Stephansstofa

Þriðjudaginn 25. febrúar 1997, kl. 19:46:41 (3942)

1997-02-25 19:46:41# 121. lþ. 77.12 fundur 354. mál: #A Stephansstofa# þál., Flm. MÁ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur

[19:46]

Flm. (Mörður Árnason):

Forseti. Ég þakka þær umræður sem farið hafa fram um málið. Ég tek eftir að í þeim taka þátt bæði stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar sem hér hafa einmitt verið að deila nokkuð hart í dag, tveir af þeim a.m.k., um heimamál. Þetta vekur mér þær vonir að þetta mál fái kannski framgang á þinginu.

Ég held að stofa af þessu tagi sé einmitt dæmi um stofnun sem ekki þarf að vera í Reykjavík. Hér er ekki um það að ræða að menn þurfi mikið að vera að hlaupa í næstu hús, heldur eru samskiptin einmitt slík að þau eiga að fara fram með nýrri og gamalli samskiptatækni sem alltaf er að eflast, því samskiptin eru ekki síst hugsuð við stofnanir sem eru hér en hægt er að tala við án þess að þurfi að gera það augliti til auglitis og ekki síður við einstaklinga, félagasamtök og hópa í fjörrum löndum. Ég vil þakka fyrir það að tveir ræðumenn hafa minnst á aðra hópa Íslendinga en Vestur-Íslendinga og þar nefnt sérstaklega hina seinni Vestur-Íslendinga, íslenskar konur upp úr stríðsárunum, sem er nú annar kafli í þjóðarsögunni, kafli sem við höfum stundum viljað gleyma. En af þeim eru sprottnar, og raunar öðrum Íslendingum sem þangað fluttust eftir stríð, töluverður ættleggur sem okkur er ekki allt of kunnugt um eins og hér var reyndar nefnt líka.

Í því skráningarverkefni sem farið er af stað, undir nokkuð vanmáttugri stjórn nefndar þeirrar sem ég minntist á að utanrrn. hefði á sínum vegum, er reynt að leita til þessa hóps m.a. og annarra þeirra sem hafa flutt vestur og reynt að hafa hann með. Þá er sagt sem svo: Við ætlum ekki að stilla fólki hér upp, það erum ekki við sem ætlum að dæma um það hver er Íslendingur og hver ekki, það eru þeir vestra sem eiga að dæma um það. Ef þú vilt vera Íslendingur, þá gjörðu svo vel, þá skalt þú vera það og koma og vinna með okkur. Athygli mína vakti líka sú frásögn að í öðrum löndum væru ráðuneyti höfð til þess arna. Það á kannski einkum við um hin stærri og smærri nýlenduveldi í Evrópu. Hér er nú ekki verið að leggja til nema eina skrifstofu sem ég hygg að þurfi ekki að vera mjög stór, einkum vegna þess að hún gæti unnið í samráði við einkaaðila og félagasamtök þannig að það er ekki hætta á að þetta þenji sig út. Þó held ég að nokkrum fjármunum sé að minnsta kosti í upphafi verjandi til þess arna. Eins og vakin hefur verið athygli á hér gætu þeir fjármunir skilað sér ekki eingöngu í betri líðan og aukinni menningu okkar og þar með framsókn, heldur höfum við einnig af þessu beina viðskiptalega hagsmuni sem m.a. snúa að ferðamálum fólks hingað og okkar þangað.

Um nefndina verð ég að segja eins og áður að ég mun sætta mig við að bestu manna yfirsýn ráði í því máli. En ég lagði það ekki til sem mér fannst kannski allra augljósast að málið færi annaðhvort til allshn. eða menntmn. vegna þess að ég tel málið af nokkuð sérstöku tagi og held mig við að samgn. sem svona almenn samskiptanefnd eigi að fá málið. Það kynni kannski líka að gleðja hana í sínum venjulegu jarðlegu vekefnum að fá mál sem hún gæti lyft augum aðeins lengra fram á veginn heldur en að næstu brú eða næsta malbikaða metra. En það ætla ég ekki að gera að stórmáli frekar en önnur smærri atriði í þessu efni en þakka fyrir umræður.