Öryggismál fiskiskipa og stöðugleikamælingar

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 14:18:26 (4051)

1997-02-27 14:18:26# 121. lþ. 81.96 fundur 216#B öryggismál fiskiskipa og stöðugleikamælingar# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[14:18]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég hlýt að láta í ljósi undrun yfir málflutningi hv. þm. og sérstaklega hlýt ég að láta í ljós undrun yfir því að hann skyldi ekki hafa vakið máls á þessu ástandi sem honum hefur verið svo lengi kunnugt á fiskiskipaflotanum, hefur þó átt sæti í samgn. Alþingis og hefur setið hér nokkurn tíma. Það hefur gefið honum fyllsta möguleika á því að taka málið sjálfur upp að fyrra bragði. Það hefur þó ekki til þess komið, en á hinn bóginn hefur hann fengið í hendur, að ég hygg, skýrslu um stöðugleika íslenskra fiskiskipa sem unnin var af Siglingastofnun síðustu tvo mánuði. Þessi skýrsla hefur verið lögð fram í siglingaráði og er til meðferðar bæði hjá samtökum sjómanna, farmanna, fiskimanna, vélstjóra og hjá útgerðarmönnum og það er verið að vinna upp úr henni.

Ég hlýt líka að láta í ljósi undrun mína yfir þeim þunga áfellisdómi, sem fólst óbeinlínis í orðum hv. þm., um þá menn sem hafa unnið að öryggismálum sjómanna á undanförnum árum til hennar gömlu Siglingamálastofnunar og þeirra manna sem hafa unnið úti á örkinni að öryggismálum þegar hann gefur það í skyn að um það séu mýmörg dæmi að undanþágur hafi verið gefnar frá öryggiskröfum og gefur það í skyn og segir beinlínis í Dagblaðinu að fjöldi sjómanna, hann nefnir töluna 500, séu í hættu vegna þess að eftirlit sé ekki nóg og vegna þess að hér séu 100 skip með skipstjórum sem leggja út á hafið og fara á fiskveiðar þó þeir hafi um það gögn í höndum að þeir séu á skipum sem séu hættuleg sjálfum þeim og öryggi þeirra sjómanna sem þar eru. Ég hélt satt að segja að fullyrðingar af þessu tagi heyrðu fortíðinni til.

Sannleikurinn er sá að á undanförnum árum hefur verið markvisst unnið að því að draga úr slysum á sjó. Það hefur verið markvisst unnið að því að skýra betur fyrir fiskimönnum og sjómönnum almennt hversu mikilvægt það er að reynt sé að bera virðingu fyrir því að skip séu rétt hlaðin og þar fram eftir götunum. Og þar sem hv. þm. er einmitt ættaður að vestan úr Hnífsdal ætti honum að vera það vel kunnugt að fyrir 6--7 árum, ætli það hafi ekki verið 1988--1989, var gert sérstakt átak í Djúpinu vegna þeirra slysa sem þar höfðu orðið. Niðurstaðan af því varð sú að síðan hefur ekki komið fyrir að skip hafi keyrt sig niður á þessum slóðum. Aflinn var látinn niður í lestar og annað eftir því og starfsmenn Siglingastofnunar hafa farið á Breiðafjörð og víðar, haldið námskeið með sjómönnum og skipstjórnarmönnum og reynt með þeim hætti að vinna að öryggi sjómanna. Hið sama á við um sjómannasamtökin sjálf og siglingaráð. Þar hefur verið unnið að þessum sömu málum.

Hitt er alveg laukrétt hjá hv. þm., og kemur fram í skýrslu, að auðvitað eru enn til í flotanum skip sem ekki eru til gögn um stöðugleika og sem ekki standast stöðugleikaprófun. Ástæðan er sú að áður fyrr meðan okkar gömlu skipasmiðir og bátasmiðir voru við lýði voru ekki til teikningar af skipum eins og nú er orðið heldur smíðuðu menn skip sem vel höfðu reynst. Ef við förum yfir slys og annað, þá sjáum við að gömlu færabátarnir, sem fóru á færi, línu og net með gamla laginu, stóðu sig vel. Ég hygg að það sé almennt viðurkennt af mönnum sem hafa hugsað um þessi mál að auðvitað er nauðsynlegt að hafa stöðugleikaprófun á skipi sem er óreynt, nýju skipi eða skipi sem fer í miklar breytingar, en ef við erum að tala um gamla báta, við getum tekið sem dæmi vararbátana gömlu frá Akureyri, Níels Jónsson á Hauganesi, hér sé ég þingmann frá Dalvík sem þekkir þessi mál, þá var auðvitað ekki stöðugleikaprófun á því skipi þegar það var smíðað á 7. áratugnum. Það var ekki fyrr en 1975 sem byrjað var að stöðugleikaprófa fiskiskip. Síðan hefur verið unnið að því af Siglingastofnun og er unnið að því núna áfram að afla gagna um stöðugleika, vinna sig áfram og við erum fremstir þjóða í þessum efnum. Þær alþjóðasamþykktir sem hafa verið verið gerðar hafa verið gerðar að kröfu okkar Íslendinga og Hjálmar Bárðarson var m.a. formaður í alþjóðlegri nefnd sem vann að því að auka stöðugleika fiskiskipa.

Ég efast ekki um að hv. þm. gangi gott til með því að vekja máls á þessu hér nú, en ég fullyrði það að fiskimenn, starfsmenn Siglingastofnunar nú og fyrr og líka þeir sem kenna í Stýrimannaskólanum eru að vinna saman að þessum málum, þeir eru að bæta úr þessum málum og það er unnið á mjög heilbrigðan og eðlilegan hátt að því að draga úr slysum á sjó.