Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 18:00:36 (3927)

1997-02-25 18:00:36# 121. lþ. 77.8 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[18:00]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Það kom í ljós að eftir að frv. var lagt fram sáu sum sveitarfélögin eftir vinnumiðlununum sínum, t.d. Reykjavíkurborg. Sum þeirra ráku ágætar vinnumiðlanir með árangri. Ég taldi ekkert á móti því og reyndar taldi að það væru í frv. heimildir og möguleiki til þess að semja við sveitarfélögin um að gerast verktakar. Fram komu efasemdir um það og þar af leiðandi gerði ég tillögu um það, þannig að það væri alveg skýrt, að unnt væri að semja við sveitarfélögin sem verktaka að taka þetta verkefni að sér og reyndar aðra. Það er hugsanlegt að einhverjir aðrir hafi hug á því að setja upp vinnumiðlanir, t.d. verkalýðsfélög og ég tel að þetta sé til bóta. Ríkið kemur til með að greiða þessa starfsemi. Það verður ekki greitt fyrir hana nema eitthvert sanngjarnt verð. Það verður ekki farið að sæta neinum afarkostum af hendi sveitarfélaga eða stéttarfélaga. Ég tel að það sé heppilegra fyrirkomulag að gefa sveitarfélögum, þar sem fólk er reynt að góðu, færi á því að standa fyrir vinnumiðlunum.