Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 19:09:41 (4317)

1997-03-11 19:09:41# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[19:09]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Það geta verið einhverjar búksorgir, herra forseti, í Hafnarfirði yfir flokkslitnum á ábyrgðarmönnunum en úti um land alls staðar þar sem ég þekki til eru menn í öllum stjórnmálaflokkum starfandi saman í sparisjóðum. Og þar sem ég á sæti sem ábyrgðarmaður í sparisjóði eru menn úr öllum stjórnmálaflokkum. Þannig að þetta er eitthvert Hafnarfjarðarvandamál sem er ekki rétt að koma hér með.

Í öðru lagi spyr ég, herra forseti: Hver er þá stefna hv. þm.? Ef hann getur ekki fagnað því að við komum einhverju máli af stað þótt smátt sé farið í upphafi, hvað vill hann þá? Ég reyndi að hlusta á hans löngu ræðu hér áðan og gat ekki skilið hvað hann vildi. Ég gat ekki áttað mig á því hvað hann vildi helst gera en hann var ákaflega óánægður með þetta samt. Ég vil meina að það sé ekkert fagnaðarefni í sjálfu sér þó að menn taki þessa fjárfestingarlánasjóði og setji þá saman. Það er þá betra heldur en hafa þá hvern í sínu lagi vegna þess að við vissum að þeir voru í mjög miklum erfiðleikum með að sinna sínu hlutverki. Hér er því farið af stað og hér er byrjað á því og reynt að benda á þær leiðir og ég held að það komi fram í frv. að það geti reynst okkur til góða. Ég hef engar áhyggjur af því, herra forseti, hver kann að kaupa þetta hlutafé. Ég hef bara áhyggjur ef það skyldi ekki seljast. Og ég mundi hér og nú vil ég segja, að það væri mikið fagnaðarefni ef Alþingi Íslendinga gæti stigið það skref á næstu árum að við opnuðum þessa banka þannig að við fengjum inn erlent fjármagn til þess einmitt að styrkja þessar stofnanir, til að gera þær samkeppnishæfar við stofnanir erlendis. Því menn ætla að keppa við það, fyrirtæki Íslands munu keppa á alþjóðlegum grundvelli í bankamálum og því er okkur mjög nauðsynlegt að þessar stofnanir séu nógu traustar. Það skiptir máli.