna sem slitnað hefur úr öllu sambandi við náttúru þessa lands. Því miður fer sá hópur háskólamanna vaxandi sem ekki hefur á lífsleiðinni tekið þátt í að skapa verðmæti en lifir þess í stað í þeirri glámsýn að Lánasjóður ísl. námsmanna og síðan ríkisvaldið eigi að sjá þeim farborða. Ég veit að í hópi þingmanna finnast enn náttúrubörn sem skilja og hafa upplifað náttúru landsins. Ég treysti á stuðning þeirra hv. þm. við þetta mál ekki síður en þeirra sem ég veit að munu styðja það út á þá trú sína að standa beri vörð um eignarréttinn og það jafnt þó bændur eigi í hlut.

Herra forseti. Til að sýna hversu rétturinn til óhindraðra veiða í náttúru landsins hefur verið samofinn í íslensku samfélagi frá örófi alda ætla ég, með leyfi forseta, að vitna til nokkurra lagaákvæða til að sýna fram á á hvern hátt löggjafinn hefur í aldanna rás tvinnað saman friðhelgi eignarréttarins og réttinn til að stunda veiðar. Ég ætla ekki að fara út í ákvæði Jónsbókar eða Grágásar, en lagaákvæði úr þessum lagabálkum eru víða enn í gildi að töluverðu leyti. Ég ætla að byrja á því, með leyfi forseta, að fara aðeins yfir veiðitilskipunina frá 1849 sem er miklu leyti enn í gildi og hana er að finna í íslenska lagasafninu. Í 1. gr. segir:

,,Á Íslandi skulu héðan í frá jarðeigendur einir eiga dýraveiði nema öðruvísi sé ákveðið í tilskipun þessari. Svo skulu og veiðiítök þau, er menn hafa fengið að lögum fyrir utan landareign sína, standa óröskuð að öllu.``

Í 2. gr. segir: ,,Á afréttum, sem fleiri eiga saman, ber veiði þeim mönnum, sem afrétt heyrir til. Á almenningum er veiði öllum mönnum jafnheimil.``

Í 4. gr. segir: ,,Enginn jarðeigandi má skilja að veiðiréttinn og lóðina.`` Ég held, herra forseti, að nauðsynlegt sé að endurtaka þetta: ,,Enginn jarðeigandi má skilja að veiðiréttinn og lóðina; því fylgir veiðirétturinn jörðum, þá er þær eru byggðar, sem notkunarréttur, er ekki verður frá lóðinni skilinn. En ábúandi má ekki heldur ljá neinum veiði þá að staðaldri án leyfis jarðeiganda, sem skal eiga kost á að ákveða allt nákvæmar í leigumálanum um veiði þá, er leiguliði fær með ábúðinni, eftir því sem þeim semur um.``

Í 5. gr. segir: ,,Nú drepur maður dýr, eða veiðir með einhverjum hætti í annars manns landi, þar sem hann á ekki veiði, þá veiðir hann þeim, er þar á veiði, og skal hann hafa skaða sinn að öllu bættan, eftir því sem skynsamir menn meta og óvilhallir. Sá skal skaða bæta, er skaða gerði, og sektast hann þar á ofan um hálfa ríkisbankadal eða meir, allt að 10 ríkisbankadölum, eftir því sem á stendur, ...``

Í 20. gr. veiðitilskipunarinnar frá 1849 segir: ,,Ef maður veiðir heimildarlaust, og verður það uppvíst, þá er málið er rannsakað, að hann hafi framið nokkurn þann misverka um leið, er stórglæpasök fylgir, skal til taka veiðisektina í dómsatkvæði því, er gert er um stórglæpasökina.``

Herra forseti. Mér sýnist ljóst á þessari veiðitilskipun að á Íslandi hefur löngum verið litið svo á að veiði og rétturinn til veiði verði ekki frá bændum og landeigendum tekinn. Þeirra sé rétturinn til að stunda veiði og það hafi verið litið mjög alvarlegum augum ef menn reyni að seilast inn í þann rétt.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, aðeins að rifja upp 72. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.``

Ef við reynum aðeins að skoða, herra forseti, hugtakið almennt um eignarrétt og hvernig hefur verið litið á land með tilliti til eignarréttar, þá er um það að segja að hugtakið fasteign kemur víða fyrir í lögum þó að ekki sé að finna neina almenna skilgreiningu á því hugtaki. En ýmsir fræðimenn hafa reynt að skilgreina það og yfirleitt á svipaðan hátt eins og kemur fram í skilgreiningu Gauks Jörundssonar í riti sem hann ritar um eignarréttinn. Í því riti segir, með leyfi herra forseta að ,,hún [þ.e. fasteignin] sé afmarkað land ásamt eðlilegum hlutum landsins, lífrænum og ólífrænum og þeim mannvirkjum sem varanlega er við landið skeytt.``

Um eignarréttindi segir: ,,Sameiginlegri eign og sérkennum eignarréttinda hefur verið lýst svo að aðilaskipti geti orðið að þeim og þau verði metin til fjár á peningalegan mælikvarða.`` Ég efast ekki um, herra forseti, að hægt sé að meta veiðirétt til fjár.

Það er vitað að áður fyrr skilgreindu fræðimenn í lögfræði beinan eignarrétt með svokölluðum jákvæðum hætti, þ.e. að þeir töldu að telja þyrfti upp þær heimildir sem um væri að ræða. Yngri fræðimenn í greininni hafa aftur á móti skilgreint eignarréttinn með svokölluðum neikvæðum hætti þannig að í honum felist réttur til hvers konar umráða og athafna yfir hlut, þ.e. menn verða að sanna að þeir geti sett takmarkanir á þennan eignarrétt til þess að honum verði raskað. Þetta er sem sagt það sem yngri menn í greininni álíta að túlkunin sé.

Því hefur verið haldið fram hins vegar að þessi neikvæða skilgreining, þ.e. að aðrir þurfi að sanna það, ef þeir ætla að sælast á eignarréttinn, að þeir hafi rétt til þess, að hún falli betur að meginreglum íslenskrar löggjafar og lagahefðar en hin jákvæða túlkun sem notuð var af fræðimönnum áður fyrr.

Sem dæmi um neikvæða skilgreiningu má nefna skilgreiningu Gauks Jörundssonar í því sama riti sem ég nefndi, áðan þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt því má skilgreina eignarrétt á þá leið að hann sé einkaréttur ákveðins aðila, eigandans, til að ráða yfir tilteknum líkamlegum hlut innan þeirra marka sem þessum rétti eru sett í lögum og af takmörkuðum réttindum annarra aðila sem stofnað hefur verið til yfir hlutnum.``

Gaukur Jörundsson segir einnig í þessu riti sínu að tíðkast hafi að einstakar heimildir eða þættir eignarréttar séu talin sérstök réttindi og hann nefnir í því sambandi vatnsréttindi, námuréttindi, réttindi til reka og veiðiréttindi --- að veiðiréttindi séu talin sérstök réttindi innan eignarréttarins. Séu slík réttindi skilin frá eignarrétti eiganda og fengin öðrum er um ítak að ræða og þar með óbein eignarréttindi.

Í dómi Hæstaréttar frá árinu 1994 segir á bls. 2227 --- þar er fjallað um mál sem snýst um hvort jörðin Geitland væri fullkomið eignarland eða ekki. Málið snerist um refsimál sem höfðað var gegn tveimur mönnum vegna meintra ólöglegra fuglaveiða á landsvæði því sem nefnt er Geitland í Borgarfirði. Í héraðsdómi voru mennirnir fundnir sekir um ólöglegar fuglaveiðar og var sú niðurstaða byggð á því að Geitland væri fullkomið eignarland og þess vegna voru mennirnir dæmdir sekir um ólöglegar fuglaveiðar. Hæstiréttur komst reyndar að annarri niðurstöðu. Hann sýknaði þessa tvo menn af ákæru um ólöglegar fuglaveiðar, en af hverju? Af því að Hæstiréttur taldi vafa leika á því hvernig eignarrétti hreppanna á hinu umdeilda landi væri háttað, með öðrum orðum, málið snerist þar ekki um fuglaveiðarnar sem slíkar heldur að ekki væri sannað að um eignarrétt væri að ræða, en í dómi héraðsdóms fór þar saman eignarrétturinn og fuglaveiðarnar. Þessi dómur þykir mér sýna svo ekki verði um villst, herra forseti, að veiðar á jörðum og einkalandi er réttur sem þeir eiga sem eiga þessi lönd og við þurfum að fara afar varlega í að ganga inn á þann rétt og skerða hann.

Herra forseti. Íslensk löggjöf sýnir glögglega hve mikla áherslu íslenskt þjóðfélag hefur í aldanna rás lagt á rétt landeigenda til að stunda veiðar á eigin landi. Frv. þetta miðar að því að tryggja rétt landeigenda og ábúenda til að nytja sitt land með sama hætti og þeir hafa gert frá því að land byggðist eða áar þeirra uns það lagaslys, sem ég kýs að kalla svo, átti sér stað á árinu 1994 sem hér er verið að gera tilraun til að vinda ofan af.

Mál þetta varðar fyrst og fremst bændur landsins og því leyfi ég mér, herra forseti, að óska eftir því að mál þetta gangi til landbn. til frekari skoðunar og umfjöllunar þó svo lagabálkurinn í heild sinni hafi á sínum tíma gengið til umhvn.