Skattatillögur ríkisstjórnarinnar

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 16:35:26 (4282)

1997-03-11 16:35:26# 121. lþ. 87.96 fundur 236#B skattatillögur ríkisstjórnarinnar# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[16:35]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér fagnaðarefni þegar samningar takast á vinnumarkaði en hins vegar er afar sérkennilega að málum staðið hér. Það er búið að semja við um það bil þriðjung launafólks á almennum vinnumarkaði ef marka má fréttir fjölmiðla. En áður en lengra er haldið er ríkisstjórnin búin að spila út sínu spili sem enn einu sinni felst í því að reikningurinn er sendur til ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin hefur ákveðið skattalækkanir upp á 4--5 milljarða. Ég hef ekki séð neina útfærslu á því hvernig þetta dæmi virkar en það hlýtur að vera ljóst að þeir fá hlutfallslega mest sem mest hafa, alla vega upp að vissu marki, ef hátekjuskatturinn virkar inn í þetta dæmi. Ég spyr mig þeirrar spurningar hvort ekki hefði verið nær að hækka persónuafsláttinn þannig að allir fengju sömu krónutöluhækkun og þeir þar með hlutfallslega hæst sem minnst hafa.

Því er oft haldið fram, hæstv. forseti, að skattar séu háir hér á landi, en í samanburði við okkar nágrannalönd eru þeir það ekki. Það eru hins vegar launin sem eru allt of lág og fólk er að borga skatta af allt of lágum launum. Ég vil taka fram í þessari umræðu, hæstv. forseti, í ljósi þess sem hæstv. fjmrh. hefur látið frá sér fara, m.a. í Morgunblaðinu í dag þar sem vikið er að því hvernig þessu tekjutapi ríkissjóðs verði mætt. Þar segir hann, með leyfi forseta:

,,... þannig að ef tekjur ríkisins rýrnuðu verulega við þetta yrði að mæta því með lækkun útgjalda.``

Þetta er auðvitað hættan, hæstv. forseti, að menn fari út í þær aðgerðir að skera enn meira niður í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. Og það má ekki gerast. Það hljóta að verða fyrirtækin í landinu sem eiga að standa undir launum og ef þau geta það ekki þá erum við í vondum málum, herra forseti. Við stöndum frammi fyrir því að hér verða að vera lífvænleg kjör ef við ætlum okkur yfirleitt að halda vinnuaflinu í landinu.