Notkun síma í bifreiðum

Miðvikudaginn 05. mars 1997, kl. 13:44:39 (4205)

1997-03-05 13:44:39# 121. lþ. 84.2 fundur 360. mál: #A notkun síma í bifreiðum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur

[13:44]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Þann 11. maí árið 1988 samþykkti Alþingi ályktun sem borin var fram af hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur og fleirum um að settar yrðu reglur um notkun síma í bifreiðum. Á þeim tíma var notkun síma við akstur þó ekki orðin jafnútbreidd plága og síðar varð. Nú munu um 50 þúsund farsímar vera í notkun í landinu og er það að verða æ algengara að það fólk sem maður mætir t.d. á flóknum gatnamótum sé malandi í síma. Aðalvarðstjóri lögreglunnar í Reykjavík telur að þau umferðaróhöpp sem orðið hafa undanfarið og megi rekja til símanotkunar séu allmörg. Hann biður um lagasetningu um þessi mál og þykir engum mikið.

Í Kanada var gerð sérstök rannsókn á hættunni sem fylgir talsímanotkun við akstur og benda niðurstöður til þess að ökumenn sem tala í síma við akstur fjórfaldi slysahættuna í umferðinni. Auðvitað eru símar í bílum mikilvæg öryggistæki og geta verið til mikilla þæginda, síst skal hér dregið úr því. En það hlýtur að þurfa að gera þá kröfu að ökutæki sé stöðvað á meðan ökumaðurinn talar í símann.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að símtal við akstur er jafnhættulegt og ölvun við akstur og þá hljóta allir að fara að skilja alvöru málsins og þörfina á lagasetningu þar sem bannað verður að tala í síma við akstur. Um setningu slíks banns hefur verið rætt á hinum Norðurlöndunum og víða um lönd hefur verið bannað að tala í síma við akstur. Sumir hafa jafnvel bannað með öllu farsíma í bílum sem ég tel nú allt of langt gengið. Fólk hefur áhyggjur af þróun þessara mála, herra forseti, og þess vegna hefur hv. þm. Guðrún Helgadóttir lagt fram eftirfarandi fyrirspurn á þskj. 634:

,,Hvað líður gerð reglna um notkun síma í bifreiðum samkvæmt ályktun sem Alþingi samþykkti 11. maí 1988?``