Staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 13:37:41 (4034)

1997-02-27 13:37:41# 121. lþ. 81.95 fundur 215#B staða eldri borgara í skatt- og almannatryggingakerfinu# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[13:37]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Svokölluð jaðarskattanefnd starfar á grundvelli stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar en þar segir að tekið skuli upp samstarf við aðila vinnumarkaðarins um tiltekna endurskoðun á skattkerfinu. Ástæðan fyrir því að leitað var samstarfs sérstaklega við aðila vinnumarkaðarins er sú að skattkerfið hefur mikil áhrif á tekjuskiptinguna og þar með á framboð og eftirspurn eftir vinnuafli. Ekki síst á þetta við þegar haldið er fram að jaðaráhrif tekjuskattskerfisins letji menn til vinnu vegna stighækkandi skatts eða missis tekjutengdra bóta.

Lífeyrir almannatryggingakerfisins var hækkaður um 2% í takt við verðlagshækkanir um sl. áramót þótt engar launahækkanir ættu sér þá stað á vinnumarkaði. Eins og margoft hefur komið fram verður lífeyririnn endurskoðaður þegar kjarasamningar liggja fyrir. Í lögum um bætur almannatrygginga segir að þær skuli breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Til hliðsjónar við ákvörðun bóta skal hafa þróun launa, verðlags og efnahagsmála. Heimilt er að breyta bótafjárhæðinni um allt að 3% ef verulegar breytingar verða á þjóðhagsforsendum.

Eins og menn vita byggja forsendur fjárlaga á að almennar launabreytingar verði 3,5% og almennt verðlag hækki um 2% milli ára. Nauðsynlegt er að endurskoða lagaákvæðin um viðmiðun bótanna fyrir árslok vegna þess að það er tímabundið.

Mín skoðun er að við breytingar á lífeyri sé eðlilegast að hafa hliðsjón af almennum verðlagsbreytingum þannig að þær verði óháðar kaupmáttarsveiflum, enda er um lágmarkstryggingar að ræða. Sífellt fleiri ríki miða framfærslu við kostnaðarbreytingar frekar en launabreytingar og greiðslur úr lífeyrissjóðum fylgja lánskjaravísitölu eða vísitölu neysluverðs.

Á vegum heilbrrh. er starfandi nefnd sem hefur það hlutverk að endurskoða lög um almannatryggingar. Nefndinni var sett það markmið að einfalda bótakerfi almannatrygginga ásamt því að nýta betur fjármagn til þeirra sem mest þurfa á því að halda. Reglur um samhengi lífeyris og annarra tekna og jaðaráhrif þeirra hafa verið til umræðu innan nefndarinnar ásamt einföldun kerfisins. Auk fulltrúa ráðuneyta, stjórnmálaflokka og aðila vinnumarkaðar eiga Landssamtök aldraðra, Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp aðild að nefndinni. Ljóst er að gera verður viðamikla útreikninga á þeim leiðum sem koma til greina þegar einfalda á kerfið. Breytingar kosta mismunandi mikið og hafa mismunandi áhrif á þá einstaklinga sem eru að fá lífeyri í núverandi kerfi. Hefur nokkuð tafið úrvinnslu að frekari upplýsingar þarf til að meta áhrif breytinganna.

Mín skoðun er sú að óhjákvæmilegt sé að gera breytingar á tekjutengingu lífeyris, tekjutrygginga og tengdra bóta sem allra fyrst og reynt verði að samræma skerðingarnar. Kerfið í dag er flókið og jaðaráhrifin geta orðið mun meiri en í skattkerfinu. Sérstaklega þarf að beina athyglinni að þeim tilvikum sem geta komið upp í samspili ýmissa bótaflokka og valdið miklum sveiflum á tekjum lífeyrisþega. Ekki eru uppi hugmyndir um að fulltrúar aldraðra taki sæti í jaðarskattanefndinni. Fulltrúar Landssambands aldraðra, Félags eldri borgara og aðgerðahóps aldraðra hafa hins vegar komið sjónarmiðum sínum að við fjmrh. og heilbrrh. og einstaka nefndarmenn. Formaður jaðarskattanefndar hefur bent á að skoða þurfi samspil skattkerfis og tryggingakerfis.

Þegar rætt er um lífeyrisgreiðslur almannatryggingakerfisins þarf að líta til lengri tíma og taka ákvarðanir með tilliti til þess. Meðalaldur Íslendinga er lágur. Gera má ráð fyrir að breytt aldurssamsetning leiði til þess að á bak við hvern aldraðan verði aðeins þrír Íslendingar á vinnualdri, þ.e. 20--67 ára, árið 2030 en nú eru þeir sex til sjö. Þetta er gífurleg breyting. Vandamál þau sem aðrar þjóðir eru nú að kljást við af þessum sökum, munu því koma yfir okkur ef ekki er brugðist rétt við. Þessu til viðbótar má benda á að Hagfræðistofnun telur að útgjöld til heilbrigðismála muni vaxa um 50--65% á mann á sama tíma. Til hvaða ráða á að grípa?

Flestir eru sammála um þrennt: Í fyrsta lagi verður að reka ríkissjóð án halla og koma í veg fyrir að ríkið safni skuldum. Þannig gefst okkur svigrúm til að fást við vaxandi kostnað vegna breyttrar aldurssamsetningar án þess að þyngja skattbyrðina óhóflega.

Í öðru lagi þarf að auka langtímasparnað m.a. í lífeyrissjóðum eða með öðrum ámóta hætti þannig að fólk með tekjur leggi fjármuni fyrir til elliáranna. Stöðugleiki í efnahagsmálum og fjölbreytni sparnaðarforma hafa áhrif í þessa átt auk skattívilnana.

Í þriðja lagi þarf að skipuleggja samspil lífeyristryggingabótakerfisins og lífeyrissjóðakerfisins, en smám saman munu greiðslur úr lífeyrissjóðum verða mikilvægari þáttur í afkomu eldra fólks en nú er og lífeyrisbætur verða lágmarkstrygging og takmarkast við þá sem þurfa á aðstoð samfélagsins að halda.

Herra forseti. Að þessum langtímamarkmiðum mun ríkisstjórnin vinna um leið og hún mun leitast við að laga þá ágalla sem ætíð munu koma upp þegar bætur eru tekjutengdar.