Öryggismál fiskiskipa og stöðugleikamælingar

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 14:36:12 (4057)

1997-02-27 14:36:12# 121. lþ. 81.96 fundur 216#B öryggismál fiskiskipa og stöðugleikamælingar# (umræður utan dagskrár), ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[14:36]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það er alltaf brýnt og þakkarvert að ræða öryggismál sjómanna, en þó verður að segjast eins og er að of djúpt er í árinni tekið hjá hv. málshefjanda þegar hann segir að öryggismál sjómanna séu öll í miklu óefni. Það er rangt. Það eru einstaka þættir í öryggismálum sjómanna sem þarf að huga betur að og mega mun betur fara. Eitt af þeim atriðum eru stöðugleikamælingar, annað sjálfvirkur sleppibúnaður og þriðja atriðið er flotvinnugallar. Þetta eru kannski brýnustu verkefnin sem þarf að fjalla um í öryggismálum sjómanna.

Þingnefnd var sett á stofn í kjölfar hins hörmulega Helliseyjarslyss 1984 og sú nefnd, skipuð þingmönnum undir forustu Péturs heitins Sigurðssonar, skilaði 30 tillögum sem ollu byltingu í öryggismálum sjómanna. Öllum þessum tillögum hefur verið fylgt eftir. Að vísu hafa tvær þeirra fengið bakslag í seglin síðan og það eru þau tvö atriði, stöðugleikamælingarnar og sjálfvirkur sleppibúnaður. Öll önnur hafa verið unnin og fylgt eftir og almennt eru öryggismál sjómanna í allgóðu lagi.

Það má nefna einn þátt líka sem var lengi mikið baráttumál, þ.e. ný og fullkomin björgunarþyrla sem auðvitað er snar þáttur í auknu öryggi sjómanna. Það er mikil ástæða til að hvetja hæstv. samgrh. til að fylgja eftir þeim þáttum sem út af standa í þessum efnum. Hér hefur verið minnst á sjálfvirkan sleppibúnað björgunarbáta. Um árabil hefur verið mikil togstreita í þeim efnum. Sigmundsbúnaður sem lengst af hefur verið eini búnaðurinn sem hefur verið löggiltur fékk löggildingu 1982--1987, þá var hann tekinn út. Hann fékk síðan aftur löggildingu 1995 alveg óbreyttur frá fyrri tíma. Þetta sýnir lausung og óstjórn í öryggismálum sjómanna. Þrívegis hefur verið veittur frestur til að koma á sjálfvirkum sleppibúnaði í björgunarbáta og vonandi veitir samgrh. ekki frest á ný þegar þetta á að taka gildi 1. apríl nk.