Öryggi ferðamanna á Skeiðarársandi

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 13:57:55 (3955)

1997-02-26 13:57:55# 121. lþ. 78.2 fundur 279. mál: #A öryggi ferðamanna á Skeiðarársandi# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[13:57]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Ég hafði vænst ítarlegri leiðsagnar af hálfu Almannavarna ríkisins en þeirrar sem samþykkt hafði verið 23. jan. sl. og ég tel afar þýðingarmikið að það verði sem skýrast hverra er ábyrgðin. Ég veit ekki hvort ég heyrði rétt um hlut Vegagerðarinnar í þessu sambandi. Sjálfsagt getur hún verið gildur aðili að þessu, en ég held að það hljóti að koma til álita að það séu heimildir til þess að loka einhverjum svæðum vegna hættu. Þá hef ég ekki síst í huga svæðin vestanvert við Skeiðará eða hlaupsvæði Skeiðarár sjálfrar og Sæluhúsakvíslina þar sem vatn dreifðist yfir svæði og það er ekki skýrt afmarkað af farvegum eða slíku, t.d. við Gígju. Ég tel því að þarna þurfi menn að vera mjög vel á verði. Ég legg áherslu á að það sé greitt fyrir því að ferðafólk geti notið þess sem þarna er að sjá. Leiðsögn, t.d. með stikuðum leiðum á valda staði, getur auðveldað og flýtt fyrir fólki að fá notið þess sem fyrir augu ber, sem er stórbrotið, og jafnframt án þess að stofna lífi og limum í hættu.

Ég vek athygli á merkum greinum sem Páll Imsland jarðfræðingur kom á framfæri í Morgunblaðinu nýverið þar sem dregnar eru fram þessar margvíslegu hættur sem geta verið býsna duldar. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson vitnaði til fyrri tíðar. Ég hygg að það hafi verið helsta dæmið sem var leitt fram um mann, hestríðandi, sem reið ofan í sandpytt eftir ísjaka. Ég held að það hafi verið í kjölfar stórhlaupsins 1861 og sá hafi heitið Vigfús, en þetta er sagt eftir minni, þannig að vissulega eru dæmi um þetta. Þetta var maður sem átti að þekkja til aðstæðna og hvað þá um fólk sem kemur úr fjarlægum löndum til þess að njóta þeirra ummerkja sem þarna er að sjá.

Því hvet ég til þess að þarna verði sem skýrust leiðsögn og skýrust ábyrgð og þetta verði athugað áframhaldandi. Hættan er þegar fyrir hendi. Það er fólksstraumur inn á svæðið.