Aðbúnaður Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 26. febrúar 1997, kl. 14:21:20 (3964)

1997-02-26 14:21:20# 121. lþ. 78.5 fundur 368. mál: #A aðbúnaður Ríkissjónvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur

[14:21]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Um fyrri hluta fyrirspurnarinnar vil ég segja að fyrir um það bil ári starfaði nefnd á mínum vegum og gerði úttekt á húsnæðismálum sjónvarpsins og flutningi á starfsemi þess í útvarpshúsið við Efstaleiti. Lagði ég skýrslu nefndarinnar fyrir ríkisstjórn eftir að hún barst mér. Hef ég ekki enn beitt mér frekar í þessu máli, enda tel ég önnur viðfangsefni brýnni þegar litið er til hagsmuna Ríkisútvarpsins. Tækja- og húsakostur stendur ekki í vegi fyrir því að sjónvarpið sinni menningarhlutverki sínu eða innlendri dagskrárgerð. Því til staðfestingar nægir að vitna til nýlegrar bókunar í útvarpsráði þegar fjárhagsáætlun 1997 var afgreidd, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Útvarpsráð fagnar því að starfsmönnum hefur tekist að ná jafnvægi í rekstri Ríkisútvarpsins og að nánast allir þættir rekstursins á árinu 1996 eru innan fjárhagsramma. Útvarpsráð fagnar því einnig að í fjárhagsáætlun ársins 1997 hefur tekist að ráðstafa mun meira fjármagni til innlendrar dagskrárgerðar en áður og á það bæði við um framlag til innlendrar dagskrárdeildar, svo og til fréttastofu sjónvarpsins. Þeim auknu fjárframlögum verður m.a. varið til barnafrétta. Er fjárhagsáætlun ársins 1997 í anda þeirrar sannfæringar útvarpsráðs að Ríkisútvarpið ræki best skyldur sínar með vandaðri innlendri dagskrárgerð.``

Á árinu 1997 hækka fjárframlög til fréttastofu sjónvarps um 9,81% eða úr tæplega 165 millj. kr. í 181 millj. og til innlendrar dagskrárgerðar hækka framlögin um 26,48%, þ.e. úr 198 millj. kr. í 250 millj. kr. eða um 52 millj. kr.