Öryggismál fiskiskipa og stöðugleikamælingar

Fimmtudaginn 27. febrúar 1997, kl. 14:38:45 (4058)

1997-02-27 14:38:45# 121. lþ. 81.96 fundur 216#B öryggismál fiskiskipa og stöðugleikamælingar# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur

[14:38]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristjáni Pálssyni fyrir að taka þetta mál upp á Alþing því að þetta er gríðarlega alvarlegt mál. Málefni sem varða öryggi sjómanna eru þau mál sem hvað mestan forgang eiga að hafa í samfélaginu.

Það sem hefur vakið örlítinn ugg í brjósti mér sökum þess hversu alvarleg þessi umræða er, er hvernig menn nálgast þetta. Menn hafa gefið sér forsendur út frá þessari skýrslu, en í henni kemur fram að hún er ekki ábyggilegt, vísindalegt gagn. Í sumum tilvikum er aðeins prófað eitt tilvik af sex eða sjö og það er sérstaklega tekið fram í skýrslunni að mjög erfitt sé að draga af henni einhverja ábyggilega niðurstöðu. Þess vegna þótti mér eftirtektarvert þegar hv. þm. Kristján Pálsson orðaði það svo að hér væru á ferðinni dauðagildrur. Það er mjög alvarlegt þegar alþingismenn taka svo stórt upp í sig í málefnum sem þessum, í málefnum sem varða hundruð manna, sjómanna, aðstandendur og fleiri, að menn séu að draga slíkar ályktanir af þessari skýrslu sem sérstaklega tekur þó fram að megi ekki draga slíkar ályktanir, að menn skuli fullyrða í sölum Alþingis að einhver skip sem eru á floti, sem eru á sjó, séu dauðagildrur. Menn verða að gæta orða sinna í þessari umræðu því að hún má ekki fara út í slíka vitleysu.

Virðulegi forseti. Það er þó eitt sem eftir stendur í þessu og kom sérstaklega fram í fréttum sjónvarpsins í gær, en þar kemur fram að það sé vilji nýrrar Siglingastofnunar að gera stöðugleikareglur afturvirkar svo að þær nái til bæði eldri og nýrri skipa. Ég spyr því hæstv. samgrh.: Er hugsanlegt að Siglingastofnun geti ekki gripið inn í og svipt tiltekin skip haffærisskírteini ef í ljós kemur að þau standast ekki kröfur um stöðugleika? Eru reglur þannig úr garði gerðar að í einhverjum tilvikum geti Siglingastofnun ekki svipt þessi skip haffærisskírteini? Getur það verið? Ég vona að svo sé ekki.