Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 14:48:08 (4267)

1997-03-11 14:48:08# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[14:48]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir miður að ég lýsi eindregnum vonbrigðum mínum yfir þessum svörum hæstv. ráðherra. Þau eru gjörsamlega ófullnægjandi. Það er hins vegar ástæða til þess að spyrja alveg sérstaklega í tilefni af ráðstefnu á vegum ríkisstjórnar um einkavæðingu að þá segir í tilvitnum í hæstv. forsrh.: ,,Einkaaðilar eignist 49% í ríkisbönkum.`` Það vekur athygli að talan 49% hefur breyst á seinustu stundu í 35% þó það skipti nú kannski engum sköpum. Eitthvað hefur átt sér stað bak við tjöldin í sambúð stjórnarflokkanna í aðdraganda að þessum breytingum og hvort það hefur dugað til þess að berja niður þekkta andstöðu innan þingflokks Framsfl. skal ósagt látið. En ég vil minna hæstv. ráðherra á annað. Það dugar ekki að vísa í almennar stefnuyfirlýsingar. Við erum hér að tala um lagafrv. Ég minni hæstv. ráðherra á það að samkvæmt samkeppnislögum og skýrslu sem fram var lögð á Alþingi af fyrirrennara hæstv. ráðherra, þáv. viðskrh. Sighvati Björgvinssyni, er lögð sérstök áhersla á að kanna beri stjórnunar- og eignatengsl, hringamyndun og valdasamþjöppun í íslenskum fyrirtækjastrúktúr. Og það er vakin athygli á því að á sérstökum sviðum, eins og sviði trygginga, olíuverslunar, flutninga, útflutnings sjávarfangs, ferðaþjónustu og viðskiptum, hafa myndast hér fyrirtækjablokkir. Ef menn óttast það fyrst og fremst í sambandi við þá sjálfsögðu framkvæmd að breyta bönkum í hlutafélög að það kunni, ef illa er á málum haldið, að leiða til skerðingar á samkeppni, enn meiri samþjöppunar eigna, enn nánari vensla tiltölulega fárra stórra fyrirtækja, þá ber hæstv. ríkisstjórn sem vill beita sér fyrir slíku máli (Forseti hringir.) að leggja fram skýran lagatexta um það, með aðferðafræði um það hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst koma í veg fyrir það og framfylgja stefnuyfirlýsingu sinni sem er loðin og einskis virði eins og hún er.