Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 04. mars 1997, kl. 14:00:36 (4165)

1997-03-04 14:00:36# 121. lþ. 83.5 fundur 381. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (félagsmálanefndir, ráðgjöf, fjárhagsaðstoð o.fl.) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[14:00]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga á þskj. 670.

Í gildandi lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga er ákveðið í ákvæði til bráðabirgða að lögin skuli endurskoðuð innan fimm ára frá gildistöku þeirra. Því þurfti þessi endurskoðun að fara fram og hún er framkvæmd af nefnd sem ég skipaði í maí 1996. Í nefndina voru skipuð Jón Björnsson, tilnefndur Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristján Pálsson alþingismaður, tilnefndur af þingflokki Sjálfstfl., Ólafur Hilmar Sverrisson bæjarstjóri, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Siv Friðleifsdóttir alþingismaður, tilnefnd af þingflokki Framsfl. og Árni Gunnarsson, aðstoðarmaður minn sem var formaður nefndarinnar. Með nefndinni störfuðu Ingibjörg Broddadóttir deildarstjóri og Þorgerður Benediktsdóttir deildarstjóri, báðar í félmrn.

Hugmyndin að baki þeim endurskoðunarákvæðum var sú sýn að málefni fatlaðra mundu sameinast félagsþjónustu sveitarfélaga í náinni framtíð og því væri rétt að taka bæði lögin til endurskoðunar á sama tíma. En eins og þingheimi er kunnugt þá lauk endurskoðun laga um málefni fatlaðra með samþykkt laga nr. 161/1996. Þar var tekið af skarið um að hefja undirbúning þess að færa málefni fatlaðra til sveitarfélaga og verkefnaflutningurinn kæmi til framkvæmda 1. janúar 1999. Sá verkefnaflutningur kallar á ný lög um félagsþjónustu sveitarfélaga sem taki einnig til laganna um málefni fatlaðra, þ.e. lögin um málefni fatlaðra verði felld inn í félagsþjónustulögin.

Þar sem svo veigamikil endurskoðun á lögunum um félagsþjónustu sveitarfélaga er fram undan samkvæmt framansögðu þótti rétt á þessu stigi málsins að einskorða endurskoðun laganna við þau atriði sem nauðsynleg eru talin, einkanlega þau atriði sem komið hafi í ljós við framkvæmd laganna að þurfi breytinga við eða breytt sjónarmið hafa skotið upp kollinum.

Herra forseti. Meginatriði frv. eru þrjú:

Í fyrsta lagi að félagsmálanefnd sem fer með barnaverndarmál verði skipuð fimm fulltrúum. Um þetta atriði vísast til 1. gr. frv. og skýringar frv. á þeirri grein. Ástæða þessarar breytingar er sú að ákvæði laga um félagsþjónustu og laga um vernd barna og ungmenna skarast hvað varðar fjölda nefndarmanna í félagsmálanefnd og barnaverndarnefnd. Þannig skal félagsmálanefnd skipuð þremur fulltrúum hið fæsta en barnaverndarnefnd ávallt skipuð fimm fulltrúum. Því er lagt til í frv. að þegar sú ákvörðun sveitarstjórnar liggur fyrir að félagsmálanefnd fari með verkefni barnaverndarnefndar verði félagsmálanefnd skipuð fimm fulltrúum upp frá því.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að sveitarfélögum verði skylt að bjóða upp á félagslega ráðgjöf. Hér er dæmi um að sjónarmið hafa breyst frá gildistöku laganna frá 1991 eins og getur um í skýringum við 5. gr. frv. Reynslan sýnir að nú þykir sjálfsagt að sveitarfélög bjóði upp á félagslega ráðgjöf t.d. þegar vandasöm fjölskyldumál eiga í hlut enda verði fólki ekki veitt viðhlítandi þjónusta með öðrum hætti. Ekki er gerð krafa um að sveitarfélög hafi fastan starfsmann í þessari þjónustu t.d. í fámennum sveitarfélögum heldur er nægjanlegt að sveitarfélög ráði mann til þess verks þegar þörf krefur. Hér er lögð áhersla á að fólk eigi aðgang að þessari þjónustu en sveitarfélögin að sjálfsögðu sjálfráð um hvaða fyrirkomulag þau telja heppilegast.

Í þriðja lagi er lagt til að lögfest verði hámark þess tíma sem skylt er að greiða fjárhagsaðstoð aftur í tímann. Hér er um að ræða nýmæli í lögunum sem er tilkomið vegna úrskurðar úrskurðanefndar félagsþjónustu eins og nánar er rakið í skýringum við 7. gr. frv. Meginatriðið er að ef ekki er tekið á þessu atriði í lögum um félagsþjónustu gilda um það meginreglur kröfuréttar sem þýða að aðstoð skuli veitt frá þeim tíma er umsækjandi geti sýnt fram á að hann hafði þörf á fjárhagsaðstoð samkvæmt lögum og reglum sveitarfélagsins. Hér getur hugsanlega verið um langan tíma að ræða og það er nauðsynlegt að takmarka þann tíma og lagt til að hámarkið verði fjórir mánuðir. Enda finnst mér eðlilegt að viðkomandi hafi áttað sig á því á fjórum mánuðum að hann þurfi á aðstoð að halda og sótt um hana. Þetta þýðir að sveitarfélagi er ekki skylt að greiða fjárhagsaðstoð lengra en fjóra mánuði aftur í tímann.

Ég vil líka benda á að 2. og 3. gr. frv. miða að því að auka sjálfstæði sveitarfélaga um stjórn og skipulag málaflokksins. Ég vísa til skýringa með frv. við einstakar greinar og sé ekki ástæðu til að orðlengja það meira.

Í málefnum félagsþjónustu sveitarfélaga hefur orðið mikil þróun og mig langar til, herra forseti, að rifja upp hvað segir í ómagabálki Grágásar en þar segir svo, með leyfi forseta: ,,Svo er mælt að sína ómaga á hver maður fram að færa á landi hér. Móður sína á maður fyrst fram að færa, en ef hann orkar betur, þá skal hann færa fram föður sinn. Nú má hann betur, þá skal hann börn sín. Nú má hann betur, þá skal hann systkin sín fram færa. Nú má hann betur, þá skal hann færa fram þá menn er hann á arf að taka eftir og þá menn er hann hefir arftaki tekna. Nú má hann betur og þá skal hann framfæra leysing sinn þann er hann gaf frelsi. Ef nokkur þeirra manna gengur að hans ráði er nú var taldur enda eigi hann fé til að færa þá fram þá verður hann útlagur gerr of það ef þeir ganga.`` Það er rétt að geta þess að útlægur er ekki það að hann skuli sendur utan heldur skuli hann leggja út fyrir þeim kostnaði sem af þessu hlýst. Þetta er sem sagt úr ómagabálki Grágásar.

En ég vil geta um hreppstjórnarinstrúks Magnúsar Stephensens sem veitti töluvert mikla réttarbót varðandi sveitarframfæri en þar eru nú komin mannlegri sjónarmið í umræðuna, en í hreppstjórnarinstrúksinu voru ákvæði sem skylduðu hreppstjóra til að fylgjast með því ,,... að sérhver ómagi forsorgist vel og forsvaranlega bæði með tilliti til þrifnaðar, fatnaðar, uppeldis unglinga og menntunar í bóklestri, kristindómi, góðum siðum og vinnu og að þeim með þessu verði ekki svo of þyngt að baga þurfi framför þeirra og þroska eða bila þá til heilsu og sjái hann um að þeir haldist við sama kost og aðbúnað sem annað verkafólk eða börn á bænum.`` Þetta er sem sagt frá 1809.

Mig langar til að vitna til 51. gr. fátækralaga frá 31. maí 1927. Ég endurtek, herra forseti, frá 1927 þar sem segir um vald sveitarstjórna yfir þurfamönnum: ,,Nú sýnir þurfalingur mikla óhlýðni eða þrjósku við sveitarstjórn eða hann sökum leti, drykkjuskapar, illinda eða óknytta eykur sveit sinni sýnileg þyngsli og má þá sveitarstjórnin láta setja hann í fangelsi við venjulegt fangaviðurværi í allt að þrjá mánuði, þó því aðeins að lögreglustjóri veiti samþykki sitt til þess í hvert sinn eða setji hann í nauðungarvinnu með samþykki lögreglustjóra og eftir reglum er ráðherra þar um setur. Kostnaður við fangavist eftir þessari grein greiðist af sveitarsjóð.``

Herra forseti. Viðhorfin hafa breyst. Mér finnst nokkuð fróðlegt að sjá það að 1927 voru menn að samþykkja lög hér á Alþingi svohljóðandi eins og þessi 51. gr. fátækralaga. Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira. Ég vil gera tillögu um að þetta mál verði sent til athugunar í hv. félmn. að lokinni þessari umræðu og vænti þess að það fái afgreiðslu þar fyrir vorið. Það er hafinn undirbúningur að yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna og við erum að skipuleggja þá vinnu og nauðsynlegt að þessar tiltölulega litlu breytingar liggi fyrir áður en að heildarendurskoðun laganna verður framkvæmd.