Orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis

Miðvikudaginn 05. mars 1997, kl. 14:41:52 (4213)

1997-03-05 14:41:52# 121. lþ. 85.8 fundur 340. mál: #A orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis# skýrsl, LB
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur

[14:41]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil líkt og aðrir þeir sem hér hafa talað þakka fyrir þá skýrslu sem hér hefur verið lögð fram og er um margt eins og kom fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni mjög sérstæð og hugsanlega einsdæmi í veröldinni því aðstæður hér á landi bjóða upp á alveg einstakar rannsóknir á félagslegum vandamálum. Sú skýrsla sem hér liggur fyrir fjallar einungis um líkamlegt ofbeldi en ekki andlegt en vitaskuld eru þessir tveir þættir óaðskiljanlegir. Það er alveg ljóst að það heimilisofbeldi sem fram fer er yfirleitt langtímaofbeldi, ofbeldi sem á stað oft og endurtekur sig og afleiðingin af því er vitaskuld mikið andlegt ofbeldi sem því fylgir.

Hæstv. dómsmrh. fór ágætlega yfir þessa skýrslu, tiltók nokkuð skilmerkilega hvað hún hefur að geyma og hverjar niðurstöður hennar voru svo það er óþarfi að endurtaka það hér. Það sem mig langaði sérstaklega að fjalla um í umræðunni um þessa skýrslu eru viðbrögð eða möguleikar þeirra einstaklinga sem fyrir þessu verða á að leita sér aðstoðar. Það kemur fram á bls. 34 í þessari skýrslu að það er ekki mikið sem hið opinbera býður upp á fyrir þá sem fyrir ofbeldinu verða að geta leitað til. Ef við förum yfir þann lista sem hér er þá er hér lögreglan, prestur, slysavarðstofan og félagsmálastofnun sem má segja að séu nánast hinir einu aðilar sem hægt er að leita til á vegum hins opinbera og það eitt út af fyrir sig hlýtur að vera dálítið umhugsunarefni fyrir okkur, þ.e. að hið opinbera eða samfélagið býður ekki þeim aðilum sem fyrir ofbeldi verða upp á marga kosti til að leita til.

Það sem vekur kannski sérstaka eftirtekt í þessu er að einungis 28,6% af þeim sem til lögreglu leita vegna þessara mála eru ánægð með þá meðferð sem mál þeirra fá hjá lögreglu. Ég vil sérstaklega í þessu sambandi þakka það að hæstv. dómsmrh. nefndi það áðan að hann hefði hug á að koma á fót tveimur sérfræðinganefndum, annars vegar sérfræðinganefnd á sviði löggæslumála með það að verkefni að reyna að leita leiða til að gera aðkomu lögreglu mun betri að þessum málum en nú er og auka þá möguleika og hins vegar sérfræðinganefnd á sviði dómsmála. Ég held að það sé vel og að það sé sérstök ástæða til þess að þakka viðbrögð hæstv. dómsmrh. í þessu máli og að hann skuli beita sér með þessum hætti eftir að sú skýrsla sem hér liggur fyrir kemur fram.

[14:45]

Það sem er mér hugleikið í þessu, virðulegi forseti, er þetta með lögregluna. Það er umhugsunarefni að einungis 28% eru ánægð með þau viðbrögð sem lögreglan sýnir við málaleitan þeirra. Það þarf kannski ekki að koma svo mjög á óvart. Í fyrsta lagi vantar inn í þessa skýrslu hverjar væntingar þeir sem verða fyrir ofbeldi hafa til lögreglu eða gera til lögreglu þegar þeir leita þangað því að það er alveg ljóst að hér er á ferðinni ofbeldi sem framið er á heimilum, heimilum sem njóta friðhelgi og því á lögreglan mjög erfitt um vik með að aðstoða þá eða rannsaka þau mál sem upp kunna að koma sökum þess að heimilið er friðhelgt. Það ofbeldi sem hér er á ferðinni, ég er að tala um ofbeldi sem beitt er gagnvart konum, er yfirleitt beitt af nákomnum aðilum sem þýðir að þeir sem leita til lögreglu eru að leita eftir því að lögreglan taki til meðferðar nákomna aðila sem hlýtur vitaskuld ætíð að vera mjög erfitt. Og það hefur sýnt sig að mjög margar kærur sem lagðar eru fyrir lögreglu í málum af þessu tagi eru afturkallaðar, þ.e. menn vilja að þessi viðkomandi mál séu felld niður og það út af fyrir sig þarf ekki að koma á óvart því að oft og tíðum er það þannig og það er mín reynsla af þessum málum, en ég kom talsvert að svona málum í þeim störfum sem ég hef sinnt, að oftar en ekki eru afbrotin framin í áfengisvímu. Það er leitað til lögreglu þá strax um nóttina oft og tíðum. Það er það mynstur sem oft á sér stað. Það er leitað til lögreglu strax en svo daginn eftir er kæran afturkölluð. Þetta mynstur er gríðarlega algengt.

Það ber líka að nefna í þessu sambandi að sönnunarreglur í þessum málum eru vitaskuld hinar sömu og gengur og gerist, þ.e. meginreglan er sú að maður er saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð og það ofbeldi sem hér er til umræðu á sér yfirleitt stað þar sem einungis tveir einstaklingar eiga í hlut. Það er sjaldnast sem slíkt ofbeldi á sér stað innan um fjölmenni þannig að þessi mál eru eðli sínu samkvæmt gríðarlega erfið í meðförum hjá lögreglu. Ég skildi hæstv. dómsmrh. svo hér áðan þegar hann ræddi um þá sérfræðinganefnd sem hann hygðist koma á fót að þetta væri eitt af þeim málum, þ.e. hugsanleg umfjöllun um sönnunarbyrði í slíkum málum, sem hlyti að koma til skoðunar í vinnu þessarar nefndar.

Ég get tekið eitt dæmi sem ég þekki mætavel þar sem kona kærði sambýlismann sinn í einu máli og dró það svo til baka. En þegar sami atburður átti sér stað aftur þá endurtók hún kæruna. Þau voru einungis tvö á vettvangi og hann hafði vitaskuld sínar skýringar á því hvers vegna þetta hafði gerst. En sakir fjölda tilviljana var hægt að sýna fram á að þau höfðu verið ein í þrjá eða fjóra klukkutíma. Hún hafði verið heil þegar þau fóru inn og hún hafði talsverða áverka þegar næst sást til hennar. Og það var hægt að sýna fram á með aðstoð sérfræðinga að hún gat ekki hafa fengið þá áverka sem hún fékk samkvæmt þeim skýringum sem sambýlismaðurinn gaf. En það kostaði mikla vinnu sérfræðinga til þess að sýna fram á að þetta væri hægt. Það voru kannski frekar tilviljanir en annað sem réðu því að hægt var að fara með þetta mál fyrir dóm þannig að þessi mál eru gríðarlega erfið og mjög sérstæð.

Niðurstaða mín er sú að að óbreyttum sönnunarreglum sé mjög ólíklegt að hægt sé að ætlast til þess að lögreglan geti orðið þungavigtarstofnun þegar kemur að úrræðum sem samfélagið hefur upp á að bjóða vegna heimilisofbeldis. Ástæðan er einföld því á meðan hún starfar eftir þeim reglum sem um hana gilda, reglum um meðferð opinberra mála, sönnunarreglum um friðhelgi einkalífs o.s.frv., er ólíklegt að hún geti orðið þungavigtarstofnun sem úrræði vegna þessara mála.

Eins og eldri rannsóknir bera með sér, sýna niðurstöður þessarar rannsóknar að heimilisofbeldi gagnvart konum á engar einfaldar skýringar. Fjárhagslegt og félagslegt öryggisleysi, barnsburðarhlutverkið, áfengi og afbrýðissemi eru þættir sem skýra að einhverju leyti ofbeldi gegn konum en langt er frá því að þar sé að finna tæmandi talningu á þeim þáttum. Sýnt er þó að skýringar ofbeldis er ekki að finna í einstaklingsbundnum einkennum eða félagslegum aðstæðum þeirra kvenna sem beittar hafa verið ofbeldi. Ofbeldi gagnvart konum verður ekki skýrt út frá einni orsök heldur verður það aðeins skýrt út frá mörgum mismunandi orsakaþáttum. Hafa verður í huga að engin ein skýring er algild. Ekkert bendir til þess í rannsókninni að einstakir hópar í þjóðfélaginu verði frekar fyrir ofbeldi en aðrir. Ofbeldi er alvarlegt vandamál samfélagsins eins og niðurstöður rannsóknarinnar staðfesta. Ofbeldi er mannréttindabrot. Því verður að leggja áherslu á forvarnir og að fræðsla nái til allra þar sem ein meginniðurstaða rannsóknarinnar er sú að ofbeldi fyrirfinnst í öllum hópum. Forvarnir og fræðsla verða ekki markvissar nema byggt sé á þekkingu og þessi rannsókn sem við ræðum hér er gott innlegg til þeirrar þekkingaröflunar.